-6.7 C
Selfoss

Karlakór Selfoss syngur inn sumarið

Vinsælast

Það er 59 ára gömul hefð fyrir vortónleikum Karlakórs Selfoss á sumardaginn fyrsta. Og nú, þegar hillir undir lok á tiltölulega þægilegum vetri, boða kórfélagar til tónleika í Selfosskirkju að kvöldi sumardagsins fyrsta, þann 25. apríl, kl. 20:00. Á æfingum í vetur hafa um 60-70 félagar mætt á hverju mánudagskvöldi, og auðvitað hefur kórinn komið fram við ýmis tækifæri. Má nefna að Karlakór Selfoss tók þátt í veglegum 40 ára stórtónleikum Lúðrasveitar Þorlákshafnar 13. apríl sl. og svo hefur kórinn sungið við ófáar jarðarfarir á liðnum vetri.

Snemma síðastliðið haust var kynnt fyrir kórfélögum metnaðarfull söngdagskrá sem tekur m.a. mið af fyrirhugaðri söngferð Karlakórs Selfoss til Salzburg í Austurríki í sumar. Meðal laga sem tengjast Austurríkisferðinni má nefna Dóná svo blá, Alparósog Vín, Vín, þú aðeins ein. Og meðal nýrra verka sem kórinn hefur æft í vetur er lagði Borgin við ána þar sem Valgeir Guðjónsson er höfundur bæði lags og texta. Auðvitað eru svo einnig hefðbundin ramm-íslensk karlakórslög á dagskránni.

Þeir eru sem fyrr í fararbroddi Skarphéðinn Þór Hjartarson stjórnandi kórsins og Jón Bjarnason píanóleikari, en samstarfið við þá félaga hefur gengið vel undanfarin ár.

Sem fyrr segir verða tóleikar haldnir í Selfosskirkju á sumardaginn fyrsta og síðan verða tónleikar nr. 2 haldnir í Selfosskirkju þriðjudaginn 30. apríl kl. 20:00 og svo verður sungið í Fella- og Hólakirkju í Reykjavík fimmtudaginn 2. maí kl. 20:00. Lokatónleikar þetta vorið verða laugardaginn 4. maí í Skálholtsdómkirkju kl. 17:00.  

Aðgöngumiðaverð er kr. 4000.

VBr.

Nýjar fréttir