-7.7 C
Selfoss

Dívustælar og Stelpurokk Jórukórsins á Sviðinu

Vinsælast

Fimmtudagskvöldið 2. maí nk. klukkan 20.00 heldur Jórukórinn sína árlegu vortónleika. Tónleikarnir munu fara fram á Sviðinu sem er einn glæsilegasti tónleikasalur Suðurlands.  Lagaval kórsins mun að þessu sinni hæfa tónleikastaðnum einkar vel. Sviðið er staðsett í miðbæ Selfoss og eftir því sem kórinn kemst næst verður þetta fjölmennasta framkoma listamanna á Sviðinu til þessa.

Jórukórinn, sem er kvennakór á Selfossi og var stofnaður árið 1996, hefur unnið frá áramótum að þeim lögum sem flutt verða á vortónleikunum. Kórstýra Jórukórsins er engin önnur en tónlistarkonan Unnur Birna Björnsdóttir sem hefur stjórnað kórnum frá haustinu 2021. Unnur Birna hefur frá því að hún tók við kórnum útsett allnokkur lög sem kórinn hefur flutt en hún hefur einnig unnið í því að virkja tónlistina í hverri og einni konu.

Fugees, Spice Girls og Hljómar

Á dagskrá vortónleikanna að þessu sinni er því bæði að finna lög útsett eftir Unni Birnu og sömuleiðis lög sem kórkonur hafa útsett sjálfar, undir stjórn Unnar. Lagavalið í ár er einkar fjölbreytt og má þar m.a. finna lög eftir Fugees, Spice Girls, Hljóma, Svavar Knút og Cyndi Lauper, það ættu því öll að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Einvala lið tónlistarmanna

Á tónleikunum verður boðið upp á einsöng, dúetta og fleira, allt úr röðum kórkvenna. Til stuðnings við kórinn þetta kvöld kemur einnig fram einvala lið tónlistarmanna sem eru þeir Pétur Valgarð Pétursson á gítar, Sigurgeir Skafti Flosason á bassa, Óskar Þormarsson á trommum og þar að auki mun Unnur Birna sjálf spila á píanó þegar þess gerist þörf og hver veit nema hún grípi í hljóðfærið sem hún er þekktust fyrir að spila á, fiðluna.

Þetta verður viðburður sem enginn getur látið framhjá sér fara og lofa kórkonur skemmtilegu kvöldi með stórkostlegum tónlistarflutningi. Nýlega opnaði Jórukórinn heimasíðu og þar fer fram, um þessar mundir, miðasala á viðburðinn. Miðaverð á tónleikana er 4.900 kr í forsölu en 6.000 kr við hurð. Barinn á Sviðinu verður opinn á tónleikunum.

Einungis 200 miðar verða seldir á þennan viðburð en færri hafa komist að en vilja á tónleika kórsins að undanförnu, því hvetja kórkonur fólk til að hafa hraðar hendur og næla sér í miða.

Fyrir þau sem vilja taka forskot á sæluna og sjá brot af því sem boðið verður uppá á tónleikunum, er hægt að fylgjast með kórkonum á æfingadegi sem fram fer á Sólheimum í Grímsnesi á morgun í gegnum Instagram síðu kórsins.

Jórukórinn

 

Nýjar fréttir