-3.2 C
Selfoss

Hvað var gott við daginn í dag  ?                                              

Vinsælast

Getur verið að við séum ekki nægilega dugleg að gefa því góða í deginum gaum og næra okkur með jákvæðum tilfinningum?

Lífið er allskonar, fullt af gleði en einnig sorg og færir okkur ýmis verkefni í fang sem geta verið bæði stór, erfið og ósanngjörn. En eru til leiðir sem geta hjálpað í erfiðum aðstæðum?

Stutt er síðan byrjað var að rannsaka gildi jákvæðra tilfinninga. Jákvæðar tilfinningar eru mikilvægar því þær eru þægilegar, ánægjulegar, góðar fyrir heilsuna og jafn raunverulegar og neikvæðar tilfinningar. Jákvæðar tilfinningar auðvelda okkur að leysa vandamál, við verðum opnari fyrir tækifærum, eigum auðveldara með að tengjast öðrum, og þær efla þrautseigju og bjartsýni.

Þrír góðir hlutir er æfing úr smiðju jákvæðu sálfræðinnar sem getur hjálpað okkur að sjá það góða í deginum, virkjað jákvæðar tilfinningar og aukið vellíðan. Æfingin gengur út á það að í lok dags er hugsað um þrjá góða hluti/atriði sem þú tókst þátt í og gerðu daginn skemmtilegan eða góðan. Þessi æfing er alveg tilvalin fyrir fjölskyldur að gera til dæmis við kvöldverðarmatarborðið, þá byrjar einn fjölskyldumeðlimur á að segja frá þrem góðum hlutum í sínum degi og svo tekur næsti við. Að þurfa að nefna þrjú atriði er mikilvægt því þá er verið að æfa sig í að sjá að hið daglega líf og hið hversdagslega er gott og skemmtilegt, og vægi þess erfiða sem dagurinn bauð upp á verður minna.

Er ekki tilvalið að grípa boltann, æfa þrjá góða hluti, efla jákvæðar tilfinningar og auka vellíðan? Gangi ykkur vel.

Ester Þorvaldsdóttir,
hjúkrunarfræðingur á HSU

Nýjar fréttir