-1.1 C
Selfoss

„Sjúklega gaman að elska vinnuna sína“

Vinsælast

Magnetic naglaskóli er staðsettur í Hafnarfirði en tveir kennarar við skólann, Anna Karen Vigdísardóttir og Lísa Gunnarsdóttir ætla að færa naglaskólann yfir heiðina og bjóða sunnlendingum upp á diplómunámskeið í naglafræðum í Fjölheimum á Selfossi helgarnar 10.-12. maí og 31. maí – 2. júní nk. Blaðamaður Dagskrárinnar náði tali af þeim stöllum sem eru spenntar fyrir verkefninu.

Anna Karen útskrifaðist sem naglafræðingur árið 2007 og Lísa sléttum 10 árum síðar, árið 2017. „Ég fer alveg að komast á eftirlaun í faginu,“ segir Anna Karen og hlær. Eftir útskrift hafa þær báðar bætt við sig fjölbreyttu framhaldsnámi og kennsluréttindum og saman sjá þær um alla kennslu hjá skólanum, uppsetningu kennsluefnis, grunn- og framhaldsnámskeið, auk þess að sjá um heimasíðu og samfélagsmiðla fyrirtækisins, en Magnetic er einn stærsti innflytjandi á vörum og verkfærum fyrir naglafræðinga hér á landi. „Magnetic er eins og fjölskylda hér á Íslandi. Þetta er ótrúlega flott merki, allar vörur og framleiðsla kemur frá Hollandi, gæðastöðullinn er mjög hár og til að fá að kenna á þessi efni hérna heima þurfum við að fara út og mennta okkur hjá þeim. Okkur finnst það segja mikið um gæðin. Við erum 8 sem vinnum hjá Magnetic á Íslandi og yrðum ekki hissa á því ef við færum ein af annarri að breytast í neglur, áhuginn er svo mikill. En það er sjúklega gaman að elska vinnuna sína,“ bætir Anna Karen við hlæjandi.

„Hentug vinna með annarri vinnu“

Anna Karen og Lísa eru á einu máli um að naglafræðin hafi fangað hug þeirra allan. „Þetta hefur verið mitt áhugamál og vinna síðan ég var 18 ára. Ég hef aldrei séð eftir því að hafa farið í námið, enda hefur það hjálpað mér á svo mörgum tímabilum í mínu lífi. Þetta er hentug vinna með annarri vinnu og ég tala nú ekki um félagslegu hliðina. Við erum á Facebook, Instagram og svo finnst okkur við stundum sjúklega fyndnar á TikTok,“ segir Anna Karen kímin.

Alltaf átt heima á Selfossi að einhverju leyti

En hvernig kom til að þær ákváðu koma með naglaskólann á Selfoss? „Anna Karen kom með þessa hugmynd og við stukkum bara á hana. Við sáum okkur tækifæri til að koma til móts við landsbyggðina á Suðurlandi,“ segir Lísa. Anna Karen segir Selfosshjartað hennar slá fastar en hjá mörgum Selfyssingum og að þó hún hafi aldrei átt lögheimili þar, hafi hún samt alltaf að einhverju leyti átt heima þar. „Svo mig langaði bara að troða mér þar sem mér líður best. Að gera neglur og gera þær á Selfossi. Á tímabili fór ég einu sinni í mánuði og gerði neglur á Selfossi. Mér fannst það svo svakalega gaman. Helst hefði ég viljað búa svona 50/50 heima í Kópavogi og á Selfossi. Þessi hugmynd kom bara eitt kvöldið á leiðinni heim úr kennslu. Ég veit ekki hvort fólk kannist við tilfinninguna að það sé svo skemmtilegt að gera eitthvað að maður sé við það að springa, en þetta var ein af þeim stundum og ég fann bara að við urðum að fara á Selfoss. Og nú er það bara að verða að veruleika!,“ segir Anna Karen og brosir út að eyrum.

„Klárlega vöntun á naglafræðingum á Suðurlandi“

Þær segja markmiðið með naglaskólanum á Selfossi vera að koma til móts við sunnlendinga. „Þetta er draumur hjá mörgum sem hafa kannski ekki tök á því að keyra í bæinn, fólk sem er kannski ekki með bílpróf eða einfaldlega treystir sér ekki að keyra yfir heiðina,“ segir Lísa. Anna Karen bætir við að þær hafi verið með nemendur allsstaðar að. „Það hafa alveg nokkrir komið frá Suðurlandi og lagt það á sig að keyra í bæinn á námskeið. Nú ætlum við bara að færa okkur nær þeim sem vilja láta drauminn rætast. Ég get alveg sett mig í spor þeirra sem finnast þetta spennandi en eru kannski ekki komin með bílpróf og geta ekki keyrt í bæinn til að sækja sér námskeið. Það er alveg klárlega vöntun á naglafræðingum á Suðurlandinu þar sem við sjálfar erum með viðskiptavini sem koma í hverjum mánuði alla leið út í Hafnarfjörð í neglur, og þá er ég ekki einusinni að djóka. Ég sjálf er til dæmis með viðskiptavin úr Eyjum og eina sem á heima fyrir utan Selfoss. Tryggir og traustir viðskiptavinir sem segir kannski að maður sé að gera eitthvað rétt.“

Vissi ekki að hún væri í lokaprófi

Þær hafa tekið á móti allri flórunni af nemendum á sínum kennsluferli, með ólíkar skoðanir og bakgrunn, þær eru sammála um hvað þeim þykir gaman að kynnast nýjum nemendum og hafa þær eignast margar dýrmætar vinkonur í gegnum kennsluna. „Við kenndum einu sinni frábærri konu á besta aldri sem átti frekar erfitt með námið í upphafi en brann fyrir því að ljúka því. Við unnum mikið með henni og pössuðum sérstaklega upp á hana þar sem hún þurfti svo mikið á því að halda. Hún var með rosalegan prófkvíða og vafðist það mikið fyrir henni að þurfa að taka lokaprófið. Í lok síðasta tímans færðum við henni diplómu og óskuðum henni til hamingju með að vera orðin naglafræðingur, hún hafði ómeðvitað verið í lokaprófi í síðasta tímanum og hafði staðist það. Hún brotnaði bara niður og grét, hún var svo glöð og trúði þessu alls ekki. Henni datt ekki í hug að hún væri í prófi og hvað þá að hún hefði náð því. Þetta er svona með eftirminnilegri atvikum sem ég man eftir þar sem þetta gaf okkur og henni svo mikið,“ segir Lísa brosandi.

Hver veit nema naglaskólinn komi reglulega á Selfoss?

Aðspurðar hvernig þær sjái naglaskólann þróast segjast þær vilja fara eins langt og þær komist. „Við bindum vonir við að geta farið með skólann á Austur- og Vesturland en það verður auðvitað að svara kostnaði. Draumurinn er að geta kennt eins mörgum og vilja fá okkur. Við höfum verið með nokkra skóla á Akureyri en við viljum líka bjóða öðrum á landinu upp á okkar þjónustu líka og varð Selfoss fyrst á listanum. Mögulega verður þetta að föstum liði hjá okkur og við komum reglulega með skólann á Selfoss, hver veit?,“ segir Lísa og yppir öxlum. „Það er alltaf hugsunin að stækka. En að sjálfsögðu viljum við frekar að gæðin séu ofar og það er það sem við erum að hugsa í dag. Það að dóttir mín og vinkonur hennar segist vilja verða eins og ég þegar þær verði stórar hvetur mig áfram og gefur mér hlýtt í „naglahjartað“, en okkur þykir mikilvægt að nýta okkar vettvang til að fræða unga einstaklinga um fagið og fara djúpt í hlutina. Við viljum reyna okkar allra besta til að upplýsa, kenna þeim að passa upp á neglurnar sínar og halda sig fjarri offramboðinu af skaðlegum efnum sem gætu valdið þeim eða öðrum varanlegum skaða,“ segir Anna Karen að lokum.

Skráning í naglaskólann fer fram á www.mskoli.is eða á info@mskoli.is.

Nýjar fréttir