-1.6 C
Selfoss

Minningar- og styrktartónleikar Bjarka Gylfasonar og fjölskyldu

Vinsælast

Þann 17. apríl næstkomandi kl. 19:00 verða haldnir minningar- og styrktartónleikar á Sviðinu á Selfossi fyrir Bjarka Gylfason heitinn og fjölskyldu. Bjarki fæddist árið 1988 á Selfossi og var uppalinn á Stokkseyri. Hann greindist með 4. stigs ristilkrabbamein undir lok árs 2022 eftir að hafa glímt við alvarlega sáraristilbólgu í 17 ár. Bjarki lést á heimili sínu í faðmi fjölskyldu sinnar þann 20. mars síðastliðinn eftir hetjulega baráttu, en hann skilur eftir sig eiginkonu, Guðrúnu Ástu Ólafsdóttur, og 2 börn, þau Heiðrúnu Bjarkadóttur, 10 ára, og Ólaf Þór Bjarkason, 8 ára.

Bjarki var uppalinn á Stokkseyri, lagði stund á nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands á sínum tíma og spilaði körfubolta með uppeldisfélagi sínu, Þór Þorlákshöfn, um langa hríð og Álftanesi frá árinu 2022. Hann stundaði veiðar og naut sín mikið í útivist og ævintýrum ýmisskonar, var vinamargur og þeir sem þekktu til hans hafa lýst honum sem einstaklega lífsglöðum, vini vina sinna og frábærum liðsfélaga sem lét ekkert stoppa sig í að lifa lífinu til fulls alla tíð

Vegna alvarlegra veikinda frá ungum aldri var Bjarka ekki mögulegt að tryggja sig fyrir alvarlegum áföllum sem þessum. Söfnun var komið af stað fyrir fjölskylduna á lokastigum veikinda Bjarka og til að vekja frekari athygli á henni og sýna fjölskyldunni samhug og stuðning í verki, samhliða því að fagna minningu Bjarka, verða umræddir minningar- og styrktartónleikar haldnir þann 17. apríl næstkomandi og mun allur ágóði renna til fjölskyldunnar sem stendur frammi fyrir breyttum veruleika eftir atburði undanfarinna missera.

Allir sem koma að tónleikunum gefa vinnu sína, ekki einungis þeir listamenn sem koma fram heldur m.a. einnig þeim sem standa að Sviðinu, db Entertainment sem sjá um tæknimálin, Ölgerðin sem gefur rausnarlegar veigar í veitingasölu og Tilefni.is sem sjá um skreytingar. Eftirtaldir koma fram á tónleikunum ásamt frábæru úrvali hljóðfæraleikara:

Diljá Pétursdóttir, Júlí Heiðar, Guðrún Árný, Gunni Óla, Þórir Geir, Fríða Hansen, Hara systur ásamt Arnari Mammút og Einsa made in sveitin, Dúett – Opera Comedy, Sædís Lind, Anna María, Dagný Sif og Heiðrún Bjarkadóttir.

Til viðbótar tónleikunum munu Þór Þorlákshöfn og Álftanes efna til vináttuleikjar til styrktar fjölskyldunni í maí næstkomandi.

Fjölskyldan og aðrir aðstandendur Bjarka og fjölskyldu hans eru afar þakklát óeigingjörnu framlagi þeirra sem koma að tónleikunum og þeirra sem hafa séð sér fært að styrkja þau með ýmsum hætti í gegnum þessa erfiðu tíma.

Miðasala á tónleikana fer fram á svidid.is og fer vel af stað.

Söfnunarreikningurinn hér að neðan er á nafni Guðrúnar Ástu, eiginkonu Bjarka, og er tekið þar við frjálsum framlögum.

Reiknisnr. 0370-26-048318
Kt. 080390-2039
Aur: 868-1930

Nýjar fréttir