-0.5 C
Selfoss

Draumar, konur & brauð

Vinsælast

Ný íslensk kvikmynd, Draumar, Konur & Brauð, verður frumsýnd í Bíó Paradís laugardaginn 20. apríl nk. klukkan 15.

Myndin, sem er fyrsta bíómynd Sigrúnar Völu Valgeirsdóttur og Svanlaugar Jóhannsdóttur, dansar á línu heimildamyndar og leikinnar bíómyndar. Hún fjallar í grunninn um drauma og dagdrauma kvenna sem reka kaffihús á landsbyggðinni. Áhorfandinn er tekinn með í ævintýraríkt ferðalag um Ísland, þar sem hlýlegur húmor og töfrandi tónlist tvinnast við ferðalag tveggja kvenna, þjóðsögur og minni í anda töfraraunsæis. Sigrún og Svanlaug skrifa handrit og leikstýra jafnframt.

Aðaltökur fóru fram í byrjun sumars 2023 í fimm landshlutum með íslensk-egypsku tökuliði. Tökum lauk í janúar 2024 og þá með íslenskri áhöfn. Lena Naassana og Jón Már Gunnarsson stjórnuðu upptökum en Jón Már sér jafnframat um brellur. Lína Thoroddsen er klippari.

Óvænt hringferð um Ísland

Myndin segir frá því þegar Svana, listakona (Svanlaug Jóhannsdóttir) og Agnes, líffræðingur (Agnes Eydal), hittast á litla sveitakaffihúsinu við víkina og fara óvænt saman í hringferð um Ísland. Svana leitar leiða til að bjarga listamannsferli sínum en Agnes þarf að sækja dýrmætt uppsjávarsýni í Neskaupstað. Róstur listakonunnar og kæruleysi kemur Agnesi í vanda sem hún leysir að lokum á máta sem henni hefði ekki hugkvæmst að hún ætti til.

Í gegnum ferðina og leikritaskrif Svönu kynnumst við kaffihúsakonunum Heiðu Björg Scheving, Gamla Fjósi undir Eyjafjöllum, Sigríði Þórbjörgu Vilhjálmsdóttur, Kaffi Nesbæ, Neskaupstað, Fríðu Björk Gylfadóttur, Frida Chocolate Siglufirði, mæðgunum Guðrúnu Fjólu Kristjánsdóttur og Sigríði Hafliðadóttur, Kaffi Litlabæ í Skötufirði og Ólínu Gunnlaugsdóttur, samkomuhúsinu Arnarstapa í Snæfellsbæ. Við skyggnumst inn í kaffihúsa- og veitingareksturinn, líf þeirra og drauma.

Á meðan á ferðinni stendur er Sigrún (Sigrún Vala) að stússa á litla kaffihúsinu og dreymir um að vinna kökukeppnina á sólstöðuhátíð sveitarinnar sem fer fram eftir viku. Agnes vill endilega hjálpa vinkonu sinni og reynir að finna fyrir hana uppskriftir á leiðinni. Milla frá Brekku (Júlía Hannam), formaður Menningarnefndar Reykjavíkurborgar, er heiðursgestur á hátíðinni og Svana vill endilega hitta á hana í lok hringferðirnar og sýna henni nýja leikritið sitt.

Hringferðin hefst í Fjöruhúsinu á Hellnum og endar á Sólstöðuhátíðinni í Samkomuhúsinu á Arnarstapa, þar sem allar konurnar koma saman til að taka þátt í keppninni.

Nýjar fréttir