Guðrún Arndís Tryggvadóttir myndlistarmaður hefur búið á Selfossi um tíu ára skeið. Hún er fædd í Reykjavík en dvaldi lengi erlendis við nám og störf. Suðurland hefur sterk tök á henni enda á hún hingað ættir að rekja og hefur m.a. kafað í sögu forföður síns Ámunda Jónssonar, listamanns og smiðs sem var einn helsti listamaður og kirkjusmiður átjándu aldar á Suðurlandi og gert bæði málverk, sýningar og bók um lífsverk hans.
Á síðasta ári gaf Guðrún verk sitt Kafarann til sveitarfélagsins Árborgar og síðan er stöðug sýning á verki hennar Kafaranum í Sundhöll Selfoss.
Um þessar mundir standa yfir sýningar á málverkum Guðrúnar, bæði í Sundlaug Hafnar í Hornafirði og í nýju þjóðgarðsmiðstöð Snæfellsjökulsþjóðgarðar á Hellissandi.
Guðrún bjó um tíma í Hveragerði og var þá formaður Listvinafélagsins í Hveragerði og hannaði m.a. stöðuga sýningu um skáldin í Lystigarðinum í Hveragerði. Sýningin er í formi stórra glerveggja sem standa víða í garðinum en falla vel inn í umhverfið vegna gagnsæisins. Hún vann einnig við upphengingar sýninga á Listasafni Árnesinga og hélt þar listnámskeið um árabil auk þess að taka þátt í sýningum á safninu.
Guðrún hefur nú skipulagt faglegar vinnustofur, helgarnámskeið fyrir litla hópa, sem haldin verða í vinnustofu hennar á Selfossi nú í apríl. Áherslan er á olíumálun, bæði fyrir byrjendur sem lengra komna. Námskeiðin verða í anda Masterclass-námskeiða þar sem fræðilegri og verklegri reynslu Guðrúnar í baráttu við olímálverkið verður veitt áfram en olíutæknin hefur verið hennar aðaltjáningarmiðill allan hennar feril.
Aðeins sex þátttakendur geta tekið þátt á hverju námskeiði en Guðrún veitir nánari upplýsingar í gegnum netfangið gudrun@tryggvadottir.com eða í síma 863 5490. Á vef hennar tryggvadottir.com má sjá upplýsingar um feril hennar og skoða verkin hennar.