1.1 C
Selfoss

Bækurnar koma bara til mín

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Norma E. Samúelsdóttir.

Norma E. Samúelsdóttir er fædd í Skotlandi, faðir skoskur en móðir íslensk. Ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur. Bjó með fyrrverandi eiginmanni og þremur börnum í Breiðholti, síðan í Þingholtunum. Flutti til Hveragerðis árið 2000. Félagi í Myndlistarfélagi. Árnessýslu. Stundar ritstörf og málun. Er amma og langamma níu barna. 

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Enga sérstaka bók þessa stundina, horfi á áhugaverða þætti á you-tube, hlusta á  þætti á RÚV,  meðal annars um bókmenntir og frásagnir af fólki meðan ég teikna á blað. 

Fékkstu lestraruppeldi í æsku?
Las stelpubækur fyrst, um Öddu, Dóru og auðvitað Nonna bækurnar. Grimms ævintýrin.   Man að ég var mikið í litlu bókasafni í Melaskólanum, las þar og las. Kapitola var mikil bók sem ég las í kringum fermingu. Vaknaði snemma áhugi á dulrænum bókum, ævisögum. Lítið gefin fyrir „spennandi” bækur. Bækur um athyglisbrest og þar má nefna Women with attention deficit disorder eftir Sari Solden. Listaverkabækur og ljóðabækur gríp ég í.   

Fjölskyldan bjó hjá afa, kennaramenntuðum vörubílstjóra og ættfræðingi, er hafði ungur byrjað að safna bókum, átti um tíma eitt stærsta bókasafn í einkaeign. Dóttir hans og móðir mín las Nýjala Helga Pjeturss,  pabbi, útlendingurinn, trúleysinginn og grínistinn, var ALLTAF með pocket-book í höndum – ekkert sjónvarp í þá daga – þannig að bækur voru allsstaðar. Það þurfti að fara vel með bækur. Dóttir og dótturdóttirin sáu um að þurrka og viðra hverja einustu bók á vorin. Við það sluppu bræðurnir.  

Ég man ekki eftir að mamma hafi lesið fyrir mig, húsmæður höfðu meira að gera áður fyrr  enda engar vélar til að létta störfin, en pabbi sagði mér sögur, þó ekki með bók í hönd. Ég bað víst alltaf um að hann segði mér söguna umJack and the beanstock eða Jóa og bauna-grasið. Skyldi mest allt, skoskuna, hann talaði með höndunum þegar baunagrasið stækkaði og stækkaði langt upp í himin. Vænst finnst mér um bók sem ég á enn í dag, sem ömmusystir mín, auntie Nan gaf mér Little folks; Nursery rhymes. Kunni eftirfarandi:  Jack and Jill went up the hill – to fetch a pail of water – Jack fell down and broke his crown – and Jill came tumbling after. Pabbi kunni  lögin við kvæðin frá því hannn var barn – til dæmis London bridge is falling down. Í minningunni sungum við saman. 

Hvað einkennir lestrarvenjur þínar?
Ekki mikið að segja um það. Les lítið meðan ég reyni að skrifa. Verð að vera í góðum gír þegar ég les, á erfitt með einbeitingu vegna boðefnaskorts. Margar nýjar bækur sem mig langar að lesa til dæmis nýjustu skáldsögur Steinunnar Sigurðardóttur og Auðar Övu Ólafsdóttur. Les oft á bækur Pjeturs Hafsteins Lárussonar í fésbókinni. 

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?
Nei, á mér ekki uppáhaldshöfunda, bækur koma bara til mín, finn þær. Ditta mannsbarn eftir Martin Andersen Nexö hafði mikil áhrif á mig á sínum tíma. Lesið þrjár nýlegar bækur undanfarið, Dúnstúlkuna í þokunni eftir Bjarna Bjarnason, Morðin í Dillonshúsi eftir Sigríði Dúu Goldsworthy og Einurð, ljóðabók eftir Draumeyju Aradóttur. Fyrir 25-30 árum rakst ég á bók í lítilli prentsmiðju, var að bíða eftir afgreiðslu, bókin heitir Ísmaðurinn og ég mátti taka með mér eintak heim. Hún er eftir Þorstein Antonsson. Sagan hafði djúp áhrif á mig og  tilkynnti ég höfundi það í bréfi. Hvatvís að vanda. Kynntist svo Þorsteini síðar í Hveragerði,  höfum verið samferðamenn síðastliðin 24 ár og ég  lesið mörg handrita hans og bækur. 

Að lokum Norma, hvernig bækur skrifar þú sem rithöfundur?
Af því að ég er rithöfundur svara ég þessari spurningu öðruvísi. Sá sem hefur staðið í því að skrifa og þekkir umrótið, sköpunina, stressið, gagnrýnina, hrósið, kostnaðinn sem fylgir skrifum og hvernig smátt og smátt árin líða og hvernig það er að skrifa með lítil börn og veikindi, fer svo að átta sig á að það er hægt að gefa út sjálfur ef ekki fæst útgefandi. Hann svarar öðruvísi. Bækur í sjálfsútgáfu eru af fræðingum ekki taldar „ekta” og ritstyrkir því ekki auðsóttir. Það er skiljanlegt að það sé æskilegt að rithöfundar skili forlagi sínu hagnaði. Krimmar eru núna vinsælir hjá íslensku þjóðinni, ekki myndi ég þola álagið sem vinsælustu rithöfundunum er boðið upp á. Þeir verða að skila inn góðu verki hvert einasta ár. Nú eru þeir tímar að hljóðbókin er að taka yfir. Leikarar fá vel borgað fyrir að lesa bækur hjá Storytel, en höfundarnir sjálfir fá lítið sem ekkert. 

Ég get enn hlegið að uppátæki mínu fyrir ein jólin, var með bók það ár, lagðist í flensu, opið útvarp þar sem auglýsingar um bækur hljómuðu í eyrum. Datt þá í hug að panta fáorða auglýsingu: Melastelpan! MINNST selda jólabók ársins! Útgefandi. – Hef aldrei heyrt nokkurn „commentera” á hana. Heyrði hana einhver?

En að lokum langar mig hinsvegar að skrifa stóra bók um eina ætt á 150 ára tímabili. Hef reynt það í mörg ár, en ég held ég velji úr efniviðnum sem kominn er, að þetta verði heimildaskáldsaga um þrjá ættliði, dugnaðarforka með vestfirsk gen, þrjá Valdimara, langafa, afa og bróður minn heitinn. 

Nýjar fréttir