-0.5 C
Selfoss

Ljósheimar fagna 40 ára afmæli

Vinsælast

Hjúkrunarheimilið Ljósheimar á Selfossi fagnaði 40 ára afmæli sl. sunnudag og var þeim merka áfanga fagnað með pompi og prakt. „Ljósheimar byrjuðu sem öldrunarheimili á Austurvegi 28, á gamla sjúkrahúsi Suðurlands. Fyrsti heimilismaðurinn flutti inn þann 24. mars 1984, en þá var hjúkrunarheimilið á þremur hæðum og bauð upp á pláss fyrir 24 heimilismenn. Þar var hjúkrunarheimilið starfrækt í 24 ár áður en það flutti á aðra hæð á HSU í febrúar 2008. Þremur mánuðum síðar opnuðu Fossheimar á þriðju hæð HSU og í dag bjóðum við upp á pláss fyrir 40 heimilismenn,“ segir Unnur Eyjólfsdóttir, deildarstjóri á Ljósheimum í samtali við DFS.is.

Gamlir starfsmenn Ljósheima. Ljósmynd: Aðsend.

„Afmælisfögnuðurinn fór vonum framar, Karlakór Selfoss söng og starfsmenn okkar léku undir á fiðlur og píanó. GK bakaði ljúffenga köku fyrir okkur og Kjartan Björnsson hélt ræðu fyrir hönd Sveitarfélagsins Árborgar. Við viljum þakka öllum sem hafa gefið okkur gjafir og má þar sérstaklega nefna Oddfellow stúkuna Þóru, Lionsklúbbinn Dynk og Kvenfélag Grímsneshrepps,“ segir Unnur að lokum.

Ljósheimar fjármagna flest hjálpartækjakaup úr gjafasjóði og eru öll framlög vel þegin. Rn: 0133-26-017090 Kt: 491115-0250.

Nýjar fréttir