…segir lestrarhesturinn Ásta Guðmundsdóttir
Ásta Guðmundsdóttir er hönnuður og listakona sem býr í Kaldbaki á Eyrarbakka. Hún lærði fatahönnun í Þýskalandi. Árið 2000 stofnaði hún sitt eigið vörumerki ásta créative clothes. Hún rekur ásamt tíu öðrum listakonum Kirsuberjatréð á Vesturgötu 4 í Reykjavík þar sem hún selur verkin sín. Undanfarin tuttugu ár hefur Ásta sinnt listsköpun sinni og sumarið 2022 stofnaði hún alþjóðlegu listahátíðna Hafsjór/Oceanus á Eyrarbakka. Í framhaldi af því varð til Dálítill sjór í júlí 2023.
Hvaða bækur ertu að lesa núna?
Núna er ég á ferðalagi í Afríku og tók með mér nýju bókina hennar Vigdísar Grímsdóttur, Ævintýri og er að lesa hana.
Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ég les gjarnan sakamálasögur og eru þar Henning Mankell og Lisa Marklund í uppáhaldi en einnig ljóðrænar bækur eins og verk eftir Vigdís Grímsdóttur og Gyrðir Elíasson.
Ertu alin upp veið bóklestur?
Ég elskaði Línu Langsokk þegar ég var barn. Ég upplifði frelsi og framandi ævintýr í gegnum hennar persónu. Já ég held að mamma hafi lesið fyrir mig eða sagt mér sögur og svæft mig þannig. Það er eitthvað undursamlegt við það ef einhver les fyrir mann.
En hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?
Ég tek syrpur, les mikið stundum en svo leggst ég í dvala inn á milli. Ég hlusta hins vegar stöðugt á útvarp og hlaðvörp og eru feðginin Vera og Illugi Jökulsson þar í uppáhaldi.
Áttu þér uppáhaldshöfunda?
Já, Auður Ava Ólafsdóttir og Gyrðir Elíasson eru uppáhaldshöfundarnir mínir. Ég elska stemninguna í bókunum þeirra.
Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?
Já það hefur alveg komið fyrir að ég hef ekki getað hætt að lesa undir svefninn. Man ekki hvaða bók það var síðast en það er fábært þegar það gerist.
En að lokum Ásta, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?
Ég er hrifin af bókum sem lýsa stemningu og þú heyrir músik og finnur jafnvel lykt. Þannig bók myndi ég vilja skrifa.