-0.5 C
Selfoss

Góð mæting á Héraðsþing HSK í Árnesi

Vinsælast

Góð mæting var á 102. héraðsþing HSK sem haldið var í Félagsheimilinu Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í gær, fimmtudag. Þingið hófst stundvíslega kl. 17.00 og þingslit voru kl. 20:20. Þetta var í þriðja sinn sem héraðsþingið er haldið í Árnesi, en þing sambandsins voru haldin þar árin 1972 og 1984.

Eitt nýtt félag hafði sótt um aðild að sambandinu frá síðasta þingi, en það var Judofélag Suðurlands sem stofnað var 5. mars 2023. Þingið samþykkti umsókn félagsins og nú eru  aðildarfélög sambandsins 54 talsins.

Val á íþróttakarli HSK og íþróttakonu HSK 2023 var kunngjört á þinginu. Það voru þau Sigurjón Ægir Ólafsson úr Íþróttafélaginu Suðra og Heiðrún Anna Hlynsdóttir úr Golfklúbbi Selfoss sem hlutu titlana að þessu sinni.

HSK veitti nokkur sérverðlaun á þinginu. Skeiðamaðurinn Ingvar Garðarsson var valinn öðlingur ársins hjá HSK. Körfuknattleiksdeild Umf. Þórs hlaut foreldrastarfsbikar HSK, Hestamannafélagið Jökull hlaut unglingabikar HSK og Umf. Selfoss  var stigahæsta félagið í heildarstigakeppni HSK, þar sem árangur í öllum HSK mótum sambandsins telur.

HSK, ÍSÍ og UMFÍ heiðuðu nokkra einstaklinga á héraðsþinginu fyrir þeirra sjálfboðaliðsstörf fyrir hreyfinguna. Guðmunda Ólafsdóttir úr Umf. Þjótanda og formaður Frjálsíþróttaráðs HSK hlaut silfurmerki HSK.

ÍSÍ veitti eitt gullmerki og þrjú silfurmerki. Lárus Ingi Friðfinns Bjarnason úr Hamri og stjórnarmaður í HSK var sæmdur gullmerki ÍSÍ og silfurmerki ÍSÍ hlutu Gissur Jónsson frá Umf. Selfoss og hjónin Þórdís Bjarnadóttir úr Íþr.f. Suðra og Ófeigur Ágúst Leifsson frá Íþr.f. Suðra og Umf. Selfoss.

UMFÍ veitti þrjú Starfsmerki UMFÍ og þau sem fengu merkið voru þau Gestur Einarsson Umf. Gnúpverja, Helga Kolbeinsdóttir Umf. Gnúpverja og Ingvar Garðarsson Umf. Skeiðamanna.

En breyting varð á stjórn HSK. Olga Bjarnadóttir sem hefur átt sæti í varastjórn HSK frá árinu 2016 gaf ekki kost á sér til endurkjörs, en hún var á síðasta ári endurkjörin í stjórn ÍSÍ og tók þá við embætti 2. varaforseta ÍSÍ. Guðrún Ása Kristleifsdóttir úr Umf. Hvöt var kosin ný í varastjórn. Stjórn HSK 2024 skipa þau Guðríður Aadnegard formaður, Guðmundur Jónasson gjaldkeri, Anný Ingimarsdóttir ritari, Helgi S. Haraldsson varaformaður og Jón Þröstur Jóhannesson meðstjórnandi. Varastjórn skipa Gestur Einarsson, Guðrún Ása Kristleifsdóttir og Lárus Ingi Friðfinns Bjarnason.

Vegleg myndskreytt ársskýrsla HSK kom út á héraðsþinginu og hana má sjá á heimasíðu HSK, www.hsk.is.

Nýjar fréttir