4.5 C
Selfoss

Hinsegin vikan í Árborg  

Vinsælast

Hinsegin vikan var haldin í þriðja sinn í Árborg vikuna 26. febrúar til 1. mars síðastliðinn. „Það er gaman að sjá hvað allt samfélagið er tilbúið að sýna samstöðu og taka þátt í þessum degi með okkur. Leikskólar, skólar og frístundaþjónustan voru með litríka og skemmtilega dagskrá þar sem meðal annars var unnið með regnbogaþema. Fjölmargar stofnanir sveitarfélagsins ásamt fyrirtækjum tóku þátt og víðsvegar var regnbogafánum flaggað,“ segir Ellý Tómasdóttir, forvarnarfulltrúi og forstöðumaður frístundahúsa Árborgar í samtali við Dagskrána.

Regnbogarúllan úr GK bakarí. Ljósmynd: Aðsend.

„Félagsmiðstöðin Zelsíuz var með ýmislegt á dagskrá sem tengist hinseginleikanum og GK bakarí var með til sölu regnbogarúllu sem sló heldur betur í gegn. Öllum krökkum í fyrsta bekk í sveitarfélaginu var færð bókinVertu þú að gjöf frá forvarnarteymi Árborgar og útibúum bankanna hér í Árborg. Við erum virkilega þakklát fyrir að bankarnir hafi tekið vel í að styrkja bókakaupin og þannig gert okkur kleift að geta fært þeim þessa fallegu bók,“ bætir Ellý við.

Íbúum var að auki boðið upp á fræðslu frá Sólveigu Rós um hinseginleikann. „Sólveig er foreldra- og uppeldisfræðingur með sérhæfingu í hinsegin málum og fjölbreytileika. Fræðslan var virkilega einlæg og fræðandi. Bókasafnið var með hinsegin þema hjá sér og fékk til sín Margréti Tryggvadóttur rithöfund sem hefur meðal annars skrifað bækurnar Sterk og Stolt, sem fjalla um trans stúlkur af einlægni og virðingu, en Sterk hlaut einmitt Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur árið 2021. Vikan endaði svo á regnbogadegi þar sem öll voru hvött til að klæðast fötum í öllum regnbogans litum og fagna saman fjölbreytileikanum,“ segir Ellý og brosir breitt.

Við erum öll í þessu saman

„Vikan gekk virkilega vel og höfum við trú á því að hún hafi opnað hug íbúa fyrir málefninu. Við getum samt alltaf gert meira og þess vegna er svo mikilvægt að halda áfram að auka fræðslu, skapa umræður og vera sýnileg. Sýnileiki er eitt sterkasta vopnið gegn hatri, fáfræði og fordómum. Því er mikilvægt að hinsegin vikunni sé haldið vel á lofti og hún gerð enn glæsilegri með hverju árinu sem líður. Hinsegin barátta á ekki bara að vera barátta þeirra sem tilheyra hinsegin samfélaginu, þetta er barátta alls samfélagsins og mikilvægt að við stöndum saman,“ segir Ellý að lokum.

Meðfylgjandi myndir, sem við fengum sendar, sýna vel litagleðina sem ríkti í hinsegin vikunni.

Nýjar fréttir