3.9 C
Selfoss

Lyfjaval opnar útibú á Selfossi

Vinsælast

„Svona byrjar alltaf sem samtal manna á milli. Húsaeigandinn nálgaðist okkur þar sem hann veit að höfum áhuga á að fjölga apótekum,“ segir Svanur Valgeirsson, framkvæmdastjóri Lyfjavals í samtali við Dagskrána, en Lyfjaval vinnur nú að opnun útibús í endurnýjuðu verslunarrými þar sem Húsasmiðjan var áður hýst, að Eyravegi 42 á Selfossi.

Mynd: Arkís arkitektar.

„Húseigandinn sýndi okkur spennandi teikningar og ekki skemmdi fyrir að Nettó hafði þegar samið um að vera í húsinu, auk þess sem Hraðhleðslustöðvar Orkunnar koma á planinu. Við fórum svo að hlera íbúa á Selfossi og urðum strax spennt því við fundum fyrir miklum áhuga,“ bætir Svanur við.

Aðspurður hvers vegna Selfoss hafi orðið fyrir valinu, segir Svanur húsakostinn eiga þar stóran þátt. „Fólk sýndi okkur mikinn áhuga og svo er bara svo margt spennandi og skemmtilegt að gerast á svæðinu. Uppbyggingin hefur verið ótrúlega mikil og það er alltaf gaman að vinna með þeim sem hugsa stórt og vilja vel.“

Þægindi og langur opnunartími

Svanur segir bílalúgurnar þeirra sérstöðu á markaðnum í dag. „Og ég er ekki í vafa um að heimamenn munu kunna að meta þá þjónustu. Við heyrum að margir kunna að meta það að sitja í bílnum þegar ræða þarf við lyfjafræðinginn eða biðja um eitthvað ákveðið. Það er meira næði sem fæst í bílalúgunni. Það stendur enginn fyrir aftan þig og er að hlusta þegar þú þarft að biðja um eitthvað eða spyrja ráða. Stundum er fólk með börn í bílnum og þægilegt að þurfa að ekki taka þau úr bílstólnum. Fullorðið fólk, eða hver sem er, sem á erfitt með gang sér þægindin við þetta og svo er þetta fljótlegra en að fara einhvers staðar inn. Fólki finnst það bíða skemur þegar það getur setið og hlustað á útvarpið eða flett í gegnum smáforrit í símanum sínum meðan það bíður eftir að varan sé sótt eða lyfseðillnn afgreiddur. Við bjóðum upp á langan opnunartíma og svo reynum við, bara eins og flestir aðrir, að vanda okkur í því sem við gerum. Við erum í heilbrigðisþjónustu og því fylgir ábyrgð sem við tökum alvarlega.“

Svanur segist vonast til þess að þau nái að opna með haustinu, gangi framkvæmdir vel. „Það er auðvitað margt sem þarf að gera til að koma byggingunni í gott stand, koma fyrir þremur bílalúgum og græja verslunina inni.“

„Nú erum við nýfarin að auglýsa eftir fólki. Fyrsta skrefið verður að ráða lyfsöluleyfishafa og aðra lyfjafræðinga með honum, svo fólk í afgreiðslu. Þetta er mjög spennandi og við hlökkum mikið til,“ segir Svanur að lokum.

„Apótekið við Vesturlandsveg í Reykjavík er opið alla daga fram á kvöld og hefur gengið ótrúlega vel,“ segir Svanur. Ljósmynd: Aðsend.

Nýjar fréttir