1.1 C
Selfoss

Grunnurinn að því að njóta lesturs er lagður í bernsku

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Magnea Gunnarsdóttir

Magnea Gunnarsdóttir er fædd árið 1979 og uppalin á Selfossi. Tungumál tónlistarinnar hefur alltaf skipað mikilvægan sess í hjarta hennar og þess vegna lá leiðin í tónmenntakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík eftir stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hún útskrifaðist frá TR með B.ed. gráðu árið 2002 og lauk sama vor 8. stigi í söng. Nú starfar Magnea sem tónlistarkennari hjá Tónlistarskóla Árnesinga og býr í uppsveitum Árnessýslu ásamt manni sínum, Ingvari Þrándarsyni og þremur börnum.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Nýlega lauk ég við að hlusta á bók eftir Ragnheiði Gestsdóttur, lesin af Ragnheiði Steindórsdóttur. Bókin heitir Steinninn og er fantaskemmtileg. Ég rambaði á hana í framhaldi af öðrum bókum eftir sama höfund sem höfðu haldið athyglinni óskertri. Núna er ég með Utangarðsbörn eftir Kristinu Ohlsson í tækinu. Hún fer ágætlega af stað.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Það fer eftir því hvernig ég er upplögð. Oft verður fyrir valinu einhver spennusaga. Svo hef ég líka gaman af góðum ævisögum og ekki síður allskyns samfélags- og mannlýsingum. Ég reyndi að lesa Guðrúnu frá Lundi á menntaskólaárunum, en gafst upp á fyrstu metrunum. Fyrir nokkrum árum vantaði mig svo eitthvað að hlusta á, ákvað að gera aðra tilraun við Dalalíf – og féll kylliflöt! Hægur, skýr og notalegur lestur Þórunnar Hjartardóttur gerði sitt til þess að færa sögusvið bókarinnar ljóslifandi inn í hugann.

Ertu alin upp við lestur bóka?

Ég las heilmikið sem krakki og var svo stálheppin að fá að njóta þess að láta lesa fyrir mig líka, bæði af foreldrum mínum og eldri systrum. Mér er minnistæð fyrsta bókin sem var ómyndskreytt og ég las sjálf. Hún heitir Staðfastur strákur eftir Kormák Sigurðsson, og þá hefur lesturinn líklega verið kominn á það stig að ég hef verið fær um að njóta þess að lesa. Á eftir fylgdu margar bækur, efst á baugi eru líklega bækur Enid Blyton, Anna í Grænuhlíð og Pollýanna var og er í miklu uppáhaldi. Ég var svo heppin að það var heilmikið til af bókum heima og þegar ég var uppiskroppa með bækur gat ég alltaf fundið eitthvað í stóru bókahillunni á ganginum, og stundum rakst ég á eitthvað skemmtilegt og áhugavert. Grunnurinn að því láni að kunna að njóta lestrar er auðvitað lagður á æskuárum, í notalegu fangi einhvers fullorðins sem les. Ég vona svo innilega að sem flestir foreldrar átti sig á mikilvægi þess að lesa fyrir börnin sín. Ávinningurinn er svo ríkulegur: orðaforði og málskilningur eykst til muna, samveran er svo dýrmæt, einbeitingin þjálfast. Og við lestur geta orðið til kveikjur að mikilvægu samtali og ný sýn fæst á lífið. Bækur stækka heiminn og auka skilning.  Ég er einnig þakklát fyrir þær bókmenntir sem við vorum látin fara í gegnum á grunnskóla- og menntaskólaárum. Þó að þær hafi sumar verið lesnar meira af skyldu en áhuga hefði ég alls ekki viljað missa af því að kynnast þeim. Það er svo dýrmætt að stækka hinn „bókmenntalega þægindaramma“.

En hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Nú orðið hlusta ég mun meira en ég les. Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að stússa í heimilisverkum og hlusta á góða bók á meðan. Ég hef líka unun af að lesa bundið mál, en væri til í að gera meira af því.

Einhverjir uppáhaldshöfundar?

Ef ég vel bók út frá höfundi er það helst einhver sterkur spennusagnahöfundur sem verður fyrir valinu en ég á erfitt með að velja einhvern sérstakan. Hvað aðra höfunda sem ég hef lesið langar mig kannski að nefna Steinunni Sigurðardóttur. Einhverjar bækur las ég eftir hana í kringum tvítugsaldurinn. Ég heillaðist af ljóðrænunni í texta hennar og ég held að hún hafi vakið áhuga minn á hljómi frásagnarinnar í rituðum texta sem er ekki ljóð. Svo er kannski rétt að nefna að nú þegar ég hlusta meira en ég les hef ég rekið mig á hvað lesarinn skiptir miklu máli.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Ó, já. Það var ekki svo sjaldan sem mamma og pabbi opnuðu inn til mín á kvöldin og sögðu mér að nú yrði ég að fara að slökkva. Í skotinu á milli herbergjanna okkar er verönd sem glugginn á herberginu mínu vissi að. Og fyrir ofan svalahurðina á hjónaberberginu þeirra var þessi blessaði litli aflangi gluggi sem kom upp um mig – þau sáu alltaf ef það var enn ljós hjá mér.

En að lokum Magnea, hvernig bók myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Það er nú erfitt að segja. Ég hugsa að sú bók myndi byggjast á einhverju sem hefur gerst í raun og veru. Annað hvort kennslubók sem ég myndi gera mitt besta til að gæða lífi eða einhverskonar skáldsaga byggð á heimildum. Nú eða ljóðabók.

Nýjar fréttir