-8.3 C
Selfoss

Starf félags eldri borgara á Selfossi

Vinsælast

Aðalfundur FebSel var haldinn fimmtudaginn 22.febrúar í félagsmiðstöðinni í Grænumörk. Um 130 félagar mættu á fundinn og var fundurinn öflugur.

Fram fóru venjuleg aðalfundarstörf og að loknum kosningum var  stjórn félagsins þannig skipuð: Magnús J. Magnússon, formaður, Ólafía Ingólfsdóttir varaformaður, Elín Jónsdóttir gjaldkeri en hún er ný í stjórn, Guðrún Þórarna Jónsdóttir ritari, Ólafur Backmann meðstjórnandi,  Ólafur Sigurðsson og Valdimar Bragason í varastjórn. Guðrún Guðnadóttir sem hefur verið í stjórn undanfarin fimm ár lét af störfum og eru henni þökkuð frábær stjórnarstörf undanfarin ár.

Í lok aöalfundar var tilkynnt að Óskar Jónsson og Sigríður Jóhanna Guðmundsdóttir hefðu verið gerðir heiðursfélagar sem þakklæti fyrir frábær og farsæl störf í þágu félagsins.

Í skýrslu stjórnar félagsins kom fram að starfsemin  sé  verulega öflug. Félagsmenn eru núna að nálgast 1000 og ekki langt í það að þúsundasti félaginn verði skráður í félagið.

Innan félagsins starfa hreyfihópar, spilahópar, myndlista- og ljósmyndahópar, keramik- og postulínshópar, leikhópur, kaffihópur,  hannyrðahópar af öllum gerðum og tegundum, sönghópar og öflugur kór svo eitthvað sé talið. Farið hefur verið í leikhús og einnig í ýmsar sumarferðir. Fram kom í skýrslum nefnda að starfið hafi verið öflugt.

Einnig var öflug árshátíð og aðventuhátið svo og myndlistasýningar og handverkssýningar í tengslum við Vor í Árborg.

Öflug opin hús eru alla fimmtudaga frá 14.45 – 16.00 þar sem margvíslegt efni af öllu tagi er flutt og notið veitinga sem kvenfélagið sér um.

Í vetur hefur starfsemin verið að aukast sem er gott. Reynt hefur verið að auka upplýsingaflæði til að auðvelda félagsmönnum að fylgjast betur með. Allar hugmyndir sem stjórninni berast um nýbreytni í starfseminni eru skoðaðar og reynt að prófa.

Á fjölmennustu uppákomum hefur verið á mörkunum að koma öllum fyrir þannig að ef fjölgar verulega í félaginu þarf að fara að skoða þau mál.

En félagið er öflugt og stefnir bara upp á við í starfsemi sinni og vonum við að komandi starfsár verði okkur öllum ánægjulegt.

Magnús J. Magnússson 

Nýjar fréttir