3.9 C
Selfoss

Ölfus úthlutar Grindvíkingum allt að 127 lóðum

Vinsælast

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss.

Á fundi sínum í gær samþykkti bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss næstu skref í stuðningi við íbúa Grindavíkur með því að samþykkja forgang þeirra við úthlutun lóða. Unnið er út frá því að hægt verði að úthluta lóðum fyrir allt að 127 heimili á næstu mánuðum.

Fyrir liggur að á seinustu vikum hefur umtalsverður fjöldi Grindvíkinga leitað eftir lóðum í Þorlákshöfn. Í öllum tilvikum hefur verið leitað eftir einbýlishúsa- og eða parhúsalóðum sem fólk hefur hug á að byggja sjálft á. Sveitarfélagið Ölfus vill með öllum leiðum sýna nágrönnum sínum stuðning og leggur áherslu á að sá vilji sjáist í verki.

Hægt að hefja framkvæmdir í apríl

Samkvæmt tilkynningu frá Ölfusi samþykkir bæjarstjórn, með það að leiðarljósi að styðja við Grindvíkinga á tímum náttúruhamfara, að veita fólki með lögheimili í Grindavík forgang að lóðum við svokallað Vesturberg, en stefnt er á að að auglýsa næsta áfanga við Vesturberg í mars. Í Vesturbergi eru lóðir þar sem gert er ráð fyrir 10 einbýlishúsum, 10 parhúsum og 1 raðhúsi, alls 33 íbúðir sem hægt verður að hefjar framkvæmdir við í apríl.

Þá segir að ef umfram eftirspurn verði við úthlutun þessara lóða muni Sveitarfélagið Ölfus tafarlaust ráðast í undirbúning næsta áfanga við Vesturbergið og auglýsa þær lóðir á sömu forsendum. Þar gæti orðið mögulegt að úthluta lóðum fyrir allt að 13 einbýlishús og 7 parhús eða samtals 27 íbúðir. Í heildina gæti því orðið um að ræða lóðir fyrir allt að 60 heimili sem yrðu tilbúnar til framkvæmda á næstu mánuðum.

Verði enn áfram eftirspurn eftir lóðum eftir úthlutun þessara lóða verður frekari framkvæmdum flýtt enn frekar og stefnt að því að sem fyrst verði hægt að úthluta til viðbótar allt að 18 einbýlishúsalóðum 9 raðhúsalóðum og 9 parhúsalóðum. Þar verði því um að ræða 67 íbúðir og að samtals verði því mögulegt að úthluta lóðum fyrir allt að 127 íbúðir svo fljótt sem verða má.

Fordæmalaus staða kallar á fordæmalausar ákvarðanir

„Staðan í Grindavík er fordæmalaus og það kallar á fordæmalausar ákvarðanir. Áður höfum við samþykkt formlega að veita íbúum Grindavíkur allan rétt til samræmis við íbúa hér hvað varðar leikskólapláss, grunnskólavisst, íbúðir aldraðra og fl. Nú teljum við húsnæðismál til lengri tíma brýnust,“ segir Elliði Vignisson bæjarstóri.

„Grindavík og Þorlákshöfn eru um margt lík samfélög. Þetta eru samfélög sem trúa því af einlægni að verðætasköpun sé undirstaða velferðar. Rekstur sveitarfélagsins hér er því traust og innviðir sterkir, eins og lengi hefur verið í Grindavík. Fyrirtækjum í og við Þorlákshöfn fjölgar hratt og við erum núna með í undirbúningi byggingu á nýjum leikskóla, stækkun grunnskóla, byggingu knattspyrnuhúss, menningarsal, nýjan miðbæ og margt fl. Í þeirri stöðu teljum við sanngjarnt og eðlilegt að gera allt sem við getum til að bjóða okkur sem valkost fyrir Grindvíkinga,“ segir Elliði að lokum.

Nýjar fréttir