-6.1 C
Selfoss

„Hey, hvað segirðu um að við hættum í vinnunni og förum að ferðast um heiminn með börnin?“

Vinsælast

Hjónin Álfheiður Björk Sæberg og Eva Dögg Jafetsdóttir hafa búið á Selfossi ásamt börnum sínum tveimur, Sindra Sæberg Evusyni 10 ára og Söru Sæberg Evudóttur 7 ára, síðan árið 2019. Eva vinnur í FSu, er þroskaþjálfi í grunninn og er í meistaranámi í kennslufræðum við Háskólann á Akureyri. Álfheiður er einnig þroskaþjálfamenntuð en hefur að auki lokið markþjálfanámi og hefur verið að vinna við námskeiðshöld í markþjálfun, ásamt vinkonu sinni, og er nýbyrjuð í nýju starfi.

Blaðamaður Dagskrárinnar hafði samband við þær Álfheiði og Evu og fékk innsýn í líf þeirra sem hefur verið ansi viðburðaríkt síðan leiðir þeirra lágu saman.

Ástin blómstraði eftir ógleymanlega Noregsferð

„Við áttum sameiginlega vinkonu og hittumst reglulega í partýum í gegnum árin. Það var samt ekki fyrr en sú vinkona flutti erlendis að við ákváðum að plana ferð til hennar og þurftum þá að kynnast betur áður og halda nokkra ferðafundi sem urðu alltaf fleiri og fleiri,“ segir Eva. „Já við urðum bara bestu vinkonur mjög fljótt og svona. Við fórum svo í ógleymanlega ferð til Noregs og eftir þá ferð byrjaði bara ástin að blómstra, eins væmið og það hljómar en oh well,“ bætir Álfheiður hlæjandi við.

Það var í nóvember 2009 sem þær fóru að rugla saman reytum, ári síðar voru þær trúlofaðar og giftu sig svo í júlí árið 2011. „Við fórum í brúðkaupsferð til Tælands sem aldrei gleymist. Ég hafði farið áður til Asíu en ekki Eva svo það var gaman að upplifa hennar fyrstu kynni af Asíu. Við gerðum bara allt það sem okkur langaði og það var dásamlegt,“ segir Álfheiður dreymin. Eva bætir við að þær sjái sko ekki eftir því. „Við vorum í mánuð og hefðum viljað vera lengur. Lofuðum hvor annarri að við myndum snúa aftur í framtíðinni á þessar slóðir, sem við gerðum svo 7 árum seinna þegar við fórum í stóra Asíureisu með börnin okkar tvö,“ bætir Eva við.

Þær segjast hafa farið að ræða barneignir strax eftir brúðkaupsferðina. „Við tókum að okkur hund, Töru litlu, og það var dásamlegt að eiga hana, árið 2013 fæddist svo litli prinsinn okkar og árið 2016 fæddist prinsessan,“ segir Álfheiður.

„Aldrei neitt stór athöfn að koma út úr skápnum“

Álfheiður segir að sér hafi fundist ótrúlega erfitt að koma út úr skápnum. „Ég var svo hrædd við það hvernig fjölskylda og vinir myndu taka því en svo var það bara ekkert mál og allir voru bara ótrúlega jákvæðir og tóku þessu vel.“ Fyrir Evu gekk það ferli ansi hratt, enda þá þegar ástfangin upp fyrir haus. „Um leið og við Álfheiður byrjuðum saman officially, þá fór ég bara hringinn og sagði mínum nánustu, á sama degi meira að segja. Þannig þetta var aldrei neitt stór athöfn að koma út úr skápnum, sem það auðvitað á ekkert að vera, en athöfnin við að segja að ég hefði fundið ástina var stærri. Ég var 26 ára og allir voru bara ánægðir fyrir mína hönd og hlökkuðu til að kynnast Álfheiði.“

Jákvæð reynsla af foreldrahlutverkinu

Álfheiður og Eva segjast blessunarlega ekki hafa lent á neinum hindrunum í því ferli að verða samkynja foreldrar. „Fæðingardeildin setti límmiða á fæðingarspjaldið sem fór yfir merkinguna „faðir“ og leikskólarnir tóku alltaf mið af því þegar kom t.d. að „feðradögum“ eða eitthvað slíkt, breyttu því í bóndakaffi eða hvöttu alla að bjóða pöbbum og öfum. Þannig við höfum bara mjög jákvæða reynslu.“

Aðspurðar um ráð til hinsegin fólks sem hefur hug á að stofna fjölskyldu segja þær: „Go for it! Það er allavega það besta sem við höfum gert!“ og brosa út að eyrum.

Þurfti enga sannfæringu

En hvað varð til þess að þær ákváðu að segja skilið við allt og þvælast með tvö ung börn í aðra heimsálfu? „Það var bara einhver hugmynd sem ég varpaði til Evu einn daginn og hún þurfti enga sannfæringu,“ segir Álfheiður og hlæjandi Eva bætir við: „Nei, þetta var ótrúlega hratt ferli. Álfheiður kom bara heim og sagði: „Hey, hvað segirðu um að við hættum í vinnunni og förum að ferðast um heiminn með börnin?“ Og ég bara ókei, gerum það!“ Þær líta hver á aðra og hlæja.  

Átta mánuðir í undirbúning

Ákvörðunin var tekin í október 2017 og fjölskyldan flaug af landi brott í júní 2018. „Þannig við nýttum bara þessa mánuði til að borga upp skuldir og safna okkur. Ákváðum að byrja í Asíu því þar er allt frekar ódýrt, við seldum allt sem við gátum selt, settum svo íbúðina í Seljahverfinu á leigu og þá gátum við lifað góðu lífi þarna úti,“ segir Álfheiður.

„Hoppuðu bara“ til Suður-Kóreu

„Við fórum víða í Asíu. Við keyptum one-way ticket til Bangkok, vorum þar í mánuð og fórum svo til Víetnam og ferðuðumst þar í 5 vikur. Ætluðum þaðan til Japan en fellibylur eyðilagði flugvöllinn svo við hoppuðum bara til Suður-Kóreu í millitíðinni. Skelltum okkur svo frá Japan til Filippseyja þar sem frændi Álfheiðar býr og þá tók ferðin bara krappa beygju. Við fengum að upplifa fallegasta staðinn sem var eyjan Boracay og hún stal svolítið hjartanu okkar,“ segir Eva.

„Já allt í einu langaði okkur að hægja á ferðinni og staldra við. Við vorum öll orðin pínu uppgefin og vantaði bara að slaka á. Ná smá festu. En við vorum búin að plana að hitta pabba minn og konuna hans í Kambódíu og svo tengdó í Tælandi,“ bætir Álfheiður við. Það fór því svo að þau geymdu Boracay í smá stund og héldu ferðinni áfram, áttu ljúfar stundir með fjölskyldunni í Kambódíu og Tælandi áður en þau sneru aftur til Boracay til að setjast þar að um stund.

Opnu samfélagsmiðlarnir undu upp á sig

Aðspurð hvort það hafi eitthvað sérstakt staðið upp úr ferðalögunum segir Eva: „Úff, það er svo mikið. Við eigum endalausar minningar og skemmtilegar sögur. Við ákváðum að vera með opið Snapchat og Instagram og leyfa fólki svona að sjá hvað við værum að gera og fylgjast með. Það vatt alveg upp á sig og margir sem nutu þess greinilega að upplifa og sjá. Við fengum ótrúlega jákvæð viðbrögð og sumir ennþá að fylgjast með okkur. Sem er bara gaman. Við erum ekki alveg eins duglegar að deila núna en tökum alveg syrpur.“

Álfheiður bætir við að þær hafi nýtt vettvanginn sem innblástur til að skrásetja ferðina. „Við eigum bara endalaust af myndböndum og myndum sem sýna alla ferðina. Það er eitthvað inn á Isntagram-síðunni og Eva er dugleg að setja í highlights. Það er bara svo magnað að geta rifjað þetta upp!“ En áhugasamir geta skoðað ævintýri fjölskyldunnar á @worldtravelmoms á Instagram.

„En það sem stendur kannski mest upp úr og breytti öllu er þegar við fórum til Filippseyja og kynntumst betur frænda hennar Álfheiðar. Hann kynnti okkur fyrir allt öðrum lífsstíl en við erum vanar, sem við ákváðum að prófa í nokkra mánuði og nutum þess í botn. Við settumst sem sagt að á eyjunni Boracay þar sem Sindri fór í skóla og krakkarnir lærðu ensku meðal annars,“ bætir Eva við.

„Maður veit aldrei“

Aðspurðar um menningarmuninn í garð hinsegin fólks í ólíkum heimsálfum segjast þær aldrei hafa lent í neinu, enda alltaf með vaðið fyrir neðan sig. Þær séu mjög meðvitaðar um að það sé fólk þarna úti sem er uppfullt af hatri og fordómum í garð hinsegin fólks og það geti til dæmis verið hættulegt fyrir þær að leiðast á almannafæri, eins galið og það kann að hljóma. „Stundum er bara betra að segjast vera vinkonur eða systur því maður veit aldrei og það síðasta sem maður vill er að setja sig eða börnin í hættu. Það er alveg ömurlegt að þurfa að hugsa svona en því miður er það raunin.“

„Komið fínt í bili“

En hvað varð til þess að þær ákváðu að koma aftur heim úr hlýjunni í Asíu? „Það var bara einhver tímapunktur þarna úti að við litum á hvor aðra og vissum bara að þetta væri komið fínt í bili,“ segir Álfheiður. „Já, þetta gerðist mjög hratt. Og við einhvern veginn vildum ekki fara bara í sama farið heima eins og ekkert hafi í skorist svo við ákváðum að flytja á Selfoss. Ég fór í atvinnuviðtal í gegnum Facebook Messenger, þetta var svona áður en við lærðum á Teams,“ segir Eva og hlær. „Ég fékk vinnuna og nokkrum dögum seinna fór ég heim. Ég lagði af stað á föstudegi og var komin heim á sunnudagsmorgun og byrjaði að vinna á mánudeginum.“  Álfheiður og krakkarnir vildu vera aðeins lengur svo Eva gerði sér lítið fyrir, byrjaði í nýrri vinnu, varð þeim úti um íbúð á Selfossi og flutti allt þangað með góðri hjálp, áður en restin af fjölskyldunni kom heim um 2 vikum síðar.

Hatursorðræðan hefur áhrif

Aðspurð hvort þær hafi fundið fyrir fordómum frá Íslendingum segir Eva: „Ekkert til að tala um svo sem, auðvitað er maður meðvitaðri um orðræðu fólks, fordóma og þess háttar. En við höfum verið frekar heppnar með það. Hatursorðræðan í samfélaginu hefur auðvitað áhrif og bakslagið og umræðan stingur mann, verandi hluti af hinsegin samfélaginu. En ég held bara sé ótrúlega mikilvægt að auka sýnileikann og jákvæða umræðu og fræðslu yfir höfuð.“

„Sindri hefur reyndar nokkrum sinnum talað um stríðni frá krökkum um að hann eigi „bara“ tvær mömmur og engan pabba,“ bætir Álfheiður við.

Skiptir máli að hafa fjölbreyttar fyrirmyndir

„Við erum ótrúlega meðvitaðar um að tala opinskátt um allt og fagna fjölbreytileikanum en auðvitað er erfitt þegar svona kemur upp á. Þá er bara aftur einmitt mikilvægt að auka fræðsluna. Ég reyni að vera mjög opin með minn hinseginleika við nemendur mína og bara almennt. Og ég finn alveg að það skiptir máli. Að hafa fjölbreyttar fyrirmyndir. Ég held að það sé líka ástæðan fyrir því að við séum ennþá með opið Instagram, að það er bara að sýna fjölbreytileikann sem er svo mikilvægt. Það er svo mikilvægt að geta speglað sig og sjá aðra,“ segir Eva.

„Mikilvægt að það séu eldhugar sem brenna fyrir því að öllum líði vel“

Aðspurð um stöðu hinsegin samfélagsins í Árborg segir Eva: „Það er auðvitað leitt að ein stærsta bæjarhátíð sveitarfélagsins er á sama tíma og stærsta hinsegin gleðin er í Reykjavík, Gleðigangan eða Reykjavík Pride, svo við þurfum yfirleitt að velja á milli. En staðan er klárlega að breytast á jákvæðan hátt. Við sjáum það alveg sérstaklega með þessari hinsegin viku t.d. og hvernig hún hefur þróast þessi 3 ár sem hún hefur verið. En ég held að það sé bara mjög mikið að þakka þeim eldhugum sem standa á bak við hana. Það er mikilvægt að það séu eldhugar sem brenna fyrir því að öllum líði vel, fái skilning og öryggi. Því miður er það bara ekki alltaf þannig. Við þurfum að auka fræðsluna en þá er líka gaman að segja frá því að kynjafræði sem áfangi er að ryðja sér til rúms í framhaldsskólanum sem skyldufag og því er auðvitað að þakka flottu fólki sem sér mikilvægi þess að fræða um þessi málefni. Það mætti auðvitað auka fræðsluna og innleiða hana betur á sem flestum sviðum en vonandi er þetta í réttum farvegi og fer sína góðu leið.“

„Fræðum þau sem vilja fræðast“

Nú er Hinsegin vika Árborgar haldin hátíðleg í þriðja sinn, hvað ætlið þið að gera til að halda upp á það? „Ætli við fylgjumst ekki bara með sveitafélaginu lifna við og svona. Tökum þátt í gleðinni og bara nýtum tækifærið og fræðum þau sem vilja fræðast. Maður fær alltaf hlýtt í hjartað þegar hinseginleikinn er sýnilegur og fólk fer að líta inn á við og athuga hvað það getur gert til að sýna stuðning.“

En að lokum, eruð þið komin til að vera á Selfossi? „Já, ég held að það sé alveg nokkuð öruggt. Nú ekki nema við fáum aðra svona ferðaflugu í hausinn,“ svarar Álfheiður og þær hlæja báðar.

Nýjar fréttir