-10.6 C
Selfoss

Menntaverðlaun Suðurlands 2023

Vinsælast

Menntaverðlaun Suðurlands voru afhent í sextánda sinn fimmtudaginn 15. febrúar sl. á árlegum hátíðarfundi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands. Athöfnin fór fram í sal Fjölbrautaskóla Suðurlands. Að þessu sinni var það Víkurskóli og Katla jarðvangur sem hlutu verðlaunin fyrir samstarfsverkefni í strandlínurannsóknum í Víkurfjöru.

Samstarfsverkefni Víkurskóla og Kötlu jarðvangs hófst árið 2021 um er að ræða strandlínurannsókn í Víkurfjöru. Verkefnið hefur verið samstarfsverkefni Jóhannesar Marteins Jóhannessonar jarðfræðings hjá Kötlu jarðvangi og nemenda Víkurskóla, Framkvæmdar hafa verið mælingar á nokkrum sniðum Víkurfjöru og Jóhannes hefur komið með fræðslu til nemenda þar sem niðurstöður mælinganna hafa verið útskýrðar. Verkefnið eflir þekkingu nemenda á nærumhverfi sínu og vísindalegri rannsóknaraðferð. Nemendur fá fræðslu um þá þætti sem hafa áhrif á færslu strandlínunnar s.s. veður, hafstrauma og vindáttir. Fræðslan á nærumhverfi Víkur er enn fremur mjög þýðingarmikil í ljósi lýðfræðilegra breytinga sem hafa orðið á samfélaginu í Mýrdalshreppi síðustu árin.

Var það Brynhildur Jónsdóttir stjórnarkona SASS sem tilkynnti niðurstöður úthlutunarnefndar. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin.

Alls bárust tíu tilnefningar til Menntaverðlauna Suðurlands 2023: Víkurskóli og Katla jarðvangur, Eydís Hrönn Tómasdóttir kennari við Grunnskólann á Hellu, Þollóween-nefndin í Þorlákshöfn, Barnakór Hvolsskóla, Leikskólinn Aldan í Rangárþingi, Kennarateymið í Valsmiðjum á miðstigi Stekkjaskóla, Halla Sigríður Bjarnadóttir kennari við Þjórsárskóla í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Matthildur E. Vilhjálmsdóttir sérkennari við leikskólann Leikholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Stekkur til framtíðar – Að byggja upp lærdómssamfélag í nýjum grunnskóla, þróunarverkefni starfsmanna Stekkjaskóla í Árborg  og Emilía Lilja Rakelar Gilbertsdóttir, Sigríður Þorbjörnsdóttir og leikskóladeild Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Nýjar fréttir