3.9 C
Selfoss

Hinsegin vika Árborgar í næstu viku

Vinsælast

Hinsegin vika Árborgar verður haldin hátíðleg í þriðja sinn, vikuna 26. febrúar til 1. mars. Í tilefni þess færði forvarnarteymi Árborgar starfsfólki sveitarfélagsins regnbogabönd að gjöf. Starfsfólk er hvatt til að bera regnbogabandið alla daga ársins til að minna á mikilvægi þess að fagna fjölbreytileikanum og stuðla að öryggi og sýnileika, ásamt bættri stöðu fyrir öll í samfélaginu.

Markmið hinsegin vikunnar er að auka fræðslu, skapa umræður og vera sýnileg. Forvarnarteymi Árborgar hvetur stofnanir og fyrirtæki sveitarfélagsins til þess að vera með og gera þessa hátíð að litríkri og skemmtilegri viku og sömuleiðis eru íbúar hvattir til að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og finna leiðir til þess að gera vikuna sem hátíðlegasta.

Síðustu ár hefur vikan gengið vonum framar og fjöldi fyrirtækja tekið þátt. Það mátti sjá regnbogakökur, regnbogablómvendi, hinsegin fánunum var flaggað, regnbogaskrauti var komið fyrir inn í fyrirtækjum og út í gluggum og svo lengi mætti telja. Mikil eftirvænting ríkir fyrir Hinsegin vikunni sem er fram undan og margt spennandi á dagskrá.

„Það verður nóg um að vera í hinsegin vikunni og bindum við miklar vonir við að samfélagið taki þátt og sýni lit með okkur. Meðal þess sem er á dagskrá er fræðsla frá Sólveigu Rós, hún er foreldra- og uppeldisfræðingur með sérhæfingu í hinsegin málum og fjölbreytileika. Fræðslan mun fara fram á Teams þann 26. febrúar kl. 20:00 og er opin öllum, hægt er að sjá nánari upplýsingar um viðburðinn á heimasíðu Árborgar. Margrét Tryggvadóttir, margverðlaunaður rithöfundur, verður á Bókasafninu 29. febrúar frá 17-18. Margrét gaf m.a. út bækurnar Stolt og Sterk, sem fjalla um trans stúlkur af einlægni og virðingu, en Sterk hlaut einmitt Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur árið 2021. Stofnanirnar okkar í sveitarfélaginu verða síðan með fjölbreytta og skemmtilega dagskrá í tilefni vikunnar, leikskólarnir, grunnskólarnir, frístundaheimilin, frístundaklúbbarnir og félagsmiðstöðin. Regnbogaföndur, dragkvöld ofl,“ segir Ellý Tómasdóttir, forvarnarfulltrúi Árborgar í samtali við Dagskrána.

Nýjar fréttir