Lárus Gestsson fagstjóri húsasmíðagreina í FSu „skrapp í höfuðstaðinn” eins og hann orðar það í færslu á samfélagsmiðli til að fylgja eftir nemanda skólans Guðmundi Þór Gíslasyni rafvirkja sem tók þar við verðlaunum. Meistari Guðmundar var Guðjón Guðmundsson frá Árvirkjanum á Selfossi.
Á nýsveinahátíð eru þeir sem lokið hafa sveinsprófi með afburðaárangri heiðraðir ásamt meisturum sínum. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson er verndari hátíðarinnar en Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur veitir viðurkenninguna en einn tilgangur IMFR er að efla menningu og menntun iðnaðarmanna og styrkja stofnanir sem starfa í þeirra þágu.
Að sögn Lárusar hélt Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra ræðu þar sem hann ítrekaði fullyrðingu sína um að styrkja verknám og sagði „mikla uppbyggingu vera framundan í FSu.”
jöz.