3.9 C
Selfoss

Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna

Vinsælast

Bryndís Guðmundsdóttir, Félagsráðgjafi og SES skilnaðarráðgjafi.

Fjölskyldugerðir hafa aldrei verið fjölbreyttari en í nútíma samfélagi. Áætlað er að um 40% hjónabanda endi með skilnaði og talið er að skilnaður hafi áhrif á um 1.200 börn á ári hérlendis, áhrifin geta verið langvarandi og íþyngjandi fyrir börnin ef ekki er staðið vel að skilnaði.

Búið er að þróa gagnreynda námsefnið „Samvinna eftir skilnað“ (SES) til þess að grípa þennan hóp og veita mikilvæga aðstoð í átt að bættri foreldrasamvinnu með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Um er að ræða skilnaðarráðgjöf í formi rafrænna námskeiða sem opin eru öllum á heimasíðunni samvinnaeftirskilnad.is. Jafnframt hafa SES ráðgjafar víðs vegar á landinu veitt hópnámskeið og dreift út boðskapnum.

Rannsóknir hafa sýnt marktækan mun á líðan þeirra sem taka þátt í verkefninu og þeirra sem ekki gera það. Með því að vinna úr tilfinningalegri togstreitu foreldra og fyrirbyggja ágreining þeirra á milli er hægt að draga verulega úr neikvæðum áhrifum skilnaðar. Mikilvægt er að hafa í huga að það er ekki skilnaðurinn í sjálfu sér sem veldur mestum skaða, heldur hvernig er staðið að honum. Velferðarþjónustu Árborgar er umhugað um velferð fjölskyldna í samfélaginu og vilja SES skilnaðarráðgjafar sveitarfélagsins því bjóða upp á frítt hópnámskeið dagana 5., 7. og 12. mars sem haldið verður í Ráðhúsi Árborgar, þriðju hæð.

Vert er að taka fram að efnið nýtist öllum foreldrum sem eiga það sameiginlegt að ala upp börn á tveimur heimilum og er lögskilnaður ekki forsenda þátttöku. Áhugasamir sendið nafn, kennitölu og símanúmer sitt á netfangið fullordinsteymi@arborg.is og SES ráðgjafi Árborgar mun hafa samband við þig.

Nýjar fréttir