Glódís Rún Sigurðardóttir frá Sunnuhvoli, hestakona úr Sleipni, var útnefnd íþróttamaður Ölfuss árið 2023 við hátíðlega athöfn í Versölum um liðna helgi.
Glódís Rún er vel að titlinum komin en hún hefur langan og farsælan keppnisferil að baki í barna,- unglinga,- og ungmennaflokki. Hún fagnaði heimsmeistara- og Íslandsmeistaratitli á árinu í flokki ungmenna í fimmgangi á Sölku frá Efri-Brú og var í úrslitum og í efstu sætum á öllum stærstu mótum ársins. Þá hefur Glódís átt fast sæti í U21 landsliðinu frá því hún hafði aldur til og er nú hluti af Landsliðshópi LH. Í tilkynningu frá Ölfusi segir að Glódís Rún sé fyrirmynd innan vallar sem utan og nálgist sín verkefni með jákvæðni og hugarfari afreksknapa.
Aðrir íþróttamenn sem tilnefndir voru í kjörinu fyrir góðan árangur í sínum íþróttum voru þau Atli Rafn Guðbjartsson knattspyrna, Emma Hrönn Hákonardóttir körfuknattleikur, Freyja Ósk Ásgeirsdóttir golf, Guðbjartur Ægir Ágústsson motocross, Styrmir Snær Þrastarson körfuknattleikur, Tómas Valur Þrastarson körfuknattleikur og Unnur Rós Ármannsdóttir hestaíþróttir.
Við verðlaunaafhendinguna var þeim íþróttamönnum sem léku með landsliðum Íslands á árinu veitt viðurkenning og þeir heiðraðir sem fögnuðu meistaratitlum á árinu.