-6.6 C
Selfoss

Fimleikafréttir

Vinsælast

Fyrstu helgarnar í febrúar fóru fram 3 fimleikamót á vegum Fimleikasambands Íslands en það voru GK-mótið í hópfimleikum, GK mótið í stökkfimi og Mótaröð 2. Selfoss átti mörg lið á á þessum mótum og mikil fimleikaveisla að baki.

Á GK móti í stökkfimi og í hópfimleikum átti Fimleikadeild Selfoss alls 10 lið.

5. flokkur samanstendur af 8-9 ára stúlkum sem voru að keppa í fyrsta skipti á móti á vegum Fimleikasambands Íslands. Þær stóðu sig mjög vel og það var mikil leikgleði hjá þessum efnilegu stúlkum sem fengu allar viðurkenningarskjal eftir mótið.

5. flokkur Selfoss. Ljósmynd: Aðsend.

Í 4. flokki stúlkna sendi Selfoss 4 lið til keppni. Stúlkurnar á eldra ári kepptu í A- og B-deild og sigruðu þau lið bæði sína deild. Stúlkurnar á yngra árinu kepptu í C-deildinni, en þær áttu góða keppni með hreinum æfingum sem skiluðu þeim 4. og 8. sæti í deildinni.

4. flokkur A. Ljósmynd: Aðsend.
4. flokkur B. Ljósmynd: Aðsend.
4. flokkur Selfoss. Ljósmynd: Aðsend.

Drengirnir okkar í kk yngri kepptu í stökkfimi og var ánægjulegt að sjá þar 11 lið mætt til keppni í þeim hluta sem samanstóð af liðum í stökkfimi og hópfimleikum. Það er frábært að sjá fjölgun í drengjaliðum og fögnum við því. Strákarnir lentu samanlagt í 6. sæti eftir flottan keppnisdag.

Kk yngri. Ljósmynd: Aðsend.

Í 3. flokki átti Selfoss tvö lið. Liðin kepptu í A-deild og B-deild og lentu bæði liðin í 4. sæti í sinni deild en liðin eru í miklum framförum og mjög gaman að fylgjast með þeim.

3. flokkur A. Ljósmynd: Aðsend.
3. flokkur. Ljósmynd: Aðsend.

Í 2. flokki átti Selfoss mix lið sem er blanda af drengjum og stúlkum. Því miður voru þau eina mixliðið í deildinni og samkeppnin því lítil en þau létu það ekki á sig fá, lögðu sig öll vel fram og skiluðu flottum æfingum á gólfi og stökkáhöldunum.

2. flokkur mix. Ljósmynd: Aðsend.

Á mótaröð 2 kepptu 1. flokkur og meistaraflokkur en mótaröðin er gerð í mýkri lendingu en venjan er á mótum og því tækifæri til þess að prufa ný stökk. Einnig mega þar fleiri en 6 taka þátt í hverri umferð sem gerir það að verkum að allir í liðinu geta stökkið í hverri umferð, sem er skemmtileg tilbreyting í eldri flokkum. Meistaraflokkur Selfoss lenti í 3. sæti á mótinu af 12 liðum og 1. flokkur í 7. sæti. Á mótaröð er ekki keppt í aldursflokkum heldur keppa unglingar við fullorðna sem brýtur keppnina enn meira upp.

1. flokkur.

Þessar tvær helgar hafa verið mjög skemmtilegar, fullar af leikgleði og fimleikasigrum, framförum og mikilli liðsheild. Við erum mjög stolt af iðkendunum okkar og hlökkum til áframhaldandi verkefna með þeim. Næsta verkefni hjá okkur er Bikarmót í hópfimleikum hjá eldri flokkunum okkar, sem fer fram í lok febrúar.

Fimleikadeild Selfoss

Nýjar fréttir