3.9 C
Selfoss

Seldu 600 kíló af nammi á þremur dögum

Vinsælast

Það hefur varla farið fram hjá mörgum að nýr nammibar var settur upp í Krambúðinni á Selfossi í síðustu viku og virðast bæjarbúar hafa tekið ansi vel í endurkomu hins gamalkunna nammibars á Selfoss, sem margir hverjir hurfu smátt og smátt af sjónarsviði Íslendinga þegar sóttvarnaraðgerðir voru hertar í kjölfar heimsfaraldurs. Nammibarinn í Krambúðinni var fylltur ýmsu góðgæti á föstudag, en þegar blaðamaður Dagskrárinnar leit við síðdegis á sunnudag, var ansi tómlegt að sjá barinn, enda fóru móttökur Selfyssinga langt fram úr væntingum.

„Við erum hæstánægð með nýja nammibarinn á Selfossi. Það seldust um 600 kg núna fyrstu helgina, sem fór langt fram úr væntingum. Eftir að við byrjuðum vegferðina að opna nammibari aftur í Krambúðum landsins hefur komið fjöldi áskorana til okkar frá Selfyssingum um að opna aftur nammibar þar í okkar flottu verslun. Við vorum fljót að bregðast við þessu ákalli og skelltum barnum upp,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa í samtali við Dagskrána.

Eins og einn ísbjörn af nammi

Þess ber að geta að 600 kíló er ansi mikið magn af sælgæti. Til samanburðar þá vegur stór, karlkyns ísbjörn gjarnan um 600 kíló, flygill um 450 kíló, íslenski hesturinn á milli 330-380 kíló og kappakstursbílar í Formúlu 1 í ár um 798 kíló. Blaðamanni reiknast þar að auki til að ef meðalpokinn hefur vegið 200 grömm, hafi eitthvað í kringum 3000 pokar af sælgæti ratað heim með kátum viðskiptavinum Krambúðarinnar um helgina.

Gunnur bætir við að það sé góður afsláttur allar helgar, 50 % alla föstudaga, laugardaga og sunnudaga. „Við verðum fljót að fylla barinn aftur eftir helgina og bjóðum auðvitað fólk hjartanlega velkomið að fá gott úrval af nammi hjá okkur í Krambúðinni Selfossi,“ segir Gunnur að lokum.

Nýjar fréttir