1.7 C
Selfoss

„Í skoðuninni spurði ég í hæðnistón: Er ég nokkuð með krabbamein?“

Vinsælast

Selfyssingurinn Birna Almarsdóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku barna á Barnaspítala Hringsins, býr ásamt manninum sínum, Jan Hinrik, Glódísi dóttur þeirra og einni ófæddri (þegar þetta er ritað) sem von er á á allra næstu dögum, í Hveragerði. Birna greindist með Hodgkins-eitilfrumukrabbamein á 4. stigi þegar hún var 27 ára og er ein af þeim sem segir hluta sögu sinnar á lifidernuna.is í árlegri vitundarvakningu Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra, en Lífið er núna dagurinn er einmitt í dag, fimmtudaginn 8. febrúar. Blaðamaður Dagskrárinnar náði tali af hinni dásamlegu Birnu sem þótti sjálfsagt að deila persónulegri reynslu sinni af þessu erfiða ferli með lesendum.

„Allt of ung til þess að vera með krabbamein“

Árið 2020, þegar Birna var 27 ára, var hún búin að finna fyrir einkennum í nokkra mánuði sem höfðu farið stigversnandi á stuttum tíma. „Einkennin voru þó ekki þess eðlis að ég hefði stórar áhyggjur, þótt Google hafi mjög fljótlega verið búið að greina mig með allskonar misslæma sjúkdóma. Ég hafði tvisvar sinnum leitað læknis vegna óljósra einkenna, til að mynda nætursvita, hita af og til, mikillar mæði, óþæginda yfir brjóstsvæði og þráláts hósta. Í seinna skiptið sem ég fór, tók dásamlegur læknir á móti mér sem var að dekka sumarfrí fyrir aðra lækna á heilsugæslunni hér í Hveragerði. Í skoðuninni spurði ég hann í hæðnistón: „Er ég nokkuð með krabbamein?“. Hann glotti út í annað og sagði að ég væri allt of ung til þess að vera með krabbamein.“

Glódís, Jan og Birna á góðri stundu. Ljósmynd: Aðsend.

Sá andlitið hvítna og varirnar byrja að titra

Birna segir að læknirinn hafi þó greinilega séð ástæðu til þess að skoða málið betur og sendi hana í myndatöku af kvið. „Um hálftíma eftir myndatökuna fæ ég símtal frá HSu og ég beðin um að koma aftur sem allra fyrst í nýja mynd, nú af lungum og brjóstsvæði. Þarna fékk ég fyrst óþægindatilfinningu. Mér var sagt að panta mér símatíma daginn eftir til að fá niðurstöður úr myndatökunni. Daginn eftir var mig farið að lengja eftir símtalinu, dagurinn leið og hnúturinn í maganum stækkaði. Símtalið barst loksins og læknirinn tjáði mér að myndin hafi ekki komið vel út. Það hafi sést massi við hóstakirtil og hnútar í lungum. Ég stóð fyrir framan spegil þegar hann lét orðin falla í gegnum tólið og ég sá andlitið á mér hvítna og varirnar byrja að titra. Óttinn tók algjörlega yfir og ég kom varla upp orði.“

„Reyndi að róa mömmu sína með fallegum orðum og ljúfri snertingu“

Glódís, dóttir Birnu, var á þessum tíma tveggja ára og voru þær mæðgur einar heima þegar símtalið barst. „Þessi litla tveggja ára skotta, sem var svo ótrúlega næm á aðstæður og tilfinningar, reyndi að róa mömmu sína með fallegum orðum og ljúfri snertingu. Þessi dagur var einn sá allra erfiðasti, aðallega því framhaldið var svo óljóst. Það átti eftir að greina sjúkdóminn en fyrstu ágiskanir lækna voru eitlakrabbamein, hvítblæði, krabbamein í hóstakirtli eða jafnvel lungum. Í framhaldinu tóku við ótal spítalaferðir, rannsóknir og prufur. Ég var eins og gatasigti fyrstu dagana, stungin hér og þar, jafnvel oft á dag.“

Það var svo á föstudegi um miðjan ágúst 2020, tveimur vikum eftir hið örlagaríka símtal, sem Birna fékk greininguna. „11 sm massi í miðmæti og fjölmargir hnútar á víð og dreif um bæði lungu reyndist vera Hodgkins-eitilfrumukrabbamein. Krabbameinið var á fjórða stigi því það hafði dreift sér í nærliggjandi vefi, en ég vissi þó að stigun eitlakrabbameina væri ekki hægt að bera saman við stigun annarra krabbameina. Það var því ekki talað um „lokastig“ eða að krabbameinið væri ólæknandi í mínu tilfelli,“ segir Birna.

Hélt þéttingsfast í vonina og bjartar hugsanir

Birna segir kannski skrýtið að segja það, en þessi föstudagur hafi verið gleðidagur. „Af öllum vondu niðurstöðunum sem við vorum búin að búa okkur undir, þá voru þetta þær skástu af þeim. Ég vissi samt að framhaldið yrði erfitt, en frá og með þessum degi setti ég í baráttugír, með dass af mildi til sjálfrar mín, tilbúin að kljást við þetta verkefni. Ég bað læknana um að tala aldrei um horfur eða líkur á að meðferðin myndi virka. Ég vildi taka þetta einn dag í einu. Það var mikilvægt fyrir mig að halda þéttingsfast í vonina og bjartar hugsanir. Ég sá ekkert annað fyrir mér en að ég myndi læknast og vera heilbrigð aftur.“

„Þegar búið var að kortleggja sjúkdóminn var valin meðferð. Ég fór í lyfjameðferð sem heitir ABVD og er stöðluð lyfjameðferð fyrir þennan sjúkdóm. Lyfjakokteill samsettur af fjórum lyfjum í æð á tveggja vikna fresti, 12 sinnum. Meðferðin tók því 6 mánuði í heildina. Hún gekk heilt yfir vel, en þó ekki alveg áfallalaust. Krabbameinsmeðfeð fylgir mikið og strangt eftirlit með einkennum vegna áhrifa meðferðarinnar á öll líffærakerfi líkamans. Það var því fylgst vel með mér og ég get ekki annað en hrósað krabbameinsdeild Landspítalans fyrir að fylgja mér vel eftir,“ bætir Birna við.

„Styrkja hugann og þjálfa þakklætisvöðvann“

Svona ferli tekur vissulega á meira en líkamann og býr Birna svo vel að hafa átt sterkt bakland úr mörgum áttum sem kom sér vel þegar á reyndi. „Það sem kom mér í gegnum ferlið var auðvitað fólkið mitt, þá sér í lagi dóttir mín, sem lýsti upp dimma dali þegar þannig stóð á. Ég á dásamlega fjölskyldu, tengdafjölskyldu og vinkonur sem öll veittu mér stuðning. Svo átti ég klapplið í Crossfit-stöðinni sem ég hef æft í síðan 2014. Það gerði oft dagana mína að mæta þangað, þó að það væri ekki nema bara til þess að hitta brosandi andlit gamalkunnra Henglara. Það sem hjálpaði mér líka að komast í gegnum ferlið var að styrkja hugann og þjálfa þakklætisvöðvann. Ég vil meina að andlega ferðalagið sem hófst við greiningu hafi ekki síður en lyfin átt þátt í að lækna mig.“

Fjölskyldan bíður spennt eftir lítilli viðbót sem væntanleg er hvað og hverju. Ljósmynd: Kraftur/Laimonas Dom Baranauskas.

Óvænt lítil viðbót

„Krabbameinsmeðferðir hafa áhrif á öll líffærakerfi og því var óljóst hvaða áhrif nákvæmlega hún kæmi til með að hafa. Mér var sagt að samkvæmt tölfræði væru ekki miklar líkur á ófrjósemi vegna þessarar meðferðar en var þó ráðlagt að fara í eggheimtu hjá Livio til öryggis, þar sem líkurnar væru einhverjar á að ég myndi ekki geta eignast fleiri börn öðruvísi en með inngripi. Ég gerði það en eggheimtumeðferðin virkaði ekki. Við einfaldlega fengum 0 fósturvísa til að frysta. Það var eins og það var og ég sagði bara áfram gakk, ekki okkar stærsta vandamál núna, þetta reddast síðar. Ég varð svo óvænt ólétt um mitt ár 2023 og við eigum því von á lítilli viðbót í fjölskylduna núna á allra næstu dögum. Í dag erum við auðvitað þakklát og glöð að fá að upplifa það að eignast fleiri börn, enda er það aldrei sjálfgefið og hvað þá eftir að líkaminn hefur gengist undir krabbameinsmeðferð,“ segir Birna.

„Ég hef átt drauma meðgöngu. Lítið um líkamlega eða andlega kvilla, þótt það sé auðvitað aukið álag á líkamann sem ég finn alveg fyrir. Meðgangan er svipuð fyrri meðgöngu, jafnvel aðeins betri, þótt ótrúlegt megi virðast,“ segir Birna, sem hefur ekki þurft að vera undir sérstöku eftirliti lækna vegna sögu sinnar um krabbamein, en í dag er hún undir reglubundnu eftirliti á árs fresti.

„Hey, ertu ekki örugglega að lifa og vera til?“

Aðspurð hvort greiningin og allt sem henni fylgdi hafi haft áhrif á viðhorf hennar til lífsins og heilsunnar segir Birna: „Að einhverju leyti, þó ekki endilega heilsuna í hefðbundnum skilningi eins og mörg myndu túlka heilsu. Ég hafði alla tíð lifað tiltölulega heilsusamlegu lífi, borðað almennt holla fæðu og hreyft mig. Það þýðir hins vegar ekki að aðskilja líkamann okkar frá sálarlífinu, huganum og hjartanu. Það er það sem ég er meðvitaðri um í dag og legg meiri rækt við en áður. Allskonar andleg vinna í kjölfar krabbameinsgreiningarinnar færði mig nær kjarnanum mínum og hjálpaði mér að sigrast á gömlum fortíðardraugum. Áföll og krefjandi verkefni í lífinu skilja nefnilega oft eitthvað gott eftir sig. Mér leið eins og lífið hefði bankað á dyrnar og spurt „hey, ertu ekki örugglega að lifa og vera til?“. Mér finnst oft eins og ég sjái aðeins skýrar, hvað varðar sjálfa mig og bara allt litróf lífsins. Ég sé betur hverjar langanir mínar og þrár eru, fylgi þeim frekar eftir og er óhrædd við að upplifa og gera allskonar. Ég er svo auðvitað óendanlega þakklát fyrir að meðferðin hafi skilað tilætluðum árangri því við vitum öll að það er ekki gefið,“ segir Birna að lokum. 

Nýjar fréttir