1.7 C
Selfoss

„Skemmtilegasti partur ársins loksins runninn upp – Bolluvertíðin!“

Þegar blaðamaður leit inn í GK Bakarí á Austurveginn á mánudagsmorgun, að grípa sér kaffi og croissant til að koma mánudeginum á skrið, tók hún eftir bliki í auga bakarans sem tók fagnandi á móti henni.

Guðmundur, hvað stendur til?

„Nú er skemmtilegasti partur ársins loksins runninn upp – Bolluvertíðin!,“ segir Guðmundur skælbrosandi.

Þeir hjá GK nota helgarnar fyrir bolluhelgina til að stilla sig af, viðra nýjungar og fá viðbrögð, sjá hvað virkar og hvað ekki. „Síðustu helgi tókum við til dæmis glænýtt twist á sænsku semluna og dekkuðum kanilsnúðinn upp í sparigallann með marzipanfyllingu, möndlum og þeyttum rjóma.  Viðbrögðin voru langt fram úr okkar væntingum svo hún verður á boðstóðnum um helgina.“

Kanilsnúður í sparifötum.

Hver er vinsælasta bollan hjá ykkur?

„Rjómabollan trónir alltaf á toppnum. Fólk tekur alltaf vel í brögðin og nýjungarnar en frummyndakenning Platons sannar sig alltaf – og í einfaldleikanum liggur fegurðin.  Þess vegna lítum við á það sem okkar skyldu að bjóða uppá bestu útgáfuna af rjómabollunni sem við getum. Ekkert mix úr poka, íslenskur rjómi og rabarbarasulta úr rabarbara af stór-800 svæðinu.“

Rjómabollan, stendur alltaf fyrir sínu.

„Sturluð staðreynd: ósviknar vatnsdeigsbollur eru sykurlausar! Mjólk ku vera holl fyrir tennur og bein og rabarbari er mitt á milli að vera ávöxtur og grænmeti – svo rjómabolla er í rauninni ofurfæða í minni bók,“ bætir Guðmundur við.

Feitabollan alltaf með

Er von á einhverjum nýjungum þetta árið?

 „Við bjóðum alltaf uppá gjörbreyttan lista á hverju ári. Einu bollurnar sem halda velli milli ára eru klassíska rjómabollan og Feitabollan.  Það heldur okkur ferskum og gefur okkur tækifæri á að prófa okkur áfram með ný hráefni og bragðsamsetningar.“

 Nú ert þú kvikmyndaskólagenginn Guðmundur, myndir þú líkja einhverri bollunni við kvikmyndategund (e: genre)?

„Bragðarefurinn er steypt í mót hinnar nostalgísku-rómantísku gamanmyndar. Refurinn er ástaróður okkar til hins séríslenska ísbíltúrs seint á köldu vetrarkvöldi með góðum makker og nýprentað ökuskírteini. Ef Eternal Sunshine of the Spotless Mind hefði verið gerð af RVK Studios hefðu Joel og Clementine 100% farið í ísbíltúr þegar þau hittust aftur.

Lokaðu augunum og hugsaðu til baka, hringtorgið við brúna – Austurvegurinn – snúið við á N1 planinu – bragðarefur í Huppu – tvær skeiðar – leggja á hótelplaninu – borða í bílnum – dottið á trúnó og hlegið. Take me back!.“

Superbowludagurinn 2024

Hvernig er hinn dæmigerði bolludagur hjá ykkur í GK?

,,Bolludagurinn 2024 gengur undir nafninu Superbowludagur, því Superbowl fer fram á aðfaranótt Bolludagsins. Það er mæting á slaginu átta á sunnudagskvöldið og venjan hefur verið að við veljum hljómsveit og keyrum í gegnum allan ferilinn frá fyrsta lagi á fyrstu plötu til síðasta lags á síðustu plötu í gegnum nóttina – en það breytist í ár. Þar sem við erum forfallnir íþróttanördar erum við búnir að leigja okkur skjávarpa og munum kasta leiknum upp á vegg inni í bakaríi svo við missum ekki af þessari veislu.  Svo byrjum við bara að þeyta, skera og fylla þangað til við erum komnir með óráð, eða rjóminn klárast. Hvort sem gerist á undan.“

Guðmundur og Kjartan ganga lengra en mörg í rannsóknarvinnu til að fullkomna bollurnar sínar, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, og tími til kominn að uppskera á bolluvertíðinni. 

Skemmtileg tilviljun – myndir þú kalla það hinn fullkomna bolludag?

 „Já ég held það bara – ef við strákarnir mætum allir á réttum tíma á sunnudagskvöldinu er hálfur sigurinn unninn í rauninni. Á hinum fullkomna bolludegi myndum við bæta sölumetið frá árinu áður, selja síðustu bolluna á slaginu fimm, skella í lás og bjóða staffinu út að borða og skellihlæja.  Það hefur verið hefðin að bjóða öllum út í mat og drykk eftir lokun á bolludaginn til að verðlauna okkur fyrir vel unnin störf.“

Og hvenær get ég mætt og nælt mér í bollur?

„Við erum með opið frá klukkan snemma til 16 á laugardögum og 14 á sunnudögum.  Á Bolludaginn sjálfan er auglýst opnun til kl 17, en að vanda skellum við í lás ef allt klárast. Við mælum með að fólk finni okkur og fylgist með á Facebook og/eða Instagram en þar deilum við stöðunni í rauntíma með okkar fylgjendum.“

Að lokum vill Guðmundur minna á hina árlegu Sprengidagslokun. „Eftir tæpa 20 tíma á gólfinu er það kærkomið að sofa út og hlaða batteríin fyrir Öskudaginn – en þá tökum fagnandi á móti söngfuglum með nýbökuðum mínísnúðum!“

Fleiri myndbönd