-6.6 C
Selfoss

Samráðsfundur á Stokkseyri

Blásum lífi í starf Bókabæjanna

Boðað er til opins fundar Bókabæjanna austanfjalls fimmtudagskvöldið 8. febrúar, klukkan 19.30 í menningarhúsinu Brimrót að Hafnargötu 1 á Stokkseyri. Allt áhugafólk um bækur og bókmenningu er hvatt til að mæta. Um er að ræða samráðsfund þar sem núverandi og fyrrverandi stjórnir Bókabæjanna mæta til skrafs og ráðagerða við öll þau sem áhuga hafa á málstaðnum. Að baki fundinum býr sú þörf að vekja að nýju til lífs starfsemi Bókabæjanna sem legið hefur að mestu niðri frá og með kórónuveirufaraldrinum.

Hugmyndafræði og saga Bókabæjanna er æði merkileg og í því ljósi er nauðsynlegt að blása lífi í glæður þessarar þörfu starfsemi. Í gegnum árin hafa Bókabæirnir staðið fyrir bókamörkuðum og bókauppboðum, bókmenntagöngum á Selfossi og Eyrabakka, barnabókahátíðum, margmála ljóðakvöldum og netljóðadagskrá, krimmakvöldum, viðtalsdálkinum Lestararhestinum í Dagskránni og fjölbreyttum bókmenntadagskrám um kvenna- og karlabókmenntir og ástina í bókmenntum svo nokkuð sé nefnt.

Á fundinum mun Pétur Már Guðmundsson, einn af staðarhöldurum Brimrótar, bjóða gesti velkomna og halda utan um dagskrána. Heiðrún Dóra Eyvindardóttir segir frá upphafi og sögu Bókabæjanna. Jón Özur Snorrason stiklar á stóru um starfsemi þeirra á síðustu árum. Vala Hauksdóttir núverandi handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vörles úr verkum sínum og Svanhvít Hermannsdóttir mun gera grein fyrir fjármunum þeim sem til eru í sjóði Bókabæjanna. Fundargestir munu síðan setjast á rökstóla og ræða framtíð Bókabæjanna í notalegu umhverfi Brimrótar.

Það mikilvægasta er að mæta og hafa áhrif með hugmyndum og skoðanaskiptum. Það er einlæg ósk þeirra sem standa að Bókabæjunum í dag. Sjáumst sem flest í Brimrót fimmtudagskvöldið 8. febrúar klukkan 19.30.

JÖz

Fleiri myndbönd