-1.1 C
Selfoss

„Draumur okkar er að þetta springi á endanum“

Pílufélag Selfoss komið með aðstöðu í Tíbrá

Pílukastfélag Árborgar var stofnað árið 2020 af nokkrum áhugamönnum á svæðinu. Það félag lagði þó fljótlega upp laupana vegna skorts á aðstöðu. Árið 2022 var þó ákveðið að endurvekja félagið undir nafninu Pílufélag Selfoss (PFS) en meðlimir höfðu ekki erindi sem erfiði við að verða sér úti um aðstöðu til æfinga, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, fyrr en nú, en félagið hefur sett upp fimm pílustanda í salnum í félagsheimilinu Tíbrá við Engjaveg á Selfossi. Blaðamaður Dagskrárinnar brá sér af bæ og kíkti á glæsilega aðstöðu Pílufélagsins af þessu tilefni og náði tali af Sævari Þóri Gíslasyni, varaformanni PFS, og Helga Haraldssyni, formanni Ungmennafélags Selfoss.

„Við erum flestir með þetta í bílskúrnum heima en okkur langaði að ná lengra, okkur langaði að kasta með öðru fólki og verða okkur úti um aðstöðu svo við þyrftum ekki að vera einir heima í skúrnum. Ekki það, maður er alltaf bestur í skúrnum,“ segir Sævar og hlær.

Í kjölfarið af endurvakningu félagsins voru nokkrir úr hópnum sem tóku þátt í liðakeppni Pílufélags Reykjavíkur, eftir þá keppni var haldinn aðalfundur og Pílufélag Selfoss varformlega stofnað. „Við fórum sjálfir í stjórn og fleira og fórum á fullt í það að reyna að fá aðstöðu. Það fór þó svo að við fengum í rauninni enga aðstoð við það svona í byrjun, en svo fóru styrkir frá fyrirtækjum að tikka inn og meðal annars með þeirra hjálp, tókst okkur að smíða sjálfir pílustanda og eigum við fimm slíka í dag. Í framhaldinu ákváðum við að blása tilOpna Selfossmótsins árið 2022, með frábærum stuðningi frá Einari Björns og Önnu Stellu í Hvíta húsinu. Á því móti var full skráning. Svo héldum við Opna Selfossmótið 2023 og þar var aftur fullt, tveggja daga mót, fullt báða dagana,“ bætir Sævar við. Stjórn PFS skipa þeir Þórólfur Sæmundsson formaður, Sævar Þór Gíslason varaformaður, Leifur Viðarsson gjaldkeri, Karl Brynjar Larsen og Sigurður Bergur Jónsson meðstjórnendur og Eyþór Jónsson og Róbert Daði Heimisson varastjórn.

Helgi Haraldsson, formaður UMFS (fyrir miðju), lætur reyna á hæfni sína í pílukasti, ásamt iðkendum Pílufélags Selfoss. Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Fullt hús annan daginn í röð

Þrátt fyrir þennan framgang á Selfoss Open, fékk félagið enga aðstoð eða aðstöðu fyrr en stjórnarmenn settu sig í samband við Helga Haraldsson, formann UMF Selfoss. „Þar sem píla er orðin viðurkennd íþrótt samkvæmt ÍSÍ, hefur Íslenska pílukastsambandið hvatt félögin til þess að sækja um aðild í ungmennafélögin. Við heyrðum í Helga, sem er auðvitað opinn fyrir öllu er kemur að íþróttum og afþreyingu og hann tók mjög vel í þetta. Við sýndum honum hvað við vildum gera, hvernig aðstöðu væri hægt að setja upp og hvað þetta tæki í raun lítið pláss. Helgi lagði þetta fyrir framkvæmdastjórn og aðalstjórn UMFS og það var samþykkt að leyfa okkur að setja þetta upp hérna í Tíbrá til reynslu, eða þangað til þetta springur. Miðað við aðsóknina sem við erum að sjá í félagið eftir tveggja daga opnun þá mun þetta springa fljótt utan af okkur. Við erum á kvöldi tvö og það er núna fullt hús annan daginn í röð, þrátt fyrir að eitt liðið okkar sé að keppa í bænum núna, þannig að það væri ansi margt hérna ef þeir væru ekki fjarverandi,“ segir Sævar og brosir.

Hefði ekki tekist án þrjósku, frábærrar aðstoðar og stuðnings

Sævar segir þó að þeim hefði aldrei tekist þetta ef ekki væri fyrir þrjósku og þrautseigju og þá staðreynd að þeir hafi aldrei gefist upp. „Þessi stuðningur frá fyrirtækjum hefur verið algjörlega ómissandi. Bæði í kringum Selfoss Open og við að setja upp þessa aðstöðu hér,fengum við styrki og auglýsingar frá fyrirtækum og viljum við sérstaklega þakka Helga Haraldsssyni, Einari Björns og Önnu Stellu í Hvíta húsinu fyrir frábæran stuðning. Sömuleiðis fá Fagform, Reykjafell, Pro-Garðar, Lagsarnir, Raflagnaþjónusta Selfoss, Tools, Skalli Selfossi, Blikkmenn, Gallerý Ozone, Egill Guðjónsson ehf. og Byggingarfélagið Farsæll kærar þakkir fyrir stuðninginn. Einnig ber að þakka allri stjórninni og þeim Einari Erni Einarssyni, Adam Þorsteinssyni, Elmari Viðarssyni og Stefáni Orlandi fyrir aðstoðina við að gera aðstöðuna og standana okkar að veruleika.“

Ljósmynd: Aðsend.
Eins og sjá má, taka standarnir ekki mikið pláss þegar búið er að ganga frá þeim. Ljósmynd: Aðsend.

Engin leið inn

„Við höfum leitað til sveitarfélagsins sem verslaði m.a. fullt af áhöldum fyrir Unglingalandsmót 2022. Áhöld fyrir pílu voru fengin að láni úr Reykjavík en hingað voru keyptir tveir strandblakvellir, bogfimiaðstaða og einhver 6 borðtennisborð á þeirra vegum og ég veit ekki til þess að neitt af þessu, nema kannski tvö borðtennisborð, séu í notkun. Það er vissulega frábært að þau nýtist en á sama tíma er ansi súrt að ekki hafi verið hægt að gera neitt til að styrkja píluna sem var stofnuð árið 2020 og við þá þegar búnir að biðja um aðstöðu og stuðning. Við höfum ekki fengið eina krónu í styrk frá sveitarfélaginu. Við höfum talað við Fjólu og Braga sem voru bæði mjög jákvæð. Við skiljum stöðu sveitarfélagsins en að þau skuli ekki geta tekið ákvörðun um það að veita okkur aðstöðu í skólunum, þessum dýrustu húsnæðum sveitarfélagsins, sem standa auð eftir klukkan 14, 14:30 á daginn, fram á kvöld og eru ekki í notkun 2-3 mánuði á ári, það finnst manni ansi súrt. Sveitarfélagið á þessi rándýru húsnæði og okkur þykir sorglegt að þau skuli ekki vera nýtt, undir einmitt svona sem tekur ekkert pláss.

Tveir skólastjórar af þremur sem við leituðum til voru engan veginn tilbúnir til að fá þetta inn í skólana, sem sveitarfélagið á og rekur, þrátt fyrir að þeir gætu nýtt sér aðstöðuna til valáfanga í kennslu eins og Flóaskóli er að gera með glæsibrag. Eina lausnin sem annar þeirra kom með var 3-4 milljóna króna framkvæmd fyrir PFS sem var engan veginn framkvæmanleg, það finnst manni bagalegt“ segir Sævar.

Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Píla hentar öllum

Sævar segir að píla henti öllum, hún geri hvorki greinamun á kyni, aldri né styrk og að það hafi sýnt sig og sannað. „Við erum virkilega ánægðir með að fá þessa flottu aðstöðu og stefnum á að efla félagið enn frekar. Við hjá PFS búum svo vel að eiga hann Gunnar Guðmundsson sem er Íslandsmeistari U18 2023 og hann er einnig Dartung meistari 2023, en Dartung er mótaröð fyrir 9-18 ára börn og ungmenni. Einnig varð Elmar Viðarsson í þriðja sæti á Íslandsmóti öldunga 50+ 2024. Okkur vantar þó kvenkyns iðkendur og til að reyna að fá fleiri konur til liðs við Pílufélagið, langar okkur að halda konudag hérna, bjóða konum að koma hingað og kasta pílu. Í nánustu framtíð ætlum við svo að bjóða upp á barna- og unglinganámskeið. Landsliðsmennirnir okkar í pílu vilja að auki endilega koma hingað með kynningar og halda námskeið fyrir fullorðna og okkur langar sömuleiðis að geta boðið eldri borgurum að koma og prófa. Mér finnst þetta alveg frábært, æðislegt að sjá aðsóknina.Draumur okkar er að þetta springi á endanum utan af okkur og við fáum stærra húsnæði,“ segir Sævar og horfir brosandi yfir fullan sal af áhugasömum nýliðum sem hópuðust inn eftir að blaðamann bar að garði.

Pílufélag Selfoss stefnir á að bjóða upp á æfingar á mánu- miðviku- og fimmtudögum, með fyrirvara um tilfallandi viðburði í Tíbrá.

Mikilvægt að börn og unglingar séu í skipulögðu íþrótta- eða tómstundastarfi

Helgi Haraldsson, formaður UMF Selfoss, segir að sér þyki mikilvægt að öll börn og unglingar geti fundið sér eitthvað við að vera og séu í einhverju skipulögðu íþrótta- eða tómstundastarfi. „Það getur verið hvað sem er; rafíþróttir, golf, boltaíþróttir, hestamennska, kirkjukórinn, tónlistarskólinn eða eitthvað annað og einn liður í því er að bæta við pílunni. Við erum að vinna að því með Pílufélagi Selfoss að þeir gangi inn í Ungmennafélag Selfoss og verði formleg deild innan félagsins, því pílukast er, líkt og Sævar minntist á, orðin viðurkennd íþrótt hjá Íþróttasambandi Íslands sem og Ólympíusambandinu, og þar með gengur það formlega inn í íþróttahreyfinguna.“

„Þeir hjá Pílufélaginu hafa lengi verið að reyna að fá aðstöðu en það virðast allir aðspurðirhafa miklað þetta fyrir sér, fundist allt ómögulegt. Við komum þeim því fyrir hér í Tíbrá. Kannski ekki síst til að sýna fram á að, vegna þess hvernig þeir eru búnir að útbúa þetta hérna, tekur þetta ekkert pláss á meðan þetta er ekki í notkun. Það er fullt af húsnæði um allan bæ, bæði skólahúsnæði og annað hjá sveitarfélaginu þar sem hægt væri að koma þessu fyrir, bæði til þess að fjölga iðkendum og plássum, til þess að fleiri geti verið með,“ segir Helgi að lokum.

Fleiri myndbönd