1.1 C
Selfoss

„Skrambi gaman að sjá hvað fólk hljóp af stað“

Morgun- og hádegisverðarstaðurinn Byrja opnaði óformlega síðasta föstudag í Krónuhúsinu við Austurveg á Selfossi. Að baki Byrja standa Selfyssingurinn Vigfús Blær Ingason og Christine Rae, kona hans.

 „Við erum búin að hugsa þetta í mörg ár, að hér á Selfossi væri í raun ekkert hægt að fá sér í morgunmat nema í bakaríum eða á bensínstöðvum. Svo fluttum við í bæinn í nokkur ár, þar sem við vorum dugleg að sækja svona morgunverðarstaði, svo fluttum við aftur á Selfoss og þá impraði það á hversu mikið okkur fannst þetta vanta, því við vorum orðin vön þessu. Svo eignumst við börn, erum hérna á selfossi og áttum okkur fljótlega á því að hér eru engir staðir sem er gott að fara með börn á. Maður getur alveg látið það ganga, en ekkert svona sem manni langar sérstaklega að fara með þau,“ segir Vigfús í samtali við blaðamann Dagskrárinnar, sem kíkti til þeirra skömmu eftir að tók að hægja um eftir þeirra fyrstu hádegisverðartörn á föstudag, en á Byrja er skemmtilegt leiksvæði fyrir börn í smíðum við hlið afgreiðsluborðsins.

Setið á öllum borðum klukkutíma eftir opnun

Vigfús segir síðustu vikur hafa verið strembnar. „Við höfum verið á fullu við að reyna að koma þessu í stand en svo í morgun bara svona uppúr tíu var allt til alls hér og við ákváðum að prófa að opna og æfa okkur, þannig að við tókum svona hljóðláta opnun og höfum bara útskýrt það fyrir fólki, sem hefur tekið vel í það, að við erum svona í „beta-testi“. Okkur langar að heyra frá fólki hvort það vilji sjá eitthvað öðruvísi eða hvort við ættum að vera að gera eitthvað örðuvísi þannig að klukkan 10 í morgun ákváðum við að opna bara og sjá hvað gerðist, auglýstum það ekkert, en það hefur gengið ótrúlega vel og var skrambi gaman að sjá hvað fólk hljóp af stað, klukkutíma eftir opnun var setið á öllum borðum,“

Kíkti í heimsókn fyrir 8 árum og er ekki enn farin heim

Vigfús og Christine, sem er frá Kanada, kynntust þegar hún kom í heimsókn til Íslands fyrir 8 árum síðan. „Hún kom hingað í heimsókn og ætlaði að stoppa hjá öðru fólki í nokkra mánuði, en hún er ekki enn farin heim,“ segir Vigfús og hlær. „Christine er vön þessum diner– stöðum í Kanada, sem eru ýmist opnir allan sólarhringinn eða opnaðir eldsnemma og opnir fram á kvöld og eru rótgrónir hlutar samfélagsins. Við erum rosa hrifin af þeirri hugmynd og erum með Byrja að blanda henni saman við það að geta farið með börnin með sér á veitingastað og notið þess að borða matinn áður en hann kólnar.

Eftir að hafa unnið í bænum og verið að keyra á milli, finnum við að við viljum bara vera hér. Okkur langaði að vinna fyrir okkur sjálf og okkur fannst, sem fyrr segir, vanta svona stað í veitingastaðarflóruna í bænum og vildum taka þátt í uppbyggingunni á Selfossi,“ bætir Vigfús við.

Blanda af klassík frá Kanada og Íslandi

Á matseðli Byrja má finna blöndu af klassískum morgunverðarréttum Íslendinga og Kanadabúa og segir Vigfús að sjálfsögðu sé rík áhersla lögð á hið kanadíska hlynsýróp og sömuleiðis hinar hefðbundnu íslensku kleinur og flatkökur. Þar að auki eru ýmiskonar borgarar, samlokur, vefjur og salöt, súpur og snarl, kaffi, úrval af óáfengum drykkjum auk léttvíns og bjór á krana í boði. Byrja opnar klukkan 7 virka morgna og 8 um helgar og opið til 16 alla daga. Byrja Selfoss er á samfélagsmiðlum og á byrjaselfoss.is verður von bráðar hægt að panta á netinu m.a. af sérstökum take-away matseðli.

Fleiri myndbönd