3.9 C
Selfoss

Þú Árnesþing

Vinsælast

Skeiða- og Gnúpverjahreppur er lýsandi nafn

Nú bregður svo við að hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps er óánægð með nafn sveitarfélagsins og vill að íbúarnir sameinist um einfaldara nafn. Sveitarstjóri segir „að breyta þurfi nafni sveitarfélagsins  þar sem nýtt nafn beri sterkari teng-ingu til staðsetningar á Íslandi, sé þjálla í notkun og gegni mikilvægu hlutverki í því að skapa ímynd sveitarfélagsins til framtíðar.“

Kosningin mun því snúast um hvort Gnúpverjar og Skeiðamenn hafni uppruna sínum eða nafni sem segir allt um stað-setningu byggðarinnar.  Svo taka þeir að deila um nýtt nafn verði þetta samþykkt, og þá takast á sjónarmið skeiðamanna og gnúpverja og ný sameiningarrimma myndast um nafnið. Sannleikurinn er sá að hér hefur tekist nokkuð vel til með nöfn á samein-uðum sveitarfélögum þ.e. nýjum stjórnsýslueiningum.  Rangárþing ytra og Rangárþing eystra frábært val og verður svo eftir sameiningu og við Ásahrepp, Rangár-þing. Skaftárþing verða sýslurnar austur að Höfn, kannski fer Mýrdalurinn með Rangárþingi.

Árnessýslumegin er Bláskógabyggð mest úr takti en venst ágætlega, því menn tala um Biskupstungur, Laugardal og Þingvelli og kenna menn við þá búsetu. Árborg er gott heiti á sameinuðu sveitarfélagi, þar eru menn enn Eyrbekkingar, Stokkseyringar og Selfyssingar og kenndir við Sandvíkurhrepp.

Nú veit ég ekki hvað vakir fyrir hinum vaska oddvita og sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Haraldi Þór Jónssyni? Er hann að hugsa um „krúttlegt nafn,“ eins og krakkarnir segja? Ég hef vanist því frá barnsaldri að tala um Skeiðamenn og Gnúpverja og geri það enn og nafnið getur ekki hljómað betur. Svo eru það Gullhrepparnir og hreppamenn,tel ég alltaf að talað sé bæði um hrunamenn og gnúpverja? Ögmundur Pálsson biskup lýsti sýslunni svona og landgæðum í leiðinni:

Grímsnesið góða
og Gullhrepparnir,
Sultartungur
og Svarti
Flói.                                                                                                                                                                                                              

Hvað hreppsnefndin í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er að hugsa veit ég ekki, og mér er til efs að hún hafi hugsað þetta til botns? Kannski Þjórsárbakkabyggð, Ólafsvallabyggð eða Gauksbyggð? Flóamenn í ofanverðum Flóanum völdu Flóahrepp sem er lýsandi fyrir byggðina. Svo eigum við saman framtíðarnafnið Árnesþing sem héraðsskáldið Eiríkur Einarsson frá Hæli  nefndi svo í Þjóðsöng okkar Árnesinga . „Þú Árnesþing, ég elska nafnið þitt.“ Árnesþing er auðvitað nafnið sem verður stjórnsýslueiningin þegar Árnessýsla verður orðin eitt sveitarfélag. Hvað sem Elliði vinur minn í Þorlákshöfn,  Egils Thorarensen og Kaupfélagsins segir. Og Þorlákur Helgi í Skálholti kinkar kolli við þessa bæn mína, enda eini maðurinn á Íslandi sem tekinn hefur verið  í helgra manna tölu. Árið 1984 útnefndi páfastóll hann verndardýrling Íslands. Hvort sameiningin mælir tíu ár eða tuttugu ár þá mun hún verða, spái ég með ungu og framsýnu félagsmálafólki. Höfundur greinarinnar, eins og Eiríkur á Hæli, elskar nafnið Árnesþing. Lagið Sigurðar í Birtingaholti og ljóð Eiríks sem karlakórar Hreppamanna og Karlakór Selfoss syngja af innlifun svo unun er á að hlýða, Þú Árnesþing.

Oft var þörf en nú er nauðsyn hér að taka á móti fólki, ekki síst af höfuðborgarsvæðinu og af Suðurnesjum eins og horfir þar næstu áratugi. Og hingað liggur straumurinn í dag. Höfuðborgarsvæðið mun færast hér austur fyrir fjall í Árnesþing og Rangárþing í vaxandi mæli eins og nú horfir. Byggðin okkar er öll í vexti í Árnesþingi og Rangárþingi, förum því varlega með nýjar nafngiftir á sveitarfélögunum.

Guðni Ágústsson

Nýjar fréttir