-0.7 C
Selfoss

Halda áfram að rannsaka áfallasögu kvenna á Íslandi

Ríflega 30 þúsund konum, sem tóku þátt í rannsókninni Áfallasaga kvenna á árunum 2018-2019, býðst nú að taka þátt í eftirfylgdarrannsókn með því að svara nýjum spurningalista um áföll, lífsstíl og heilsufar.  Rannsóknin er einstök á heimsvísu og hefur fyrsti hluti hennar leitt í ljós afar áhugaverðar niðurstöður um tíðni ýmissa áfalla og tengsl þeirra við heilsufar kvenna á Íslandi.

Áfallasaga kvenna er vísindarannsókn á vegum Háskóla Íslands og ein sú stærsta sinnar tegundar á heimsvísu. Um 30% kvenna hérlendis 18-69 ára tóku þátt í fyrsta hluta rannsóknarinnar. Konurnar svöruðu ítarlegum spurningalista, meðal annars um áföll á mismunandi ævistigum, geðræn einkenni og heilsufar á fullorðinsárum. Niðurstöður úr þessum fyrsta hluta rannsóknarinnar hafa verið kynntar í fjölda vísindagreina í virtum alþjóðlegum vísindaritum. Þær hafa meðal annars staðfest hátt algengi ýmissa áfalla, þar á meðal ofbeldis, meðal kvenna á Íslandi og sterk neikvæð tengsl áfallasögu við sálræna og líkamlega heilsu. 

„Niðurstöður fyrsta hluta rannsóknarinnar benda til þess að áföll í æsku og mikil tíðni áreitni og ofbeldis meðal ungra kvenna, t.d. á vinnustöðum eða í námsumhverfi, geti haft gríðarleg áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu kvenna á fullorðinsárum,“ segir Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor og ábyrgðarmaður rannsóknarinnar. Hún bætir því við að mikilvægt sé að fylgja þessum niðurstöðum eftir og skoða heilsufarsáhrif áfalla til lengri tíma.

„Við höfum til dæmis varpað ljósi á tengsl áfalla í æsku og einkenni fyrirtíðaröskunar og því finnst okkur mikilvægt í næsta áfanga að skoða tengsl við önnur áþekk heilsufarsvandamál kvenna sem geta komið fram síðar, til dæmis við tíðahvörf.“

Áfallasaga kvenna er langtímarannsókn og nú  býðst konum sem tóku þátt í fyrsta hluta hennar að taka þátt í eftirfylgdarrannsókn og svara nýjum spurningalista. Markmið eftirfylgdarrannsóknarinnar er að varpa frekara ljósi á áhrif áfalla á heilsufar kvenna, en nýjar áherslur snúa að ýmsum eftirmálum áfalla, viðbrögðum og úrvinnslu eftir áföllin, núverandi lífsháttum og líðan og notkun og þörf fyrir heilbrigðisþjónustu.

„Í þessum hluta rannsóknarinnar munum við kafa frekar ofan í aðstæður í æsku og uppvexti, viðbrögð og úrvinnslu eftir áföll og ýmsa þætti sem snúa að heilsu kvenna. Þetta er mikilvægt að kortleggja til að komast að því hvernig við getum stutt þolendur áfalla betur,“ segir Arna Hauksdóttir, prófessor og einn aðalrannsakandi Áfallasögu kvenna.

Nánari upplýsingar um eftirfylgdarrannsóknina má finna hér.

Fleiri myndbönd