Birna Aðalheiður Árdal Birgisdóttir er sunnlenski matgæðingur vikunnar að þessu sinni.
Bestu þakkir til elsku, bestu Málfríðar minnar. Ég ákvað að flækja þetta ekki of mikið. Ég vildi endilega hafa fjölskylduþema yfir uppskriftunum sú fyrri er elskuð af börnunum og sú seinni er elskuð af öllum… en getur verið búin til af börnunum.
Hér á mínu heimili byrjuðum við fyrir tveimur jólum að leyfa börnunum okkar að velja forréttinn á aðfangadag sem er snæddur áður en farið er í jóla-heita pottinn. Í bæði skiptin völdu þær kjúklinganagga. Hér kemur sú uppskrift:
Airfryer kjúklinganaggar
Einn pakki af kjúklingalundum
2 dl panko raspur
1 dl rifinn parmesan (best að rífa hann sjálf)
salt og pipar
1 egg
Aðferð:
Gott er að forhita Airfryerinn á meðan á undirbúningi stendur í 200°C.
Hver kjúklingalund er skorin í þrennt, þannig að allir bitarnir eru sirka jafn stórir. Blandið panko raspinum og parmesan ostinum saman í rúmgóða skál og kryddið með salti og pipar.
Hrærið eggið í rúmgóðri skál.
Kjúklingabitunum velt upp úr egginu og í kjölfarið upp úr rasp blöndunni.
Eldið í Airfryerinum í sirka 10 mínútur á 200°C, eða þar til hann er eldaður í gegn. Snúið nöggunum eins oft og þið nennið, þá verða þeir stökkir og góðir að utan.
Gott er að bera naggana fram með sósu til að dýfa í. Ég hef keypt litla gler sprittkertastjaka og sett í þá buffalo-sósu, tómatsósu og BBQ sósu.
Stundum þarf maður eitthvað aðeins í eftirrétt. Einn góðan mola með kaffinu… eða góða lúku eftir langan og erfiðan dag. Ég dæmi engann. Hér er auðvelt góðgæti sem litlar hendur geta aðstoða með. Til eru milljón útgáfur af þessum molum á veraldarvefnum en mér finnst þeir einföldustu vera bestir.
Oreo trufflur
3 lengjur af Oreo kexi
200 gr rjómaostur
200 gr súkkulaði
Aðferð:
Takið frá 2 til 3 kexkökur og geymið. Setjið afganginn af kexinu í matvinnsluvél og myljið þær niður.
Bætið rjómaostinum í matvinnsluvélina og hrærið því saman við mylnslurnar svo það verði að svörtu deigi.
Búið til kúlur úr deiginu (kjörið fyrir börnin að spreyta sig á því)
Gott er að kæla kúlurnar á meðan súkkulaðið er græjað, en ekki nauðsynlegt.
Bræðið helminginn af súkkulaðinu yfir vatnsbaði. Ég saxa hinn helminginn og hræri við bráðið súkkulaðið. Með þessu verður það hér um bil temprað (já ég veit, styttri leið en ég er lítill bakari).
Veltið Oreo-kúlunum upp úr súkkulaði, setjið á bökunarpappír og kælið kúlurnar.
Kjörið er að skreyta kúlurnar með afgangs Oreo-köku-mylnslum eða röndum af hvítu súkkulaði.
Ég vil skora á mína dásamlegu vinkonu, frænku og nágranna Hrafnhildi Magnúsdóttur að vera næsti matgæðingur vikunnar. Hrafnhildur á marga, marga góða rétti til að deila með ykkur og vona ég að þetta verði henni ekki of mikill höfuðverkur.