-9.8 C
Selfoss

„Skiptir máli að vera ég sjálf, alltaf!“

Elísabet Björgvinsdóttir, 18 ára Selfyssingur og nemandi við FSu, er komin upp í 6 manna úrslit í Idol keppninni sem verður í beinni útsendingu á Stöð 2 á morgun. Við náðum tali af þessari upprennandi söngkonu sem hefur fangað hug og hjörtu þjóðarinnar með sínum einlæga persónuleika og dásamlega söng.

Hvað var það sem dró þig út í tónlist?
Ég fór að hlusta meira á tónlist þegar ég missti afa minn 2018, þá byrjaði ég að semja og fannst það góð leið til þess að koma tilfinningunum út! 

Hvernig nærðu tökum á taugunum fyrir flutning, ertu ekki stressuð?
Ég verð mjög stressuð en spenningurinn tekur yfir stressið. Mér finnst svo ótrúlega gaman að koma fram og finnst hjálpa mér að minna mig á það þegar ég verð stressuð.

 „Þetta var flutningur sem rústar svona keppni. Ég hef ekki mikið annað að segja, þetta var gjörsamlega fullkomið.“ Hvernig tilfinning var að fá svona hrós frá Herra Hnetusmjör eftir flutninginn á Don´t stop Beleivin?
Ég var alveg orðlaus í augnablikinu af gleði, þetta var svo góð tilfinning þar sem maður leggur sig allan fram í að gera flott atriði, það er geggjuð tilfinning þegar það heppnast extra vel og maður fær hrós!

Hvað telur þú vera þinn helsta styrkleika sem söngkona og hvernig nýtir þú þér hann í framkomu?
Minn helsti styrkleiki væri örugglega hvað ég er örugg á sviði. Einnig hef ég mikla trú á sjálfri mér og það nýtist mér klárlega í svona stórri keppni!

Hvernig finnst þér þú hafa þróast sem listamaður í keppninni?
Vá, hvar á ég að byrja! Ég hef þróast mikið sem listamaður í þessari keppni og lært mikið. Dómararnir hafa gefið mér einstakt tækifæri til að vaxa sem tónlistarkona, bæði með því að hjálpa mér að verða betri og með því að hafa trú á mér sem söngkonu. Ég hef lært helling inn á sjálfa mig og hvað það skiptir mig miklu máli að vera ég sjálf, alltaf!

Elísabet tekur lagið. Mynd: Stöð 2.

Ef það væri eitt lag sem myndi lýsa þér sem listamanni, hvaða lag væri það?
Það væri lagið dont stop Beleivin, aðallega vegna þess að það er svo skemmtilegt og titillinn auðvitað góður á laginu þar sem það skiptir miklu máli að trúa á sjálfan sig í tónlistarheiminum.

Hvaðan færðu innblástur fyrir lagavali?
Í Idol er alltaf þema í hverjum þætti og ég er mikið að skrolla á spotify að reyna að finna mér lög sem henta þemanu, sem hefur gengið vel!

Kemur þú úr tónlistarfjölskyldu?
Ég myndi segja já, það eru margir í minni fjölskyldu sem hafa mikinn áhuga á tónlist og ýmist syngja mikið eða spila á hljóðfæri. Afi minn er algjör söngfugl og ég vil meina að ég hafi fengið tónlistargen frá honum!

Hvað af því sem dómararnir hafa sagt tekur þú mest til þín og hvernig hafa þau haft áhrif á það hvernig þú kemur fram?
Vá, góð spurning. Ég hef klárlega lært að taka gagnrýni og nýta hana í að verða betri söngkona og það var eitt af því sem dómararnir vildu sjá, hvort ég gæti tekið gagnrýni.

Ef þú mættir starfa með einhverjum tónlistarmanni, lífs eða liðnum, hvaða tónlistarmaður væri það og hvernig tónlist/hvaða lag mynduð þið flytja?
Það eru óteljandi tónlistarmenn sem ég myndi vilja vinna með! Mér finnst eitthvað spennandi við það að gera lag með rappara, þar sem það er blanda af rappi og söng. Þannig ég verð að segja Herra Hnetusmjör.

Hvernig gengur að samtvinna það að vera trú sjálfri þér og standast væntingarnar sem gerðar eru til þín í svona keppni?
Það gengur mjög vel. Ég hef svo mikla trú á sjálfri mér, svo er frábært teymi með mér sem hjálpar mér í einu og öllu sem gerir þetta svo ótrúlega skemmtilegt!

Ef þú horfir fram á veginn, hvernig sérðu fyrir þér að tónlistarferillinn þinn komi til með að þróast eftir keppnina?
Ég ætla klárlega að nýta þetta tækifæri í að þróa mig enn frekar sem tónlistarkonu, mig dreymir um að gefa út lag á þessu ári sem vonandi gengur upp!

Einhver skilaboð til Sunnlendinga í lokin?
Ég vil þakka innilega fyrir kveðjurnar sem ég hef fengið, þetta drífur mann áfram og maður finnur klárlega fyrir hvatningastraumum allsstaðar frá!

Kosninganúmer Elísabetar er 900-9001.

Fleiri myndbönd