-9.8 C
Selfoss

Fréttir af Kvenfélagi Selfoss

76. starfsár Kvenfélags Selfoss er nýhafið. Þetta tæplega 76 ára félag er síungt og býr svo vel að hafa á að skipa duglegum konum sem láta sig góð málefni varða.

Á nýliðnu ári voru veittar gjafir og styrkir fyrir rúmlega 2.6 milljónir króna. Það sem m.a. var styrkt var HSU, Sjóðurinn Góði, Árblik dagvistun aldraðra, Kotið dagdvöl, Eldheimar dagvistun, sérdeild Sunnulækjarskóla, Ungmennahús Árborgar, og fl.

Og hvernig öflum við svo þessara peninga, jú dagbókin Jóra kom út eins og s.l. 30 ár og rúmlega það. Hún er alltaf jafn vinsæl, þó margir segist hættir að nota slíkar bækur, þá hefur hún að geyma margar hagnýtar upplýsingar símaskrá hjá fyrirtækjum á svæðinu að ógleymdum uppskriftum. Aðeins örfá eintök eru enn fáanleg af þessari ágætu bók.

Dagbókin Jóra.

Félagið er með minningarkort fyrir Sjúkrahússjóð Kvenfélags Selfoss og ágóðinn rennur óskiptur til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Haldin var hlutavelta, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar á árinu.

Og í upphafi nýliðins árs tók félagið að sér að sjá um kaffi á Opnu húsi hvern fimmtudag hjá félagi eldriborgara á Selfossi. Fengnar voru 4 öflugar konur til að hafa umsjón með þessari vinnu, þær sjá um alla skipulagningu, fá félagskonur til að baka og vinna og baka  einnig sjálfar og vinna. Þetta er mikil vinna en þakklát og skemmtileg, og vel hefur  gengið að fá konur í lið með sér. Þannig hjálpa félagar í FEBSEL félaginu að styrkja góð málefni með því að kaupa sér kaffi og meðlæti á þessum fræðandi og skemmtilegu Opnu húsum.

En við, þessar tæplega 100 konur í Kvenfélagi Selfoss gerum okkur líka sitthvað til dægrastyttingar, fáum fræðandi og skemmtilega fyrirlesara á fundi, bregðum undir okkur betri fætinum og förum í styttri og lengri skemmtiferðir. Nú í vor stendur til að halda upp á 75 ára afmælið, sem var að vísu á síðasta ári, með ferð til Dublin, það verður ekki leiðinlegt.

Að vera félagi í kvenfélagi er gefandi og skemmtilegt, maður eignast góðar vinkonur, lærir sitthvað nýtt og nytsamlegt og fyrir konur sem eru nýfluttar í bæjarfélagið er það kjörin leið til að kynnast og fræðast. Við tökum glaðar á móti nýjum félagskonum, það er bara mæta á fund. Þeir eru að jafnaði haldnir í Selinu við Engjaveg 44 annan þriðjudag í mánuði kl. 20.00 eða handavinnu- og spjallkvöld þriðja þriðjudag í mánuði á sama stað og tíma.  Fundir eru auglýstir á fésbókarsíðu félagsins og oftast einnig á íbúasíðum.

Kvenfélag Selfoss

Fleiri myndbönd