Á síðasta fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps var íbúakosning um nafnabreytingu á sveitarfélaginu samþykkt. Kosið verður um nýtt nafn á sveitarfélagið samhliða forsetakosningum þann 1. júní nk.
Í fundargerð segir að Haraldur Þór Jónsson sveitarstjóri telji það mikilvægt að breyta nafni sveitarfélagsins þar sem nýtt nafn beri sterkari tengingu til staðsetningar á Íslandi, sé þjálla í notkun og gegni mikilvægu hlutverki í því að skapa ímynd sveitarfélagsins til framtíðar.
Sveitarstjórn telur mikilvægt að góð umræða fari fram um mögulega nafnabreytingu og forsendu hennar. Samþykkt var að boða til íbúafundar í mars, þar sem málið verði kynnt og rætt.
Gunnar Örn Marteinsson sat hjá við afgreiðslu tillögunnar og telur ekki þörf á að breyta um nafn á sveitarfélaginu. „Verði farið í þá vegferð tel ég að óska eigi eftir hugmyndum að nafni og síðan verði valdar tvær eða þrjár hugmyndir og kosið um þær.“