-8.2 C
Selfoss

Vélsleðaslys á Hamragarðaheiði

Vinsælast

Um 12:30 í dag voru björgunarsveitir á Hvolsvelli og Hellu kallaðar út vegna tilkynningar um vélsleðaslys á Hamragarðaheiði. Skömmu síðar var óskað eftir þyrlu frá Landhelgisgæslu.

Þar var á ferðinni hópur fólks og einn ferðalanga velti sleða sínum og virðist hafa orðið undir sleðanum. Óttast var að viðkomandi væri fótbrotinn.

Vel gekk að komast upp Hamragarðaheiðina og að slysstað. Þyrla fór í loftið frá Reykjavík rúmlega 13.

Talsverður skafrenningur var á slysstað og ljóst að betra væri að færa sjúkling neðar í heiðina þangað sem þyrla gæti lent vandræðalaust.

Búið var um sjúklinginn og hann fluttur í bíl björgunarsveitar að lendingarstað þyrlu.

Þyrla var lent á heiðinni rétt fyrir klukkan 2 og var sjúklingur þá færður yfir í hana og fluttur á brott.

Nýjar fréttir