Það hefur eflaust ekki farið framhjá nokkrum landsmanni að Evrópumót karlalandsliða í handbolta er hafið og spennustigið ansi hátt eftir að Íslendingar komust upp í milliriðil mótsins. Jón Özur Snorrason, íslenskukennari og fréttastjóri FSu, segir það ekki úr vegi að draga fram þá lykilleikmenn liðsins sem stundað hafa nám við skólann. „Það er líka bæði fróðlegt og gaman og fullyrða má að enginn framhaldsskóli landsins geti tengt sig við svo marga hæfileikamenn í sama liðinu,“ segir Jón Özur.
Þeirra fyrstur til að stunda nám við FSu var Bjarki Már Elísson sem sótti akademíuna 2006 til 2009 og kynntist í kjölfarið núverandi eiginkonu sinni sem er frá Selfossi. Þá var Janus Daði Smárason í námi við FSu 2011 til 2012 og er af mikilli íþróttaætt því móðir hans er systir Þóris Hergeirssonar eins færasta handboltaþjálfara í heimi. Ómar Ingi Magnússon sækir skólann 2013 til 2015 en hans ættir liggja í Flóann að Haugi en karlleggur þeirrar ættar er þekktur fyrir mögnuð glímutök. Elvar Örn Jónsson stundar hér nám 2013 til 2016 og Haukur Þrastarson 2017 til 2021. Elvar og Haukur og reyndar líka Teitur Örn Einarsson, sem er næsti maður inn í landsliðið, eru úr magnaðri sunnlenskri afreksfjölskyldu sem kennd er við Hurðarbak í Flóa. Því má svo við bæta að hinn trausti og tryggi sjúkraþjálfari landsliðsins Jón Birgir Guðmundsson er faðir Elvars Arnar og því af Hurðarbaksætt og bróðir Ólafs Guðmundssonar sem á fjölmörg HSK met í frjálsum og stundar ennþá afreksíþróttir.
Af þessu tilefni fékk Jón Özur þá Guðmund Karl Sigurdórsson, ritstjóra Sunnlenska.is, til að setja saman meðfylgjandi mynd úr myndum af vef HSÍ, Sigursvein Sigurðsson aðstoðarskólameistara til að fletta upp í skránum og Kjartan Ólason, kennara við FSu, til að ættrekja þá, áður en hann batt allt saman og birti á vef skólans.