1.7 C
Selfoss

Akstur er dauðans alvara

Vinsælast

Ók niður vegprest í Ölfusinu

Á dögunum henti það undirritaðan að keyra niður umferðaskilti í Ölfusinu. Var á heimleið í svarta myrkri, rigningu og þoku, svo kom augnablikið eða augnakastið sem aldrei verður tekið til baka, eins og Einar Benediktsson sagði í ljóðinu: „Ég keyrði á skiltið og af varð mikið högg.“ Á hundrað metra millibili eru vegvísar annarsvegar niðrí Kirkjuferju til hægri og upp að Sogni til vinstri þá maður er á austurleið. Vestan Hellisheiðar er samskonar vegvísir sem beinir umferð á Þorlákshafnarveg til hægri á austurleið.

Oft höfðum við hjónin rætt okkar á milli að eitthvað meira þyrfti að gera á þessum stöðum, þarna væru slysahættur og kynnu þessir vegvísar að valda ökumönnum óöryggi og væru slysagildrur. Þegar ég tilkynnti óhappið hér á lögreglustöðinni hafði lögreglukonan orð á því við mig að hún hefði hugleitt að þarna kynnu að vera slysahættur á nýja veginum, og koma þyrfti til skýrari merkinga til að draga úr slysahættu, skiltin væru ruglingsleg fyrir ökumenn. Undir þetta tóku svo starfsmenn Vegagerðarinnar.

Ég bind vonir við að þetta óhapp mitt verði til þess að Vegagerðin komi með úrbætur á öllum þessum vegamótum. Hringtorg hefði sennilega verið besta lausnin þarna í Ölfusinu. Akstur er dauðans alvara, eitt ber þó að þakka að á síðustu árum hefur Vegagerðin, Umferðarstofa í samráði við stjórnmálamenn og ekki síður tryggingafélögin bætt umferðamenningu og slysagyldrur verið lagfæðar. Og svo er ökukennsla unga fólksins til fyrirmyndar. Hinn tvíbreiði vegur frá Reykjavík á Selfoss hefur þegar forðað mörgum ferðamönnum frá dauða eða limlestingum. Hvert mannslíf sem umferðin kostar er samfélaginu dýrt.

Guðni Ágústsson

Nýjar fréttir