-1.6 C
Selfoss

Minning um Kristján S. Jónsson

Kristján S. Jónsson.
Kristján S. Jónsson.

Fallinn er frá, heiðursfélagi Ungmennafélags Selfoss, Kristján S. Jónsson. Þegar saga Ungmennafélags Selfoss, er skoðuð, má víða sjá þátt Kristjáns í henni. Hann var alla tíð virkur félagi og mikill stuðningsmaður félagsins, hvort heldur var sem stjórnarmaður, foreldri eða sjálfboðaliði. Á einum stað í 40 ára, afmælisriti félagsins sem kom út árið 1976, segir: „ Árið 1960, voru áhugamenn í félagsmálum að koma fram á Selfossi, m.a Kristján S. Jónsson mjólkurbílstjóri, sem síðar varð mikill félagsmálagarpur innan Umf. Selfoss“. Það má með sanni segja að þarna sé Kristjáni vel líst.

M.a var Kristján, formaður knattspyrnudeildar félagsins 1963-1964 og síðar varð hann formaður félagsins árin 1965-1970.  Þegar Kristján lét af formennsku í félaginu, er formennsku hans minnst svona af einum fundarmanna, á aðalfundi félagsins, „Kristján hefur gert margt gott fyrir félagið síðan hann tók við formennsku, verið mikil lyftistöng fyrir félagið og rifið það upp úr dvala með áhuga sínum og óbilandi þreki. Hann hefur endurskipulagt alla starfsemi félagsins og gert það að íþróttalegu stórveldi.“

Kristján var sæmdur gullmerki Umf. Selfoss árið 1986 og gerður að heiðursfélaga árið 2007. Hann fylgdist alla tíð vel með félaginu sínu og var alla tíð boðinn og búinn að leggja því lið og sem sjálfboðaliði og því starfi þess afar mikilvægur.

Með þessum orðum vil ég fyrir hönd Ungmennafélags Selfoss og allra deilda og félaga þess, að leiðarlokum, þakka Kristjáni fyrir öll hans störf, óbilandi áhuga og aðkomu að starfi félagsins til margra áratuga. Um leið sendum við fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

F.h. Ungmennafélags Selfoss,
Helgi Sigurður Haraldsson formaður

——–

Við sem höfum starfað með Kristjáni S. Jónssyni, heiðursfélaga Ungmennafélags Selfoss, á vettvangi ungmennafélagsins langar að minnast hans með virðingu og þakklæti. Kristján var mikill áhugamaður um íþróttir og hafði mikil áhrif á þróun íþróttalífs á Selfossi. Með framgöngu sinni ásamt öðrum var hann einn aðalhvatamaðurinn að endurreisn ungmennafélagsins árið 1962, en þá hafði starfsemin legið niðri. Frá þeim tíma hefur ungmennafélagið starfað af miklum krafti, vaxið og dafnað með fjölda íþróttagreina á sínum vegum. Þetta sama ár var knattspyrnudeildin endurvakin og Kristján kosinn varaformaður. Þáttur Kristjáns í starfi knattspyrnunnar var mikill. Hann skipulagði æfingar og annaðist þjálfun, var knattspyrnudómari og tók að sér forystuhlutverk knattspyrnudeildarinnar, oftar en einu sinni.

Eftir farsælt starf, var hann kjörinn formaður Ungmennamennafélags Selfoss árið 1965. Hann var í forystu ungmennafélagsins til ársins 1970. Kristján kom ýmsu góðu til leiðar, stóð fyrir námskeiðum ýmis konar sem bættu félagslegan grunn og vann að lagfæringu á fjárhagsstöðu félagsins. Árið 1977 var hann kjörinn formaður Héraðssambandsins Skarphéðins og gegndi því hlutverki til ársins 1980. Hann tók við sambandinu á erfiðleikatímum, endurvakti skjaldarglímu Skarphéðins, stóð fyrir glæsilegu landsmóti UMFÍ á Selfossi 1978 og skilaði af sér sambandinu með bættan fjárhag. Hægt væri að skrifa lengri pistil um störf Kristjáns í þágu íþrótta og æskulýðsmála. En með þessum skrifum og birtingu nokkra mynda úr starfinu viljum við þakka Kristjáni ómetanleg störf.

Við vottum eiginkonu hans Áslaugu Eiríksdóttur og börnum þeirra, Hafdísi, Jóni Birgi og Hrafnhildi og fjölskyldum þeirra innilegrar samúðar. Góður drengur er genginn.

Björn Ingi Gíslason,
Kristinn M. Bárðarson og Bárður Guðmundarson

——–

Þegar við vorum að vinna Braga 75 ára afmælisblað var ákveðið að taka viðtöl við nokkra forystumenn Umf. Selfoss, þá Hafstein Þorvaldsson, Tómas Jónsson, Hörð Óskarsson og Kristján S. Jónsson. Þegar ég hringdi í Stjána tók hann frekar dræmt í að koma í viðtal, margir hefðu unnið miklu meira en hann og það ætti frekar að tala við þá. Þegar ég nefndi Hafstein, Tómas og Hörð og að við færum til Reykjavíkur í myndverið hjá Marteini, þá samþykkti hann að vera með ef hann fengi einkabílstjóra og við værum á almennilegum bíl. Ég sótti Stjána og Hafstein og við ókum til Reykjavíkur. Því miður var ég ekki með upptökuvél í gangi á leiðinni, en þeir félagarnir léku á alls oddi og sögðu margar skemmtisögur.

Í viðtalinu hjá Marteini sagði Kristján að menn hefðu kannski ekki alltaf  verið sammála, en hann leitaði sátta og málamiðlana. Hann prófaði að vera einræðisherra þegar hann var formaður, en sá fljótt að sú aðferð gekk ekki nógu vel, betra væri að leita samvinnu og samstöðu.

Kristján tók dómarapróf í knattspyrnu 1965, dæmdi víða og var oft línuvörður. Hann var eftirminnlegur sem dómari, sló stundum á létta strengi þegar þess þurfti en var röggsamur og sanngjarn.

Þegar saga Umf. Selfoss er skoðuð má sjá hvað Kristján S. Jónsson hefur lagt fram gríðarlega mikið starf. Kristján sagði við mig í hógværð sinni „að hann furðaði sig á því hve margir nenna að leggja á sig alla þá vinnu sem þarf til að íþróttafélögin séu svo öflug sem þau eru. Það hafa margir lagt fram miklu meiri vinnu en ég“.

Félagar í Umf. Selfoss standa í þakkarskuld við Kristján S. Jónsson og kveðja hann með þakklæti og virðingu.

Kristinn M. Bárðarson

 

Dómarar: Kristján S. Jónsson, Guðmundur Guðmundsson og Björn Brynjólfsson.
Meistaraflokkur æfir í snjó veturinn 1968-1969. Efri röð f.v: Kristján S. Jónsson þjálfari, Valdimar Bragason, Sverrir Ólafsson, Ólafur Bachmann, Þorvarður Hjaltason, Smári Kristjánsson, Pétur H. R. Sigurðsson, Þórður Sigurðsson og Kristján Mikkelsen. Neðri röð f.v: Gylfi Þ. Gíslason þjálfari og leikmaður, Jakob Gunnarsson, Gunnar Skúlason, Sigurður Eiríksson, Sigurður Grímsson, Gunnar Guðmundsson og Tryggvi Gunnarsson. Gylfi og Sverrir eru fyrstu landsliðsmenn okkar í knattspyrnu, en þeir léku með unglingalandsliðinu á Norðurlandamóti í Lathi í Finnlandi 1967.
Kristján S. Jónsson (t.v.) var formaður Umf. Selfoss 1965-1970. Hann var kjörinn heiðursfélagi 3. maí 2007. Hörður Óskarsson (t.h.) var formaður Umf. Selfoss 1963-1964 og 1970-1976. Hann var kjörinn heiðursfélagi 1. júni 1986. Þeir sátu saman í stjórn um tíma og áttu veigamikinn þátt í endurreisn og uppbyggingu Ungmennafélagsins.
Meistaraflokkur Umf. Selfoss ásamt þjálfara og formanni árið 1965.

Nýjar fréttir