-1.1 C
Selfoss

Góðar gjafir frá Sambandi sunnlenskra kvenna

Samband sunnlenskra kvenna afhentu Heilbrigðisstofnun Suðurlands formlega höfðinglegar gjafir í gær. Það er afrakstur kvennanna í sambandinu sem hafa safnað fyrir kaupum á tækjum og búnaði fyrir Ljósmæðra- og fæðingarvakt, Bráðamóttöku og Lyflækningdeild HSU.

Ljósmæðravaktinni voru gefin gulumeðferðarteppi, 2 ungbarnavogir með töskum, bráðatösku fyrir fæðingastofu, blóðtökukörfum, hnakkakoll, 2 nýburaöndunarbelgir, blóðþrýstingsmælir á fæti og súrefnismettunarmælir að andvirði 1.585.115 kr. „Gulumeðferðarteppið er t.d. stór þáttur í því að geta meðhöndlað nýburagulu á öruggan og árangusríkan hátt í heimahúsi undir eftirliti ljósmæðra og lækna. Nýburinn þarf ekki að leggjast inn á sjúkrahús til meðferðar sem sparar fjölskyldunni mikil óþægindi og minnkar streitu. Það hefur svo bein áhrif á umönnun barnsins og brjóstagjöf,“ segir Björk Steindórsdóttir, yfirljósmóðir ljósmæðra- og fæðingardeildar.

Lyflækningadeildinni var færður myndarlegur hægindastóll með rafmagni að andvirði 244.875 kr. „Slíkir stólar eru mikið notaðir af skjólstæðingum og aðstandendum þeirra. Þar sem skjólstæðingar þurfa oft að dvelja lengi á deildinni er mikilvægt fyrir lyflækningadeild að geta boðið upp á aðra vegu til að hvílast en í rúmið,“ segir Anna Björk Ómarsdóttir, deildarstjóri lyflækningadeildar.

Bráðamóttakan fékk til sín myndarlegan nálavagn að andvirði 402.757 kr. sem nýtist einstaklega vel inni á bráðamóttökunni. „Þar er hægt að koma fyrir öllu sem viðkemur blóðprufum, blóðræktunum og æðaleggjauppsetningu á einum stað. Auðvelt að keyra hann milli staða og með stillanlegu handfangi. Hægt að keyra hann inná lager til að fylla á hann. Er í mjög góðri vinnuhæð og þægilegur í umgengni. Starfsfólkið er upp til hópa mjög ánægt með þessa viðbót sem bætir vinnuaðstöðuna mjög mikið,“ segir Anne María Steinþórsdóttir, deildarstjóri bráðamóttöku.

Færa þær Sambandi sunnlenskra kvenna og öllum þeim aðilum sem að allri fjáröfluninni kærar þakkir fyrir þessar góðu gjafir. Þær segja gjafirnar bæta tækjakost og búnað fyrir skjólstæðinga og starfsaðstöðu og öryggi starfsfólks að auki.

Fleiri myndbönd