Fimmtudaginn 28. desember fór fram hin árlega uppskeruhátíð fræðslu- og frístundarnefndar Árborgar. Þó nokkur fjöldi fólks var mættur til þess að fagna með því flotta íþróttafólki sem við höfum hér í Árborg.
Feðginin í Fljúgandi villisvín opnuðu hátíðina með glæsilegu tónlistaratriði en í kjölfarið hélt Brynhildur Jónsdóttir formaður fræðslu- og frístundarnefndar setningarræðu.
Fjöldi íþróttafólks fékk því næst viðurkenningu fyrir góðan árangur á árinu og ljóst er að við erum ekki á flæðiskeri stödd með framúrskarandi íþróttafólk hér í sveitarfélaginu.
Hvatningarverðlaunin þetta árið hlaut Félagsmiðstöðin Zelsíuz fyrir það flotta starf sem þar er unnið. Vinnan í félagsmiðstöðinni hefur hlotið verðskuldaða athygli víða um land og hlaut hún í samstarfi við velferðarþjónustu Árborgar Íslensku menntaverðlaunin 2023 í flokknum framúrskarandi þróunarverkefni.
Til íþróttamanneskja Árborgar voru að þessu sinni 24 aðilar tilnefndir, 10 konur og 14 karlar
Kosningin er með því sniði að sérstök valnefnd kýs og hefur 80% vægi á móti 20% vægi netkosningar.
Kosningin hjá konunum fór þannig að Glódís Rún Sigurðardóttir keppniskona í hestaíþróttum sigraði með 93 stig, í 2. sæti varð Bergrós Björnsdóttir lyftingarkona með 74 stig og í 3. sæti varð Katla María Magnúsdóttir handknattleikskona með 58 stig.
Hjá körlunum var kosningin ansi jöfn á toppnum en að lokum var það Sigurjón Ægir Ólafsson lyftingarmaður sem varð hlutskarpastur með 74 stig, í 2. sæti varð Egill Blöndal júdókappi með 70 stig og í 3. sæti varð Hákon Þór Svavarsson skotíþróttamaður með 32 stig.
Sveitarfélagið Árborg