-9.2 C
Selfoss

Álfrún Diljá Kristínardóttir er Dúx FSu

Brautskráningardagur í FSu markar alltaf tímamót og er hátíðisdagur í hugum okkar allra. Miðvikudaginn 20. desember útskrifuðust 62 nemendur af hinum fjölmörgu brautum skólans í bóknámi og verknámi eða samspili þessara tveggja. Í upphafi athafnar flutti kór skólans undir stjórn Stefáns Þorleifssonar tvö jólalög og nemandinn Sveinn Skúli Jónsson tróð upp með einsöng og heillandi framkomu um miðbik athafnar.

Fjörutíu ára stúdentar skólans settu svip sinn á samkomuna með því að fjölmenna og fagna þessum tímamótum. Sigþrúður Harðardóttir núverandi kennari skólans flutti fróðlegt erindi fyrir þeirra hönd og lýsti námsaðstæðum nemenda þegar ekkert var skólahúsnæðið og nemendur hlupu á milli húsa bæjarins í leit að þekkingu. Enda var skólinn í þá daga kallaður Hlaupabrautin.

Í ræðu sinni lagði skólameistari Olga Lísa Garðarsdóttir meðal annars áherslu á þann undirbúning fyrir lífið sem góð menntun væri. Og um leið varpaði hún ljósi á það hversu mikilvægt það væri „að hugsa út fyrir boxið, gera uppgötvanir, hanna nýjar lausnir og nýskapa. Móta nýjungar og breyta samfélaginu í átt að meiri mennsku, stefna að jafnræði milli allra þegna samfélagsins, vinna í þágu umhverfisverndar og sjálfbærni.” Svo sannarlega orð í tíma töluð. Aðstoðarskólameistari Sigursveinn Sigurðsson flutti annál annarinnar en það er rík hefð við útskrift skólans að tíunda það sem gert er utan hefðbundins skólastarfs auk tölulegra upplýsinga. Hér má nefna ýmsar vettvangsferðir og gestakomur erlenda nemenda og kennara, félagslíf nemenda, kvöldvökur, söngkeppni og íþróttaviku, utanlandsferðir og útilíf, myndlistasýningar, fjársöfnun til styrktar sjúkum og nýjungar í námsframboði skólans.

Ræða brottfarenda var í höndum Jóhönnu Fjólu Sæmundsdóttur sjúkraliðanema og fórst henni það afar vel í hendi þar sem hún lagði áherslu á hversu persónulegur skóli FSu væri þar sem gagnkvæm virðing ríkir milli nemenda og starfsfólks skólans. Auk viðurkenninga fyrir góðan námsárangur einstakra greina sem Sigursveinn Sigurðsson afhenti kom það að lokum í hlut Jóhönnu Ýrar Jóhannsdóttur formanns skólanefndar FSu að útnefna Dúx Scholae eða þann nemanda sem nær hæstri meðaleinkunn útskrifaðra nemenda. Að þessu sinni varð hlutskörpust Álfrún Diljá Kristínardóttir og hlýtur hún námsstyrk frá Hollvörðum skólans en að baki þeim stendur öflugur hópur velunnara skólans. Um Álfrúnu fullyrti Jóhanna út frá lýsingum kennara að hún sé „með smitandi jákvæðan kraft, leiðtogaefni sem nær árangri í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.”

Á útskriftardegi fléttast saman menntun og menning, tilhlökkun og tregi, stolt yfir stöðnum einingum og árangri í námi, hugleiðing um horfin veg og hvað sé handan hæðarinnar en umfram allt ósk okkar allra um bjarta framtíð. Hefð er fyrir því að vitna til hins nafnlausa skólaskálds í lok hvers annáls og að þessu sinni lagði það út af vinnusemi nemenda og þeirri visku og þeim húrrahrópum sem af henni hlýst:

Hjá nemendunum viskan hefur völdin
og vinnusemin fer á söguspjöldin.
Brátt hljóðnar þetta geim
en húrra fyrir þeim
sem hverfa‘ á braut og þurftu‘að læra‘ á kvöldin.

JÖZ.

Fleiri myndbönd