3.9 C
Selfoss

Giljagaur skammar systkinin

Vinsælast

Nemendur í íslensku á 1. þrepi í FSu fengu það verkefni í byrjun aðventu að semja og skrifa jólasögur. Á hverjum degi fram að jólum birtum við sýnishorn af sögum nemenda sem kennari þeirra Jón Özur Snorrason hefur yddað og ritstýrt og samið við fyrirsagnir. Viðfangsefnin eru af ýmsu tagi en ljóst er að jólahaldið og hátíðin, hefðir og pakkar og innihald jólanna skiptir ungt og upprennandi fólk ennþá miklu máli. Njótið lestursins og gleðilega komandi hátíð.

Systkinin stukku upp úr rúminu sínu um leið og þau opnuðu augun. Aðfangadagur var nú runninn upp. Það var orðið ansi jólalegt bæði inni og úti. Búið að skreyta mikið og heljarinnar jólatré stóð í stofunni og mjúkir og harðir pakkar undir því. Úti var ískalt, vindur og hundslappadrífa í loftinu. Fjölskyldan hélt af stað í möndlugraut heim til ömmu og afa. Þegar hún var aftur komin heim tóku systkinin eftir stórum fótsporum og snjó á stofugólfinu. Fótsporin lágu að jólatrénu í stofunni. Undir trénu voru mun færri pakkar en þegar þau fóru að heiman. Greinilegt var að einn stór og skeggjaður hafði komið í heimsókn. Fjölskyldan leitaði allstaðar í húsinu af pökkunum en ekkert fannst. Eftir langa leit ákvað pabbi að hringja í jólasveinana og athuga hvort þetta hafi átt að vera brandari. Hurðaskellir svaraði í símann og sagði að Giljagaur hafi farið í spássitúr og komið til baka með fullan poka af gjöfum. Hann sagðist mundi senda Giljagaur til baka sem kom fljótlega og viðurkenndi stuldinn. Ástæðan væri sú að honum fyndust krakkar nú til dags vera of æstir í pakka. Foreldrarnir sýndu þessu skilning er systkinin voru hundfúl. Eftir að Giljagaur kvaddi rann það upp fyrir þeim að þetta hafi nú bara verið rétt hjá Gaurnum. Jólin hjá fjölskyldunni breyttust mikið eftir þennan aðfangadag. Systkinin og öll fjölskyldan varð miklu samheldnari og pakkarnir skiptu þau ekki eins miklu máli og áður.

Bryndís Hekla Sigurðardóttir

Nýjar fréttir