1.7 C
Selfoss

Hverjir eru bestir?

Pæling…

Ómar Franklínsson.

Þörfin á að vera bestur hefur lengi fylgt manninum e.t.v. alltaf, ekki bara að vera sjálfum sér nógur án þess þó að hafa gert áreiðanlegan samanburð á sjálfum sér og öðrum. Eigin sannfæring er mörgum ekki næg sönnun og fullvissa fyrir því að þeir séu nóg heldur þarf að hafa vissu og sannfæringu fyrir því að vera betri en aðrir og a.m.k. af eigin áliti bestir.

En er sá endilega bestur sem t.d: Hleypur hraðast, sá sem hoppar hæst, syndir hraðast, lyftir mestum þunga, stekkur lengst eða hæst, klífur hæsta fjallið og eða skorar hæst á eðlisfræðiprófinu? Hann er ekki endilega bestur heldur bara tímabundið fremstur í afmarkaðan tíma á afmörkuðu sviði og og í afmörkuðum hópi, en hættir hann þá að vera bestur þegar annar eða aðrir fara fram úr honum og gera betur eða getur hann orðið bestur á ný?

Ef einhver er öðrum fremri þá hljóta að vera einhverir sem standa öðrum að baki, en engin er bestur í öllu og því er erfitt að leggja mat á hver sé bestur og þá bestur í hverju. En allir eru góðir í einhverju þó þeir séu ekki endilega bestir í neinu. Er sá e.t.v. bestur sem sýnir öðrum: Náungakærleik, samkennd eða tillitsemi?

Er hægt að vera bestur eða e.t.v. fremstur í því að vera: Slæmur, illur, eigingjarn, árásargjarn eða einfaldlega rekast ekki í hópi eða samfélagi manna? Er viðkomandi þá ekki komin í hóp með þeim verstu?

Getur einstaklingur verið bestur? Er einhver hópur bestur? Liðsheild skiptir máli, e.t.v er hægt að vera bestur í eða með einhverjum tilteknum hópi,en fá sín ekki notið í öðrum hópum eða öðrum aðstæðum sem einstaklingur.

Getur maður orðið bestur með því að keppnautar eru ekki líklegir til að valda því að þú verðir næst bestur eða jafnvel náir ekki einusinni því að vera á meðal þeirra bestu? Svo eru þessir c.a. 10% sem eru aldrei bestir í neinu eða fyrir neinn og síst af öllu fyrir sjálfa sig ,en flestum bara til ama og leiðinda og sjálfum sér verstir. Er efsta stig lýsingarorðsins góður e.t.v. ofnotað?

Það má einnig velta því fyrir sér hlutlægt, en þó almennt hvaða bíll er t.d. bestur? Er það sá sem fer hraðast, eða lengst án vandræða e.t.v sá sem ræður við hinar fjölbreytilegustu aðstæður t.d akstur utan vega eða er nóg að bíllinn sé að mati eiganda síns fallegastur á litinn og að ytra útliti og fullnægi þeim kröfum og þörfum sem eigandinn gerir til ökutækis? Er e.t.v. nóg að vera næst bestur eða jafnvel bara nokkuð góður, en það yrði ýmsum aldrei nóg og væru þeir því stöðugt að strögla við að komast: lengra, hraðar eða hærra þar til þeir komast loks á þann stað sem tryggir þeim að eigin mati og e.t.v. sumra annarra (ekki endilegra allra) að þeir séu orðnir bestir, en fyrir hvern eru þeir þá bestir sjálfan sig eða heildina?

Getur einhver t.d. sagt með fullri vissu að einhver tiltekinn matur sé bestur, er frábær nautasteik betri en kæstur hákarl já eða girnilegur sviðakjammi? Það getur algjörlega staðist að pizzan sé besta pizzan í bænum ekki af því að hún sé svo frábær heldur af því að hún er eina pizzan sem er í boði í bænum. Yrði það mat ekki alltaf einstaklingsbundið og réðist af bragðlaukum hvers og eins og áhrifum máltíðarinnar á vellíðan og eftirbragð?

Er ekki sá bestur sem er gleðigjafi og lætur öðrum um leið og sjálfum sér líða vel án þess þó að ganga um of á eigið forðabúr gleðinnar sem í honum býr og þannig valda sjálfum sér tjóni? Hversu þungt vega genatengdir eiginleikar og hversu þungt vegur eigið framlag þrotlausra æfinga með það markmið að verða bestur?

Er hægt að gera betur en að reyna að vera besta útgáfan af sjálfum sér í hverju því sem einstaklingur tekur sér fyrir hendur?  Oft er það svo með pælingar að ekki fæst óyggjandi niðurstaða af þeim þótt enn megi sjálfsagt teigja þær víðar á alla kanta, og svo er með þessa pælingu mína.

En líklega er best að láta hér þessari pælingu minni lokið að sinni því fátt er um svör og allt er í heiminum breytilegt.  Ja mér datt þetta svona í hug.

Ómar Franklínsson
Selfossi

Nýjar fréttir