-6.6 C
Selfoss

„Þegar tæknin tekur öll völd“

Vinsælast

Ljóðskáldið Þór Stefánsson var fæddur í í Hlíðunum í Reykjavík árið 1949. Hann gekk í Austurbæjarskóla og Gaggó Aust og síðan Menntaskólann í Reykjavík. Þaðan lauk hann stúdentsprófi úr stærðfræðideild 1969. Þá lá leiðin til Frakklands þar sem hann bjó í nokkur ár og lagði stund á sálfræðinám. Næstu ár vann Þór sem kennari eða verkamaður heima á Íslandi áður en hann fór aftur til Parísar, þar sem hann lauk námi í almennum málvísindum. „Síðan hef ég aðallega kennt frönsku í framhaldsskólum nema hvað ég ritstýrði Fransk-íslenskri orðabók sem Örn og Örlygur gáfu út 1995 í samvinnu við Le Robert orðabókaútgáfuna í París. Það var fimm ára stíf vinna. Einnig var ég sendikennari í Lyon í Frakklandi frá 2004 til 2007. Síðustu tíu ár hef ég búið ásamt Huldu Ólafsdóttur, konu minni, á Eyrarbakka. Við eigum tvo uppkomna syni og fimm barnabörn og höfum verið saman frá 1970,“ segir Þór í samtali við Dagskrána.

Þór gaf úr sína fyrstu ljóðabók árið 1989 og eru þær nú orðnar 19. Einnig hefur hann þýtt töluvert af ljóðum, aðallega úr frönsku en einnig dálítið úr sænsku. Þá hafa tvær sýnisbækur Þórs á íslenskum samtímaskáldum komið út á frönsku.

Hreifst af smákvæði Jónasar

Inntur eftir því hvað hafi dregið hann í áttina að ljóðlist í upphafi og hvernig þróun skrifa hans hafi verið í gegnum tíðina segir Þór: „Ég man eftir að hrífast af léttu smákvæði eftir Jónas Hallgrímsson sem barn. Tímarit máls og menningar frá upphafi og tímaritið Birtingur voru til á heimilinu og þar sótti ég í að lesa ljóðin svo að líklega hef ég alltaf haft áhuga á þeim. Á unglingsaldri orti ég dálítið þótt ég hefði ekki uppburði í mér til að koma því í Skólablaðið. Á fullorðinsaldri orti ég aðallega vísur í jólakort og því um líkt þangað til fyrsta bókin, Haustregnið magnast, kom til mín á nokkrum vikum í ágúst, líklega 1988.  Eftir það varð ekki aftur snúið. Ég veit ekki hvor hægt er að tala um einhverja þróun í skáldskapnum hjá mér. Ég held að ljóð mín hafi alltaf verið auðskilin en kannski hef ég orðið enn skýrari með árunum.

Ljóðin koma til manns í gusum

Þór Stefánsson við upplestur í Kaupmannahöfn þegar ljóðahópur danska rithöfundasambandsins fagnaði útkomu „Speglana“ hans í danskri þýðingu.

En hvaðan fær skáldið sinn innblástur? „Ég held að innblásturinn komi úr umhverfinu eða andrúmsloftinu. Ljóðin koma til manns í gusum. Þannig hef ég oft ort bækurnar á nokkrum vikum og svo verður kannski hlé á milli bóka. Stundum hef ég stillt mig inn á verkefnin og þá gjarnan lagt eitt ár undir hverja bók. Ég hef aðallega ort í frjálsu formi en einnig samið heilar bækur með stuðlum og höfuðstöfum auk ríms. Ljóð út í verður og vind (1998) eru sonnettur og Söngvar (2006) eru háttbundin ljóð en Vísur, sem komu út í fyrra, eru vísur! Hlaupár (2007) samanstendur af 366 þriggja línu ljóðum sem er skipt í kafla eftir árstíðunum. Nýjasta bókin mín, Stöður (2023), hefur nokkra sérstöðu því að hún er ort á 5-6 árum, en ég sendi frá mér fjórar aðrar bækur á þeim tíma.“

„Hálfgerð hornreka í samfélaginu“

„Mér finnst ljóð hafa veigamiklu hlutverki að gegna þótt þau séu reyndar sem stendur hálfgerð hornreka í samfélaginu. Þau koma með öðruvísi sjónarhorn en tíðkast annars í almennri umræðu og geta vakið óvæntar hugrenningar um hvaðeina. Fólk sækir ýmist hugarró eða örvun í ljóð. Ég hef fengið þau viðbrögð frá lesendum að þeim líði betur eftir að lesa ljóðin mín og það finnst mér gott að heyra. Einnig hefur lesandi lýst ánægju með að ljóðin mín séu svo einföld og auðskilin á yfirborðinu en svo komi ýmislegt í ljós þegar betur sé að gáð,“ segir Þór, aðspurður um hlutverk ljóða í nútímasamfélagi og því hvernig upplifun lesenda á ljóðum virðist frá hans bæjardyrum.

Hrífandi óhátíðleg nálgun

Sem fyrr segir hreifst Þór af skrifum Jónasar Hallgrímssonar, „fyrir eðlilegt og fallegt mál. En það eru aðallega skáld 20. aldar sem ég hef tekið mið af. Þar get ég nefnt Jón Óskar sem var móðurbróðir minn og kær vinur þrátt fyrir aldursmuninn, Sigurð Pálsson, sem var aðeins ári eldri en ég og ég kynntist vel árin sem við vorum samtíða í París, og loks Jónas Svafár sem hreif mig með óhátíðlegri nálgun að ljóðlistinni. Það gildir raunar líka um hina. Ef ég á að nefna sérstakar bækur þessara höfunda, þá væri það Nóttin á herðum okkar eftir Jón, Klettabelti fjallkonunnar eftir Jónas og fyrsta bók Sigurðar, Ljóð vega salt. Ekki má ég gleyma Þorpinu eftir Jón úr Vör og Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr en á aldarafmæli hans árið 2008 birti ég ítarlega greiningu á þessum ljóðabálki í samnefndri bók Sigurðar Þóris, myndlistarmanns, sem hafði málað mynd við hverja vísu bálksins, alls 77 málverk. Af erlendum skáldum verð ég líklega að nefna franska skáldið, Guillevic, sem ég hef þýtt nokkrar bækur eftir. Í sambandi við innblástur frá öðrum höfundum, get ég nefnt þrjár bækur sem ég orti í beinu samtali við heimspekilegar bækur eftir Søren Kierkegaard (Speglanir, 2018), Albert Camus (Uppreisnir, 2019) og Friedrich Nietzche (Gott og illt, 2020).“

Markmiðið að stuðla að jöfnuði og friði

„Kannski hafa ljóðin aldrei átt meira erindi en nú þegar tækniþróun er svo ör að okkur finnst hún beinlínis ógna allri mennsku. Þá er ekkert lát á blóðsúthellingum í nafni trúar eða þjóðernis og okkur ber öllum að leggja okkar af mörkum í þeirri viðleitni að bera klæði á vopnin. Ég tók í haust þátt í að stofna alþjóðleg samtök skálda, Poets of the Planet (POP), sem hefur það að markmiði sínu að gera ljóð sýnilegri og taka með þeim þátt í atburðum heimsins og stuðla að jöfnuði og friði en beita sér gegn kúgun og misrétti. Við höfum þegar haldið ljóðavöku til stuðnings þjóðum sem nýlega urðu fyrir mannskæðum náttúruhamförum og til styrktar hjálparstarfi Rauða krossins á svæðunum. Viðburðurinn tókst vel og við stefnum á fleiri slíkar uppákomur á næstunni. Næg eru tilefnin,“ segir Þór, aðspurður um hans framtíðarsýn á ljóðlist í ljósi tæknivæðingar og breytinga á menningarlegum áherslum.

Aukið vægi fyrir samfélagsskáldskap

„Atburðir í samfélaginu hafa vissulega áhrif á skrif mín. Þannig lagði ég heilt ár undir og samdi eitt ljóð á dag árið 2009 og gaf þau öll út í bókinni 2009 (2010). Þar eru yrkisefnin úr fréttum þessa fyrsta árs eftir hrunið auk hvunndagslífsins á tímabilinu. Ég held að kannski megi segja að samfélagsskáldskapur hafi fengið aukið vægi hjá mér með tímanum. Til dæmis var ljóð mitt, „Tækniframfarir“, úr Speglunum, nýlega birt á 35 tungumálum á vefsíðu Point Editions,“ bætir Þór við.

Gefandi samvinna

Þór segist alltaf vera með eitthvað á prjónunum. „Ég er langt kominn með handrit að næstu ljóðabók. Þá er ég með í vinnslu franska þýðingu á Uppreisnum en það verður sjötta franska þýðingin á frumsömdum bókum mínum. Þýðingarnar eru allar unnar að frumkvæði Frakkanna sem hafa líka hjálpað mér að þýða önnur íslensk skáld á frönsku. Fyrst var það Lucie Albertini, ekkja Guillevic og ötull þýðandi skálda frá Norðurlöndunum í samvinnu við þýðendur þaðan, sem bað mig að þýða með sér eftir mig. Síðan bauðst Nicole Barrière til að hlaupa í skarðið eftir að Lucie fór að eiga erftitt með þetta vegna heilsubrests. Þessi samvinna hefur verið mjög gefandi fyrir mig. Við Nicole erum auk minna ljóða nú með Ljóðorku-bækur Sigurðar Pálssonar í takinu en það er síðasti ljóðaþríleikurinn sem hann lauk við fyrir ótímabært andlát sitt. Danir hafa líka gefið bækur mínar út reglulega undanfarið og Frank Heinrichas er nú líka með danska þýðingu Uppreisna í vinnslu.  Það verður fimmta bókin eftir mig á dönsku. Á öðrum málum hafa aðeins komið út stakar bækur enn sem komið er,“ segir Þór að lokum.

Málverk eftir Toby Tover, USA.

Tækniframfarir

Þegar tæknin tekur öll völd

og auðveldar okkur ekki lengur

mannleg samskipti,

heldur kemur í staðinn fyrir þau,

 

við tölum ekki saman

nema gegnum síma eða tölvu

og öll mannleg nánd

verður aukaatriði,

 

börn leika sér ekki saman,

heldur hvert í sínum tölvuheimi,

og móðir gefur ekki brjóst

nema með athyglina á símaskjánum,

 

og ef við sjáum ástæðu til

að viðhalda mannkyninu,

verður það aðeins

með glasafrjóvgun,

 

þá göngum við í björg.

Þór Stefánsson, Íslandi
úr Speglunum.

Nýjar fréttir