-10.7 C
Selfoss

Skógarhugvekja

Vinsælast

Trausti Jóhansson, Skógarvörður á Suðurlandi.

Í aðdraganda jóla og í jólamánuðinum sækja margir í skóga Suðurlands sem og aðra skóga víða um land. Margir arka út í mörkina að leita sér fanga, sumir eftir rjúpum til að eiga í jólamatinn eða eftir jólatré til að prýða heimilið. Jafnvel hefur undirbúningur jóla hafist fyrr um árið þegar sveppir voru tíndir úti í skógi síðsumars til að nota í sósuna með steikinni eða tínt ber til að setja út á eftirréttinn. Sífellt fleiri hafa uppgötvað dásemdir þess að stunda útiveru í skógi og það að leita mat, ganga, hlaupa, hjóla, skíða eða renna á snjóþotu í skógi þá er það eitt það besta sem við getum gert fyrir líkama og sál. Upplifunin í skógi er engu lík. Útsýnið, ilmurinn, hljóðið, lognið, hvinur trjánna, lækjarniðurinn, fuglasöngurinn, refasporin, kyrrðin, frelsið, litirnir, rjúpurnar, marrið í sporunum og allt hitt sem dregur fram virkni skilningarvitanna. Samverustund fjölskyldu og vina í skógi er upplögð í tengslum við hátíð hækkandi sólar, kærleiks og friðar. Hvort sem það er að sækja jólatré eða fara í snjóboltastríð og fá sér piparköku og kakó á eftir þá er það samveran sem skipir mestu máli og ekki verra að gera það í fallegu umhverfi, laus frá veðri og vindum, stressi og amstri dagsins.

Þrátt fyrir að Íslands sé eitt skóglausasta land heimsins þá erum við svo heppin að eiga svolítið af skógum og Suðurland er sá landshluti sem er með mesta skógarþekju á Íslandi. Á síðasta ári fór fyrsta tré landsins yfir 30 metra hæð en það er sitkagreni við Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri, gróðursett af heimamönnum árið 1949. Það er reitur sem allir ættu að heimsækja og sérstaklega núna á aðventunni en þá taka bæjarbúar sig til og skreyta skóginn með ýmsum vættum og ljósum og skapa góða stemmingu. Við Sunnlendingar eigum líka einn elsta gróðursetta skógarreit landsins en það er Furulundurinn á Þingvöllum, en gróðursetning hans markar upphaf skógræktar á Íslandi en fyrst var gróðursett í reitinn árið 1899. Reyndar eru þær furur sem þar voru gróðursettar fyrstar ekki lengur þar en reiturinn er merkilegur þrátt fyrir það og líklega mest heimsótti skógarreitur landsins. Þjóðskógarnir í Haukadal, Þjórsárdal, Laugarvatni, Tumastöðum, Múlakoti og Þórsmörk eru vinsælir heim að sækja en einnig eru skógar Skógræktarfélaga og Ungmennafélaga víða um Suðurland og má finna skógarreiti í flestum hreppum, t.d. Þrastaskógur, Snæfoksstaðir, Bolholt, Skógar og miklu fleiri staðir. Sum skógræktarfélög eru virkari en önnur en það eru tækifæri fyrir íbúa sveita og bæja að virkja sín félög, yfir 60 skógræktarfélög eru á Íslandi! Orð eru til alls fyrst og hvet ég fólk til þess að ræða þetta á næsta þorrablóti eða eftir jólamessuna, hvort það megi ekki rífa upp skógræktarstarfið í þínu sveitarfélagi og auka skógarþekju og hirða um þá skóga sem fyrir eru. Ég hvet Sunnlendinga alla að eyða stund úti í skógi yfir hátíðirnar, Þjóðskógarnir standa opnir allt árið fyrir alla, alltaf!

Trausti Jóhannsson
Skógarvörður á Suðurlandi

Nýjar fréttir