1.7 C
Selfoss

Sveitar- og bæjarstjórar í jólaskapi

Vinsælast

Í aðdraganda jólanna höfðum við samband við alla sveitar- og bæjarstjóra á dreifingarsvæði Dagskrárinnar og fengum að vita aðeins um þeirra jólahefðir og minningar.

Hulda Kristjánsdóttir

Hulda Kristjánsdóttir
Flóahreppur.

Jólin mega koma þegar… jólasveinarnir á aðfangadagsmorgun hafa heimsótt okkur og þegar við höfum gelbt okkur út af möndlugraut í hádeginu hjá mömmu og pabba. Jólasveinarnir eru yfirleitt mjög hrekkjóttir og æða um allt hús þannig að það borgar sig ekki að skúra fyrr en eftir komu þeirra. Þeir hafa meira að segja stungið öðrum stráknum mínum í pokann sinn og ætluðu að taka hann með sér og síðast settust þeir í rólegheitum í stofuna og sögðust vera fluttir inn! Þetta eru hefðir sem við viljum halda í sem lengst á aðfangadag.

Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Brún lagterta, helst frá tengdamömmu, verður fyrir valinu.

Uppáhalds jólaminningin mín… er aðfangadagskvöld heima í Forsæti 4 í algjöru rafmagnsleysi þegar ég var barn. Ég man meira að segja hvað ég fékk í jólagjöf frá mömmu og pabba þetta kvöld. Jólamaturinn var borðaður frekar seint því það gekk hægt að klára mjaltir í rafmagnsleysinu. Ég á auðvitað ótal góðar jólaminningar frá því ég var barn og svo hafa skapast nýjar og góðar minningar í seinni tíð þegar við fórum að halda okkar jól. En samvera fjölskyldunnar er það sem skapar mikilvægustu og sterkustu minningarnar mínar.

Hvað er á jólaborðinu? Oft hamborgarhryggur en stundum lamb eða kalkúnn. Í ár verður líklega tvírétta til að mæta þörfum allra en ásamt okkur fjölskyldunni þá borða foreldrar mínir með okkur á aðfangadagskvöld.

Jólamynd eða jólabók? Það er mjög stór partur af aðdraganda jólanna að glugga í gegnum Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum með krökkunum mínum. Annars er það myndin A Christmas Carol sem við fjölskyldan horfum alltaf á saman fyrir jólin.

Uppáhalds jólasveinninn minn er… Stekkjastaur. Það er svo mikil spenna fyrir komu fyrsta jólasveinsins – bæði í minningunni sem barn og að upplifa spennuna í gegnum mín börn í dag.

 

Elliði Vignisson

Elliði Vignisson
Ölfus.

Jólin mega koma þegar…fjölskyldan er saman komin. Fyrir ótrúlega skömmum tíma fannst mér ekkert sjálfsagðara en við Bertha, konan mín, værum með börnin hjá okkur alla aðventuna og auðvitað um hátíðarnar. Nú er öldin önnur og þau á þvælingi um allan heim. Hingað til höfum við þó verið svo heppin að vera öll saman, öll jólin síðan þau fæddust. Ég er þakklátur fyrir það þegar við komum saman.

Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Brúnalagkakan hennar mömmu tilheyrir jólunum en jólakakan sjálf var hversdagsmeðlæti á mínu æskuheimili. Ég vel því brúnu lagkökuna, sem merkilegt nokk er hrikalega góð með hnausþykkum porterbjór.

Uppáhalds jólaminningin mín er… Þær eru nú margar. Ég hugsa að það sem sterkast tengist bernskujólunum sé að fara í bað á þorláksmessu og í hreint rúmið á eftir. Þegar við Svavar bróðir bjuggum báðir í Eyjum með okkar börn hittumst við ætíð á aðfangadagskvöld og spiluðum „grúrku“ þar sem keppt var um farandsbikar með miklu húllúmhæi, það eru mjög góðar minningar því tengdar. Svo verða náttúrulega til nýjar hefðir eftir þvi sem fjölskyldan breytist. Mörgum þætti það nú ef til vill helgispjöll en seinustu ár hafa uppkomin börnin mín boðið upp á nýjan jólakokteil á hverju ári, sem sannarlega skapar skemmtilegar minningar í bland við allt hitt.

Hvað er á jólaborðinu?  Við höfum haldið í jólahefð frá Presthúsum í Vestmannaeyjum þar sem móður afi minn og amma bjuggu og borðum lærisneiðar sem eru fylltar með beikoni og ávöxtum ásamt rjómasalati og brúnuðumkartöflum á aðfangdag. Í eftirrétt eru svo heimalagða Crem Brulé. Á jóladag borðum við svo hangikjöt hjá mömmu og sítrónufrómas í eftirrétt.

Jólamynd eða jólabók? (Hvaða mynd eða bók?): Hvorugt er sterk jólahefð hjá okkur. Við lesum mikið, og þá sérstaklega Bertha, og auðvitað gluggum við í bækur um jólin. Þá hefur það stundum gerst að tekið sé Harry Potter eða Lord of the rings maraþon. Sjálfur reyni ég að tefla sem mest um hátíðarnar en það er nú sennilega eitt af mínum helstu áhugamálum.

Uppáhalds jólasveinninn minn er… Stúfur. Ástæðan er sú að hann er eini jólasveinninn sem þorði að gefa henni Bjartey dóttur minni kartöflu í skóinn þegar hún lítil. Það bitnaði reyndar hressilega á kallgreyinu af því að hann dó þar með í huga Bjarteyjar og öll árin eftir það setti hún ekki skóinn út í gluggan þegar Stúfur kom af þeirri ástæðu að hann væri fáviti.

 

Jón G. Valgeirsson

Jón G. Valgeirsson
Rangárþing ytra.

Jólin mega koma þegar… ég er  búinn að pakka inn jólagjöfunum til konunnar á aðfangadag.

Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta?  Brún lagterta, rúsínur eru ofmetin fæða.

Uppáhalds jólaminningin mín er… Imurinn af jólamatnum, hangikjöt hefur þar töluverð áhrif

Hvað er á jólaborðinu?  Hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi

Jólamynd eða jólabók? Die Hard með Bruce Willis, engin spurning

Uppáhalds jólasveinninn minn er… Stekkjastaur, er að nálgast þann aldur.

 

Fjóla Steindóra Kristinsdóttir

Fjóla Steindóra Kristinsdóttir
Árborg.

Jólin mega koma þegar… jólasveinarnir koma til byggða á G&T rútunni.

Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? hvorugt flatkaka með hangikjöti (best í heimi)

Uppáhalds jólaminningin mín er… fyrstu jólin mín eftir að ég hóf búskap allt eitthvað svo dásamlegt við þá minningu.

Hvað er á jólaborðinu? Lambalæri, brúnaðar kartöflur, Ora grænar, rauðrófur, sulta og brún sósa.

Jólamynd eða jólabók? Jólamynd „The Holiday“

Uppáhalds jólasveinninn minn er… að sjálfsögðu Bjúgnakrækir við elskum bæði heimagerð hrossabjúgu.

 

Einar Kristján Jónsson

Einar Kristján Jónsson
Skaftárhreppur.

Jólin mega koma þegar… ég sest með fjölskyldunni við jólaborðið á aðfangadag

Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Brún lagterta eins og amma Sigga gerði

Uppáhalds jólaminningin mín er… ætli bestu minningarnar í núinu séu ekki fyrstu jól barnanna. Í æsku var það spenningurinn að hitta alla ættinga á jóladag og annan dag jóla.

Hvað er á jólaborðinu? Rjúpur með öllu tilheyrandi, hangikjöt og laufabrauð

Jólamynd eða jólabók? jólamynd með fjölskyldunni – Home alone eða Christmas Vacation

Uppáhalds jólasveinninn minn er… Stekkjastaur af því að hann var fyrstur

 

Valtýr Valtýsson

Valtýr Valtýsson
Ásahreppur.

Jólin mega koma þegar… hugur og hjarta eru tilbúin að að taka í móti jólagleði í faðmi fjölskyldunnar.

Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Jólakaka með rúsínum

Uppáhalds jólaminningin mín er… fyrstu jól mín og konu minnar ásamt 2 mánaða frumburði.  Ég hafði keypt handa henni hálsmen með demanti. Ég var eins og litlu börnin og gat ekki beðið eftir að klukkan yrði 18:00 og fékk konuna til að opna gjöfina sína fyrr svo hún gæti borið hálsmenið meðan við snæddum jólamatinn.

Hvað er á jólaborðinu? Hinir ýmsu smáréttir.  Tvíreykt hangikjöt, grafið folald, grafin gæsabringa, andabringa, hreindýr og að ógleymdri kavíarrönd.

Jólamynd eða jólabók? Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson

Uppáhalds jólasveinninn minn er… Stúfur, við erum örugglega í sama stærðarflokki 😊

 

Anton Kári Halldórsson

Anton Kári Halldórsson
Rangárþing Eystra.

Jólin mega koma þegar… þegar ég er búin í ísköldu jólabaðinu (allir í fjölskyldunni búnir í baði og heitavatnið á kútnum uppurið)

Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta ? Brún lagterta allan daginn, þar sem kremrendurnar eru þykkari en kakan.

Uppáhalds jólaminningin mín er… þegar ég fékk strauborð í jólagjöf….

Hvað er á jólaborðinu? Það mun vera grillaður humar í forrétt, ásamt grafinni gæs. Aðalréttur er hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi, þar er súrkálið hennar ömmu Lottu mest ómissandi. Eftirrétturinn er svo hinn eini sanni Jódís.

Jólamynd eða jólabók? Ég myndi frekar segja jólabók. Þá er það bókin sem ég fæ frá jólasveinunum á aðfangadag þegar þeir skondrast á milli húsa. Eins undarlegt að það kann að hljóma að þá er líklega Stella í orlofi líklega uppáhalds jólamyndin mín…

Uppáhalds jólasveinninn minn er… Sem barn var ég nú alltaf frekar smeykur við jólasveina. En ætli það sé ekki bara hann stúfur, nettur lítill kall.

 

Aldís Hafsteinsdóttir

Aldís Hafsteinsdóttir
Hrunamannahreppur.

Jólin mega koma þegar… stórfjölskyldan er búin að fara sinn árlega heimsóknarhring á milli heimila í Hveragerði, eftir hádegi á aðfangadag. Dásamleg hefð sem við höfum fyrir löngu gert ómissandi. Ekkert er mikilvægara eða dýrmætara en fjölskyldan og því erum við mikið saman um jólin eins og reyndar yfir árið allt.

Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Brúna lagtertan frá Myllunni með sultu og smjörkremi er bara jólin fyrir mér. Ég hef aldrei sjálf bakað lagtertu en ætla mér alltaf að gera það. Svo gerir mamma guðdómlega hvíta lagtertu og gefur okkur stundum eina lengju. Það er auðvitað ekkert betra.

Uppáhalds jólaminningin mín er… spennuþrungið augnablikið þegar mamma og pabbi dunduðu sér löturhægt í uppvaskinu á aðfangadagskvöld og við systkinin vorum að farast úr spenningi yfir gjöfunum og fannst tíminn aldrei ætla að líða. Einnig eru reyndar Þorláksmessukvöld á Selfossi ómissandi enn í dag. Áður fyrr heimsóttum við ættingjana og kirkjugarðinn og nú förum við ávallt í kirkjugarðinn en þar hvílir pabbi og stóri bróðir okkar ásamt frændgarðinum pabba megin. Selfosskirkjugarður á Þorláksmessukvöld er yndislegur staður og að hlusta á jólakveðjurnar á leiðinni heim er eitthvað annað – þá eru jólin komin hjá mér.

Hvað er á jólaborðinu? Lárus minn er matreiðslumeistari og á fyrstu árum búskapar okkar vorum við alltaf með eitthvað framandi í matinn eins og til dæmis rjúpur eða önd. En eftir  grát og gnístran barnanna hættum við þessu og tókum upp matseðil móður minnar sem er aspassúpa, lambahryggur og súkkulaðimús. Eftir það hefur enginn kvartað yfir jólamatnum.

Jólamynd eða jólabók? Ég get ekki haldið jól nema að sjá Family Stone, sígilda frábæra jólamynd sem reyndar er ekki á Netflix heldur á einhverri annarri skrýtinni sjónvarpsrás sem yngri kynslóðin er áskrifandi að. Þannig að núna er ég búin að panta að passa barnabörnin eitt kvöldið fyrir jól. Þau verða svæfð snemma svo amma geti horft á Family Stone. Svo er Arnaldur ómissandi um hver jól.

Uppáhalds jólasveinninn minn er… kertasníkir !

 

Haraldur Þór Jónsson

Haraldur Þór Jónsson
Skeiða og Gnúpverjahreppur.

Jólin mega koma þegar… fjölskyldan er komin saman til að njóta jólanna saman. Oft hefur verið mikið að gera í aðdraganda jólanna en þegar allir eru komnir saman á aðfangadag þá fyrst hefjast jólin.

Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Brúna lagtertan hennar mömmu er sú allra besta og hlakka ég sérstaklega til að borða hana  með ískaldri mjólk.

Uppáhalds jólaminningin mín er… árið sem sósan með jólamatnum var hvít en ekki brún. Í jólahreingerningunni hafði frúin tekið eftir því að sósuliturinn var útrunninn fyrir nokkrum árum og fór hann í ruslið. Þegar ég var svo að gera sósuna rétt fyrir kvöldmatinn greip ég í tómt, enginn sósulitur til og búið að loka öllum búðum. Þetta hefur ekki klikkað síðan og nú athuga ég sérstaklega fyrir jólin hvort það sé ekki örugglega til sósulitur.

Hvað er á jólaborðinu? Jólamatinn sé ég um að elda. Hann er alltaf sá sami og má alls ekki breyta honum. Kalkúnabringa fyllt með döðlum, fetaosti og lauk. Með þessu er hefðbundið meðlæti, gular, grænar, sykurbrúnaðar kartöflur og brún sósa.

Jólamynd eða jólabók? Ég hef aldrei verið mikið fyrir bókalestur, svo jólamynd verður fyrir valinu. Sú mynd sem oftast hefur verið horft á um jólin er Home Alone, þá sérstaklega fyrsta myndin.

Uppáhalds jólasveinninn minn er… Skyrgámur, enda hef ég borðað ógrynni af skyri í gegnum árin.

 

Geir Sveinsson

Geir Sveinsson
Hveragerðisbær.

Jólin mega koma þegar… ég er kominn heim á aðfangadag og undirbúningurinn og eldamennskan hefst, því mér finnst sú stund, ekkert síðri en máltíðin og kvöldið sjálft…

Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Ég held ég velji þá brúnu….

Uppáhalds jólaminningin mín er… Þegar ég lék jólasvein á Spáni 24. des 1989 fyrir íslenska vini mína sem voru mínir nágrannar og höfðu þann sið að jólasveininn kæmi með gjafirnar til þeirra. Mjög svo stressaður að 5 ára sonur þeirra myndi átta sig á hver ég væri og ég eyðilegði trú barnsins á jólasveininn.  En það slapp… Þess má geta að þessi 5 ára er Arnór Atlason, þjálfari í Danmörku og fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta.

Hvað er á jólaborðinu? Yfirleitt einhver villbráð…

Jólamynd eða jólabók? Jólamynd… Eða réttara sagt jólamyndir… Í desember er horft á nokkrar klassískar myndir, þær sömu jól eftir jól..

Uppáhalds jólasveinninn minn er… Stekkjastaur… þar sem ég lék hann í skólaleikriti í grunnskólanum fyrir mjög svo mörgum árum…

 

Iða Marsibil Jónsdóttir

Iða Marsibil Jónsdóttir
Grímsnes- og Grafningshreppur.

Jólin mega koma þegar… Búið er að taka létt jólaþrif á heimilinu og setja það í sparibúninginn, krakkarnir komnir í jólafrí í sínum skólum.

Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Brún lagterta.

Uppáhalds jólaminningin mín er…Jólaboðin hjá ömmu og afa í Hofi á Bíldudal voru ein af föstu hefðunum í æskunni.

Hvað er á jólaborðinu? Grafinn lax í forrrétt, hamborgarhryggur með tilheyrandi í aðalrétt og ananasfrómas í eftirrétt.

Jólamynd eða jólabók? Ég horfi yfirleitt á myndina Holiday á aðventunni… núorðið með einkadótturinni en hún er fjórtán ára 😊

Uppáhalds jólasveinninn minn er…hurðaskellir.

 

Ásta Stefánsdóttir

Ásta Stefánsdóttir
Bláskógabyggð.

Jólin mega koma þegar… allir eru komnir til síns heima og tilbúnir að halda jól.

Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Brún lagterta, ekki spurning. Mamma bakar þá bestu og það er mjög eftirsótt að mæta í kaffi þegar hún er sett saman og gæða sér á því sem er skorið utan af – stökkt og gott með kremi og sultu.

Uppáhalds jólaminningin mín er… frá bernskujólum í sveitinni, í minningunni var alltaf gott skautasvell um jólin og þar héldum við systkinin okkur gjarnan ásamt stórum hópi frændsystkina. Skautar voru algeng jólagjöf – og já smá vink hérna til jólasveinsins, mig vantar nýja skauta.

Hvað er á jólaborðinu? Það er alltaf það sama – og þykir frekar gamaldags. Raspsteiktar lambakótilettur og lærissneiðar með ýmsu meðlæti. Þar sem fjölskyldumeðlimir hafa hver sinn smekk hvað varðar eftirrétti þá hefur það þróast út í eftirréttahlaðborð, þar sem allir fá eitthvað við sitt hæfi.

Jólamynd eða jólabók? Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson er klárlega jólabókin, ásamt Jólin koma eftir Jóhannes út Kötlum, en þær eru komnar á sófaborðið og það verður gluggað í þær fram að jólum. Jólaljóðabókin Koma jól? eftir Hallgrím Helgason og Rán Flygenring er líka skemmtileg lesning um Grýlu, dætur hennar og jólaköttinn. Aðrar góðar eru Þegar Trölli stað jólunum eftir Dr Seuss, Jólasveinabókin eftir Rolf Lidberg, Jólagestir hjá Pétri eftir Sven Nordqvist, Jól í Ólátagarði og Víst kann Lotta næstum allt eftir Astrid Lindgren – já ég vex ekki upp úr barnabókum og þessar ættu að vera skyldueign á hverju heimili.

Uppáhalds jólasveinninn minn er… Kertasníkir, sá síðasti í röðinni.

 

Einar Freyr Elínarson

Einar Freyr Elínarson
Mýrdalshreppur.

Jólin mega koma þegar… ég fæ leyfi til að hengja jólaseríuna á húsið og búið er að kaupa miða á Baggalút.

Jólakaka með rúsínum eða brún lagterta? Brún lagterta allan daginn – rúsínur eiga bara að borðast súkkulaðihúðaðar með hnetum.

Uppáhalds jólaminningin mín er… samvera og spil með stórfjölskuldinni í árlegu jólaboði heima í sveitinni.

Hvað er á jólaborðinu? Humarsúpa að hætti mömmu, hamborgarhryggur og heimagerður ís.

Jólamynd eða jólabók? Lethal Weapon.

Uppáhalds jólasveinninn minn er… Kertasníkir – hann var yfirleitt rausnarlegastur með skógjöfina.

Nýjar fréttir