Lilja Magnúsdóttir var að senda frá sér skáldsögu sem ber titilinn Friðarsafnið. Lilja er íslenskukennari og hefur búið á Kirkjubæjarklaustri undanfarin ár en var áður kennari við Menntaskólann í Kópavogi. Á Klaustri skrifaði Lilja vefinn Eldsveitir.is sem fjallar um sögu, menningu og náttúru í Skaftárhreppi. Fyrir fáum árum kom svo út skáldsagan Svikarinn og árið 2022 kom út bókin Gaddavír og gotterí sem eru tíu smásögur sem gerast í sveit á Íslandi, um 1970 þegar börn höfðu ofan af fyrir sér sjálf alla daga, áður en síminn og sjónvarpið komu til sögunnar. Lilja leit við hjá okkur hér á Dagskránni og sagði okkur frá Friðarsafninu.
Örlagarík hjálparbeiðni
Friðarsafnið segir frá Frank sem leitar skjóls á Íslandi á leið sinni til Kanada. Frank felur sig í Háskóla Íslands þar sem hann kynnist ungum konum sem vilja hjálpa honum. Honum tekst að fela sig í marga mánuði en það kemst upp um hann þegar hann lendir í átökum á bar þar sem hann er rotaður og lendir þar af leiðandi á slysó. Þaðan hverfur hann og lögreglan leitar hans.
Rakel er önnur aðalpersóna bókarinnar. Rakel er listræn og sjálfstæð og er í vinahópi sem er að æfa Parkour og graffa um allan bæ. Rakel heillast af manni sem er mjög viljasterkur og sjarmerandi en hún finnur að hún ræður ekki alveg við hann og er farin að efast um að samband þeirra sé í lagi. Hún veit ekki hvernig hún á að losna úr sambandinu og veit heldur ekki hvort hún vill það, því tilfinningum hennar og skynsemi ber ekki saman um hvað gera skal.
Rakel hefur stofnað Friðarsafn og þangað kemur Frank og biður hana um hjálp. Rakel getur ekki neitað honum um skjól þó hún viti að það geti verið hættulegt fyrir hana. Og það á svo sannarlega eftir að setja líf hennar úr skorðum.
Skemmtileg og auðveld aflestrar
Fyrir hverja er Friðarsafnið? „Þrátt fyrir að það sé þungur undirtónn í sögunni og hún fjalli um alvarleg málefni er hún skemmtileg og auðveld aflestrar. Sagan hentar unglingum ekki síður en fullorðnum.“
„Fólk á flótta er bókstaflega sett í frysti“
En hvaðan kom hugmyndin að sögunni? „Það voru meðal annars þessar endalausu sögur um ofbeldi í nánum samböndum. Það er svo algengt og það virðist ekki minnka þrátt fyrir jafnréttisbaráttuna. Í dag er það ekki síst stafrænt ofbeldi sem unga fólkið er að glíma við og það kemur mjög við sögu í Friðarsafninu.“
„Ég hef kennt íslensku fyrir erlenda nemendur í mörg ár og það er átakanlegt að heyra sögur fólks sem hefur hrakist að heiman. Það er eins og mannréttindin hverfi. Mörgum finnst líka eðlilegt að tala niður til fólks á flótta. Fólks sem á ekkert sameiginlegt nema að það á ekki lengur heimili og leitar nýrra tækifæra. Sá sem var niðursetningur í gamla daga hafði rétt til að finna sér vinnu og þiggja laun. Flóttamenn sem leita eftir vernd hafa ekki einu sinni þann rétt að reyna að bjarga sér á meðan fjallað er um hvort ríkið er tilbúið að taka við þeim eða ekki. Fólk á flótta er bókstaflega sett í frysti: Bíddu þar til þú færð svar. Og það geta liðið margir mánuðir, jafnvel ár. Hvernig fer þetta með manneskjur?,“ bætir Lilja við.
Heimurinn á betri leið þar til Rússar réðust inn í Úkraínu
Friðarsafn á Íslandi? „Af hverju ekki? Friður er það sem okkur vantar mest í heiminum í dag. Mér fannst allt vera á leið til betri vegar í heiminum þar til Rússar réðust inn í Úkraínu. Ég trúði ekki að það myndi gerast þar til það gerðist. Maður heldur alltaf að allt sé betra í dag en áður, trúir því að við stefnum fram á við. Eftir árás Hamas á Ísrael og árásir Ísraela í kjölfarið efast maður mjög um að mönnum hafi farið mikið fram. Enn velja menn að berjast með vopnum, drepa saklaust fólk, í stað þess að leysa málin með því að tala saman og gera samninga. Kannski ættum við einmitt að stofna Friðarsafn á Íslandi?,“ segir Lilja að lokum.