1.7 C
Selfoss

Hjóluðu 1200 km með þrjú ung börn

Vinsælast

„Eins og að horfa á bíómynd“

Hjónin Sólveig Dröfn Andrésdóttir frá Hveragerði og Einar Þorfinnsson frá Selfossi (Denni) fóru, ásamt þremur börnum sínum, Örvari Þór 9 ára, Andrési 5 ára og Unndísi Evu 2 ára í fjölskylduferð út fyrir landsteinana í haust. Það sem sker þau þó frá hinum hefðbundnu íslensku ferðamönnum var ekki bara sú staðreynd að þau slepptu viðkomu á Tenerife, heldur flugu þau til Zurich í Sviss og héldu hjólandi 1200 km leið meðfram ánni Rín, með viðkomu í Frakklandi, Þýskalandi og Hollandi, þaðan sem þau flugu heim. Sólveig deildi ferðasögunni með okkur hjá DFS.is og eftir lesturinn er lítill vafi á að þau fjölskyldan verði einhverjum ævintýragjörnum foreldrum til fyrirmyndar í svipuðum ævintýraferðum. Við gefum Sólveigu orðið.

Við fjölskyldan lögðum land undir fót og skelltum okkur í ævintýraferð þann 16. september til 8. október. Planið var að hjóla meðfram ánni Rín. Við flugum til Zurich í Sviss þar sem ferðin byrjaði, hjóluðum meðfram ánni í gegnum Sviss, Frakkland, Þýskaland og Holland, flugum svo heim frá Amsterdam.

„Hægt að njóta þess sem fyrir augu ber“

Ferðin var 23 dagar, þar af 20 hjóladagar. Heildarvegalengdin var 1200 km, 60 km að meðaltali á dag.  Áskorunin var skemmtileg, yndisleg, ævintýraleg, stundum erfið og allt þar á milli. Það eru margar góðar ástæður fyrir því að hjólið er einstaklega skemmtilegur ferðamáti. Fyrir það fyrsta er þetta góð hreyfing sem hentar mjög mörgum, í öðru lagi er hægt að njóta þess sem fyrir augun ber og alltaf hægt að stoppa til þess að skoða betur og í þriðja lagi er hægt að komast yfir nokkkuð langar dagleiðir.

Eftirminnilegar ferðir úr æsku mótuðu ferðaáhugann

En hvað varð til þess að við ákveðum að leggja upp í þetta ferðalag? Aðalástæðan er ekki ein af þessum sem ég nefndi hér áðan þó að þær eigi þátt í því. Það er löng saga að baki en við fjölskyldan höfum notað hjólið mikið í gegnum tíðina. Frá því ég var lítil stelpa hef ég farið í ófá ferðalög með fjölskyldu minni, bæði hérlendis og erlendis. Við höfum farið í ófáar tjaldferðir á hjóli um nágrenni Hveragerðis og víðar. Við hjóluðum þá yfirleitt frá Hveragerði með „allt á bakinu“ og tjölduðum t.d. upp á Hellisheiði. Í eitt skiptið fórum við með ferjunni Baldri frá Stykkishólmi og hjóluðum suðurfirðina á Vestfjörðum. Allar þessar ferðir eru mjög eftirminnilegar og hafa mótað áhuga minn á ferðalögum, hreyfingu og ekki síst samveru með fjölskyldu og vinum. Þetta þótti öðruvísi ferðamáti fyrir 25 árum, og þótti sumum þetta hálf skrítið og mikil fyrirhöfn.

Sólveig í ferð með fjölskyldunni þar sem hjólað að Hlíðarvatni árið 1997.

Góð saman

Í dag eru hjólreiðar orðnar mun algengari og margir nota hjólið sem samgöngumáta. Sem betur fer er ég heppin að hafa nælt mér í maka sem hefur haft áhuga á hjólreiðum og gert að sínum lífsstíl. Denni notar mikið hjólið sem samgöngumáta til og frá vinnu, sem hentar vel því við erum bara á einum bíl. Þetta er í nokkuð góðri samvinnu hjá okkur, hann sér alfarið um allar viðgerðir á hjólunum og allt sem þarf að kaupa í kringum það, ég sé um skipulags hlutann. Við hjóluðum ýmsar leiðir á Íslandi áður en við eignuðumst börnin, ýmist ein eða með fjölskyldu okkar eða vinum. Við fórum t.d. strandirnar, upp á Hellisheiði, í kringum Þingvallavatn, hluta af Kjöl, Laugaveginn og ýmsar leiðir á sunnanverðum Vestfjörðum þegar við bjuggum þar.

Samtvinna áhugamálið og samverustundir með fjölskyldunni

Þegar við eignuðumst börn var markmið okkar að taka þau með eins og hægt var og rækta sambandið við þau á sem fjölbreyttastan hátt. Þannig er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, að sinna áhugamáli sínu oftar og auka samverustundir með fjölskyldunni. Mér þykir vænt um minningarnar sem að ég á frá því ég var yngri frá ferðalögum og finnst það mjög mikilvægt að gefa mínum börnum líka þennan grunn. Fyrsta hjólreiða útilegan okkar eftir að börnin komu til sögunnar var farin í Landeyjunum, þægilega flatt til að byrja fyrstu ferðina. Síðan þá höfum við farið í margar hjóla-tjaldferðir þar sem við hjólum á milli svæði eða hjólum út frá einum stað. Það getur verið flókið að skipuleggja hjólaferðir hér heima sem hentar fyrir fjölskyldu. Leiðin þarf að vera örugg fyrir bílum og hún þarf að henta mörgum getustigum. Við höfum lengi vitað að hjólreiðarstíga kerfið í Evrópu er mun betra og stærra en hér heima á Íslandi þar sem er sjaldan gert ráð fyrir hjólandi umferð, nema þá helst á Höfuðborgarsvæðinu. Við fjölskyldan erum reyndar afar ánægð með nýja sveitaveginn á milli Hveragerðis og Selfoss og höfum nýtt okkur þann veg til þess að fara í fjölskyldu hjólaferðir.

Tvö sett af fötum og heill haugur af búnaði

Þegar hugmyndin af þessari ferð kom upp þurfti ekki mikið til þess að sannfæra fjölskylduna og var allt sett á fullt í skipulagningu. Gera þurfti nákvæman lista yfir hvað þyrfti að hafa meðferðis, öllum óþarfa var sleppt. Hver og einn fékk 2 sett af fötum með sér og var planið að notast við þvottavélar á tjaldsvæðunum. Allur búnaður þarf að vera eins léttur og fyrirferðarlítill og hægt er. Við fundum okkur gott fjögurra manna göngutjald með góðu fortjaldi sem var mjög mikilvægt til þess að hægt væri að geyma allar töskur og skó inni yfir nóttina. Annað sem þurfti af útbúnaði var ferðavagn, ljós á hjól, hjálmar, Macride (barnasæti á hjól), auka slöngur, pumpu, viðgerðarsett, hlekki, smurefni, svefnpokar, dýnur, uppblásna kodda, ljós, þvottasnúru fyrir föt, hleðslubanka, ketill, pottur, hnífapör, bolla, prímus, beittan hníf, sápu, uppþvottabursta, tusku, viskastykki, kveikjara, pönnu, kaffikanna og skyndihjálpartösku. Einnig þurfti ýmis konar snyrtidót, þvottaefni, blautþurrkur, bleyjur, föt til þess að sofa í, hlýfðarföt, regnföt, sandala og sundföt. Þessu þurfti svo að koma fyrir í töskunum.  Það er ýmislegt sem getur komið uppá í svona ferðalagi og þess vegna þurfti allt að vera vel aðgengilegt til þess að auðvelt væri að sækja ef á þurfti að halda.

Hjól, töskur, vagn og barn tilbúin á odd-size færibandið.

Planið að njóta daganna

Við pökkuðum með góðum fyrirvara til þess að sjá hvort að allt kæmist vel fyrir. Við tókum líka æfingaferð hér heima með allan farangurinn til þess að sjá hvort að við gætum ekki örugglega hjólað með hann. Lengsta æfingaferðin okkar var 40 km sem er helmingurinn af lengstu dagleiðinni úti. Þessi æfingaferð var reyndar framkvæmd í ekta íslensku rokrassgati svo hún var alveg á við 60 km dagleið. En við vorum lítið stressuð fyrir löngum dagleiðum, planið var að hafa dagana vel fyrir okkur og njóta á leiðinni. Þetta myndi alltaf hafast á endanum. Við teljum okkur líka vera búin með óheppnisskammtinn í hjólaferðum erlendis.

„Stutt en afar eftirminnileg hjólaferð“

Haustið 2022 ætluðum við hjónin að fara í brúðkaupsferðina en við giftum okkur 2016 og vorum ekki búin að gefa okkur tíma. Planið var að hjóla í kringum Mont blanc. Stutta útgáfan af þeirri ferð er sú að ég fótbrotnaði á fyrsta degi eftir 30 km, eiginmaðurinn þurfti því að bera konuna niður af stígnum, við fengum far hjá strætó á næsta tjaldsvæði og komumst til læknis daginn eftir. Stutt en afar eftirminnileg hjólaferð engu að síður. Þessi leið er geymd en ekki gleymd og verður farin síðar.

En aftur að undirbúningnum. Til þess að koma hjólunum og farangrinum fyrir fengum við hjólakassa úr næstu hjólabúð. Við höfðum pantað flugsæti án farangurs (bara handfarangur) og bættum við „odd size“ farangri. Við notuðum fjóra kassa, eitt hjól í hvern kassa ásamt hjólatöskum, ferðavagninn fór sér. Til þess að koma fjórum risa kössum á flugvöllinn þurfti svo farangurskerru og bílstjóra. Það gekk vel að koma okkur á flugvöllin og koma kössunum fyrir, enda einstaklega þægilegur flugvöllurinn hér heima.

Fyrri met í kílómetrafjölda bætt á fyrsta degi

Þegar út til Zurich var komið beið okkar það verkefni að setja hjólin saman. Denni fékk það hlutverk að mestu en ég sá um að koma börnunum í hjólafötin og ganga frá farangri. Snilldin við að lenda í Zurich var að við gátum hjólað beint frá flugvellinum og út á leiðina, og kláruðum við það á fyrsta degi, strax búin að bæta fyrri met í kílómetrafjölda á hjóli á erlendri grundu.

Fyrstu tvo dagana var sólskin og logn hjá okkur. Við sáum svo ótal margt sem gaman er að upplifa á hjólinu. Við sáum flottar byggingar, ýmsar gerðir af ökrum, dýrum og listaverkum. Krakkarnir voru dugleg frá upphafi og vildu alltaf halda áfram eftir pásur. Við höfðum hugsað vel fyrir því að börnin myndu hafa það eins gott og hægt var í ferðinni.

Örvar Þór og Andrés. Fyrsti dagurinn byrjaði með trompi, sól og sumar og svo spennandi að hjóla framhjá öllum ökrunum sem á vegi þeirra urðu.

Við vorum með þá yngstu, Unndísi Evu sem er 2 ára, á Macride, sem er sæti ofan á fram stönginni á hjólinu hjá mér. Miðjan okkar, Andrés sem er 5 ára, var með teygjuspotta sem að hann gat hengt í pabba sinn og fengið auka kraft. Elsti, Örvar Þór sem er 9 ára, hjólaði einn og óstuddur alla ferðina, fyrir utan 5 km sem að hann fékk að prófa að vera í teygjuspottanum.

Létu rigninguna ekki á sig fá

Við hjóluðum ýmist í Sviss eða Þýskalandi sem var skemmtileg upplifun, að vera alltaf að skipta um lönd. Á þriðja degi byrjaði dagurinn með rigningu. Þá var ekkert annað að gera en að fara í regnfötin. Rigningin var ekkert sem stoppaði okkur enda var hún hlý á þessum árstíma og kemur yfirleitt lóðrétt niður. Við lentum aldrei í rigningu í heilan dag. Þetta voru örfáir dagar sem komu dropar og stóð þá yfir í stuttan tíma.

Strax fyrstu dagana vorum við búin að sjá mikið af dýrum sem voru í síkjunum og í eða við ána. Það gaman að sjá aðrar tegundir en þær sem eru heima á klakanum og hægt að gleyma sér við að fylgjast með þeim. Þriðju nóttina okkar gistum við á niðurníddu tjaldsvæði. Þar vantaði klósettpappír, sápu og sturturnar voru of skítugar til þess að geta farið í þær. Við bundum vonir við að komast í sturtu og þvottavél á næsta tjaldsvæði.

Spotify í botni hélt öllum vakandi

Tjaldsvæðin eru mörg meðfram Rín. Þau eru mjög misjöfn eins og þau eru mörg en flest eru þau góð. Fjórði dagurinn var sá næst lengsti í ferðinni. Veðrið lék við okkur og allir voru til í að halda áfram ferðalaginu. Við skoðuðum stjörnulaga virkið í kringum bæinn Neuf-Brisach og Maginot line sem er lengsta varnarlína í heimi á eftir Kínamúrnum. Það skapast ýmsar umræður þegar við skoðum sögulega minjar eins og þær sem við sáum í þessari ferð sem er skemmtilegt og kryddar tilveruna. Áfangastaðurinn þetta kvöldið var Europapark sem er stór skemmtigarður. Við þurftum að taka lítinn auka krók á okkur til þess að komast í hann og fara yfir til Þýskalands. En það var allt þess virði og mikil spenna fyrir morgundeginum. Seinustu kílómetrana var orðið myrkur úti og allir orðnir þreyttir eftir langan og viðburðaríkan dag. Andrés okkar var við það að sofna á hjólinu og brugðum við á það ráð að stilla Spotify í botn og spila nokkur vel valin lög til þess að halda öllum vakandi, það svínvirkaði.

Daginn eftir var ekkert hjólað heldur farið í Europapark. Geggjaður dagur þar sem allir nutu sín í botn. Sjötti dagurinn var ævintýralegur, lentum í ógöngum og varð dagurinn aðeins lengri fyrir vikið. Sem betur fer er alltaf hægt að fara í síman og fá leiðsögn og gátum við fundið rétta stíginn aftur. Við fundum gamlar skotgrafir úr seinni heimsstyrjöldinni sem var gaman að fara upp að og skoða. Við enduðum daginn á að hjóla um Strasbourg. Það er mjög skemmtilegt hvað það er töluverður fjölbreytileiki í leiðinni, allt frá kyrrðinni og dýralífinu við ána og yfir í borgarferð.

Spennandi að næla sér í ávexti beint af trjánum

Dagur sjö og átta liðu áfram. Við lentum í viðgerðum á hjólunum, ekkert alvarlegt og alltaf eitthvað sem hægt var að redda. Við hjóluðum í gegnum marga smábæi, stærri bæi og borgir. Meðfram stígunum uxu peru- og eplatré. Þegar við héldum að trén væru í almenningseign sendum við strákana að sækja ávexti fyrir okkur til að smakka. Það fannst krökkunum mjög spennandi. Þegar veðrið var sem heitast fundum við skemmtilegan gosbrunn þar sem að krakkarnir gátu hlaupið úr og í. Eftir þær svaðilfarir var nýtt hjóladress rifið upp úr töskunum og blautu fötunum raðað ofan hjólatöskurnar til þerris.

Langafi kvaddur við þýskt sólarlag

Á níunda degi hjóluðum við fram hjá stóru tæknisafni í Speyer þar sem strákarnir þrír hoppuðu inn að skoða. Mjög margt flott að sjá þar og hægt að eyða mun meiri tíma en það voru eftir þó nokkrir kílómetrar svo við urðum að halda áfram. Í lok dags fengum við leiðinlegar fréttir að heiman, að langafi væri dáinn eftir stutt veikindi. Hann var kvaddur við sólarlagið í Þýskalandi. Hann hafði átt gott og langt líf og rifjuðum við upp minningar og hvað okkur þótti best við afa.  Þetta kvöld komum við svo að lokuðum dyrum á tjaldsvæðinu, búið að læsa hliðinu og við ekki með gistingu. Við fundum hostel í nágrenninu og fengum gistingu þar. Þótt að það hefði verið munur að gista inni að svo mörgu leyti að þá finnst okkur miklu skemmtilegri upplifun að gista í tjaldi, það er svo notalegt að lesa í tjaldinu og liggja svo í einni kös.

„Eins og að horfa á bíómynd“

Á degi 10 fór landslagið að breytast. Við hættum að hjóla í gegnum akra og skóga. Við vorum komin í Rínardalinn með háum hlíðum og vínekrum. Í Þýskalandi var var gaman að hjóla við á mörkuðum og versla allskyns ávexti. Krakkarnir höfðu gaman að því að fylgjast með bátunum sigla upp og niður með ánni, sögðu að þetta væri eins og að horfa á bíómynd. Á degi ellefu kom babb í bátinn. Hjólið hans Denna var farið að gefa sig undan álagi og teinarnir að detta úr. Hann varð þess vegna að hjóla í næstu hjólabúð til þess að fá nýtt dekk. Sem betur fer var hjólabúð í nágrenni við okkur. Við heimsóttum líka kastala í einu af fallegasta þorpinu meðfram Rín, Eltville. Gaman að skoða gamla tímann og sjá hvað þessu er vel viðhaldið.

Á tólfta degi vorum við komin að frægasta stað Rínar, Loreley klettinn. Við notuðum bátastrætó til þess að komast yfir ána og að klettinum. Í ferðinni allri fórum við 26 sinnum yfir ána, ýmist yfir brýr eða notuðum báta. Það var skemmtilegt að heimsækja klettinn og kynna sér sögu hans. Sagan segir að kona að nafni Loreley hafi verið svikin af kærasta sínum sem hafi verið sjómaður. Hún hafi viljað hefna sín á öllum sjómönnum og sat upp á klettinum og söng tælandi söngva til þess að láta sjómennina sigla inn í dauðann, en það eru hættulegar grynningar við klettinn. Þennan hjóladag enduðum við í Koblenz sem er mjög fallegur bær. Þar sameinast Rín og Móseláin.

Aldrei í hættu á að vera keyrð niður

Á þrettánda degi voru allir ennþá mjög sprækir og til í að halda áfram með ferðalagið. Dagarnir byrjuðu oft á því að fara í búðina og fylla á byrgðirnar en við gátum ekki haft mikinn mat meðferðis í einu. Það er ótrúlegt að hjóla á milli allra þessara smábæja alltaf á hjólastígum og eiga aldrei í hættu á því að vera keyrður niður.

Sultuslök Unndís er öllu vön og leggur sig á stýrinu.

Pössuðu ekki inn í „dress code-ið“

Á fjórtánda degi gistum við á hóteli því að tjaldsvæðið sem við vorum búin og ætluðum að fara á var einungis fyrir húsbíla. Á fimmtánda degi hjóluðum við frá Köln til Dusseldorf. Við gátum skoðað okkur aðeins um í Dusseldorf. Við pössuðum illa inn í borgar stemminguna, hjól með farangri og púðabuxur voru ekki „dress code-ið“ í miðbænum. En það var bara skemmtilegt að vera aðeins öðruvísi en hinir. Við heimsóttum sjónvarpsturninn í borginni sem er 186 m.

Ferðafélagar slógust í hópinn

Sextándi dagurinn var seinasti hjóladagurinn í Þýskalandi. Þetta var reyndar extra spennandi dagur því um kvöldið kom bróðir minn, Úlfar og fjölskyldan hans til okkar. Þau flugu frá Amsterdam og tóku síðan lestir og leigubíl til okkar. Það var flókið að komast um borð í lestirnar með allan farangurinn, hjólin og börnin. Það gekk upp á endanum og mikið var gott að sjá þau. Hann og konan hans Lilja eiga tvö börn, Máney 3 ára og Eyberg 1 árs. Krökkunum þótti mjög gaman að hittast og voru allir spenntir fyrir áframhaldandi ferðalagi.

Á degi sautján hjóluðum við yfir landamæri Þýskalands og Hollands. Í Hollandi voru hjólastígar báðu megin meðfram einbreiðum sveitavegum þar sem að hjólandi umferð var í forgangi. Við gistum á geggjuðu tjaldstæði þar sem við vorum alveg út af fyrir okkur. Það var góð viðbót að fá bróður minn og fjölskyldu til okkar og ómetanlegt að þau hafi lagt það á sig að koma.

Frábærir ferðafélagar. Úlfar Jón Andrésson, bróðir sólveigar flaug út ásamt konu sinni Lilju B. Jónsdóttur og börnum þeirra tveimur, Eyberg 1. árs pg Máney 3 ára og slógust þau í för með Sólveigu og fjölskyldu.

Íslenskt veður gerði lítið til

Á degi átján fengum við íslenskt veður, rok og rigning á hlið. Sem betur fer var nú hlýtt svo að þetta slapp til. Ég var búin að lofa bróður mínum og fjölskyldu sól og sumri en það gekk ekki alveg eftir. Það gerði lítið til því að þau voru sem betur fer vel búin. Þennan dag stoppuðum við og skoðuðum kastalan í Doorwerth. Sá kastali var eyðilagður í seinni heimsstyrjöldinni, eins og svo margt annað, en var að endurbyggja hann aftur. Allir höfðu mjög gaman að því að skoða gamla hluti og að fá máta sig við kastala lífið. Á degi nítján sáum við fyrstu vindmyllurnar í návígi. Við sáum einu “drive through” vindmylluna í heimi og fórum inn í hana og fengum frábæra leiðsögn um hvernig vindmyllur virka. Áhugaverð og lærdómsrík heimsókn. Á þessum kafla leiðarinnar er Rín farin að kvíslast í fleiri greinar.

Nutu síðasta dagsins í Amsterdam

Á degi tuttugu hjóluðum við til Rotterdam þar sem leiðin endar. Á leiðinni hjóluðum við fram hjá mörgum síkjum. Þar var mikið fuglalíf og inn í bæjunum var fólk með árabáta við húsin sín. Seinasta hjóladaginn, á degi tuttugu og eitt hjóluðum við til Hoek van de Holland, sem er tanginn þar sem Rín rennur út í Norðursjó. Hér endaði hjólaleiðin formlega. Eftir mikil fagnaðarlæti og myndatöku fórum við í miðbæ Rotterdam þar sem vinkona bróður míns gaf okkur leiðsögn um borgina. Gaman að fá leiðsögn frá heimafólki og sjá staði sem við hefðum annars ekki skoðað. Daginn eftir fórum við yfir til Amsterdam þar sem við skoðuðum okkur um og nutum síðasta dagsins.

Ferðin gekk vel í alla staði og ég er ekki viss um að við hefðum viljað gera hana á annan hátt, hún var einstök. Börnin stóðu sig eins og hetjur og ferðin á eftir að skilja eftir sig margar góðar og ljúfar minningar. Hún sameinar áhugamál okkar sem eru ferðalög, hjólreiðar, útilegur og samvera fjölskyldunar.

Nýjar fréttir