12.8 C
Selfoss

Málverkauppboð til styrktar Grindvíkingum

Vinsælast

Myndlistarfélag Árnessýslu heldur uppboð til styrktar Grindvíkingum vegna jarðhræringanna á Reykjanesi. Uppboðið verður haldið á Hótel Selfossi, sunnudaginn 17. desember klukkan 14:00.

„Hann Pjetur Hafstein félagsmaður í Myndlistarfélaginu fékk hugmynd um að halda sýningu til styrktar Grindvíkingum, sem okkur öllum þótti frábær hugmynd. Svo ræddi ég við Pjetur og við komumst að þeirri niðurstöðu að það væri skemmtilegt að halda uppboð þar sem verkin væru til sýnis og fólk gæti svo boðið í þau á staðnum. Það er svo fallegt og gott fyrir hjartað að láta gott af sér leiða og með uppboðinu erum við svo sannarlega að gera það. Bæði listamennirnir sem eru að taka þátt og þeir sem kaupa verk. Allur ágóði rennur óskiptur til Rauða Krossins á reikning sem er eyrnamerktur Grindvíkingum,“ segir Berglind Björgvinsdóttir, formaður myndlistafélags Árnessýslu í samtali við Dagskrána.

Eitt verkanna sem boðið verður upp á Hótel Selfoss á Sunnudag.

Allir leggjast á eitt

Berglind segir viðbrögð við uppboðinu hafa verið mjög góð. „Ég er afar stolt og þakklát þeim félagsmönnum sem eru að taka þátt. Að vinna í listinni er mikil vinna og það er svo ánægjulegt hvað margir í Myndlistarfélaginu vilja vera hjálpleg og gefa frá sér verk. Það sýnir hversu frábærir allir félagsmennirnir eru í félaginu. Viðbrögð út á við hafa verið mjög góð, bæði frá fólki sem hefur áhuga á að koma á uppboðið og einnig frá Grindvíkingum. Þeir félagsmenn sem eru að taka þátt eru hæfileikaríkir, frábærir og stórkostlegir listamenn. Verkin eru öll mjög ólík og þau eru ýmist vatnslita, akrýl- eða olíumálverk.“

Tilvalið að versla jólagjafir fyrir þau sem eiga allt

Berglind segir þau vonast til þess að sem flestir mæti og leggi sitt af mörkum með kaupum á listaverkum til að styrkja Grindvíkinga á þessum erfiðu tímum. „Margt smátt gerir eitt stórt, er það ekki þannig? Til að uppboðið heppnist verður fólk að mæta og taka þátt í uppboðinu, jafnvel hægt að klára að versla jólagjafir fyrir þá sem eiga allt og á sama tíma styrkja mjög gott málefni. Ég hvet alla til þess að mæta sunnudaginn þann 17. desember klukkan 14:00 á Hótel Selfoss og vera með, það er aldrei að vita nema draumalistaverkið verði á uppboðinu og því er þetta tækifæri sem enginn vill missa af!,“ segir Berglind að lokum.

Meðfylgjandi myndir eru af hluta verkanna sem boðin verða upp á sunnudag.

Nýjar fréttir